Ólgusjór


Ég sit og stari á nóttina út um gluggann. Myrkur og enginn á ferli. Bara stjörnurnar að stríða mér. Það er logn. Ég dreg fyrir til hálfs og slekk á kertinu. Smeygi fótunum í inniskóna, hirði ekki um restar af narti. Það er kominn tími til að hvíla sig. Láta sig dreyma.
Ég sofna ekki. Sængin er við það að verða heit. Og ég, ég hitna með henni. Því ég er að hugsa. 
 
Ég glotti og finn hjartað slá. Taugarnar leiða niður. Sé þig fyrir mér bakvið augnlokin. Á ég að teygja mig í símann? Nei, ég er vönd að virðingu minni. 
 
Þú ert með mig, hefur mig. Áttir mig kannski í fyrsta. Svo bara endalaust áfram. Ég næ ekki að fóta mig. Sokkin, fallin og dottin. Ég og taugarnar. Myndin af þér. Ertu heima? Nei, mér er sama. Þú ert hér hvort eð er. Ég er stútfull af þér...

...þegar þú snertir. Kemur við mig. Horfir á mig. Bráðum verð ég geðveik. Það er heitt undir sænginni. Er þér kalt?
 
Komdu með varirnar og leggðu þær við mínar, leggstu bara yfir mig. Ég anda varla hvort sem er. Komdu nær. Vertu hjá mér. Með mér. Vertu í mér. 
 
 
Ég finn að ég titra, hvað er það? Þegar þú strýkur mér, hérna...og þarna. Þá verð ég dofin en samt á nálum. Finnurðu mig brosa þegar ég kyssi þig? Sérðu mig nötra, þegar þú labbar hjá. Ég finn af þér lyktina, jafnvel í fjarska. Hefurðu grun um mig, eftir þig, er ég reyni að sofna? 
 
 
Manstu? ...ég get rifjað það upp. Gerum það aftur. Bjargaðu mér. Ég tek andköf er hugurinn leitar þín. Eitt andlit og allt sem því fylgir. 
 
 
Renndu fingrunum undir haldarann, þrýstu honum frá. Komdu svo og kysstu mig. Mjúkt og endalaust. Strjúktu mér um hjartað og vertu ljúfur en ákveðinn. Ég veit ég er að springa. Finnurðu tifið? 
 
 
Við saman að svitna, var það nóttin? Ég veit ekki meir. Bara að ég drakk þig í mig. Bragð og lykt, því ég stenst ekki mátið. Þoli stundum ekki að þú sért til. Þú truflar mig.
 
Ég er sólgin. Banhungruð, sem aldrei fyrr. Mettaðu mig. Lofaðu. En ég skal ekki hringja. 
 
 
Ég ligg andvaka og brosi með tilfinningunum. Samt soldið pirruð. Heyrirðu mig hugsa? Ertu þarna? Kemurðu til mín í draumi? 
 
Ertu til í að drukkna í þessum ólgusjó? 

steina@spegill.is