Með fyllingu


Mig langar, bý mig undir það í huganum. Renni höndum niður mittið, yfir mjaðmirnar og aftur á rass. Spegla mig, finnst ég alveg eiga það skilið. Og fer í leiðangur.
Ég fer í nælonið og hælana, renni kjólnum yfir höfuð mér. Undir hljómar kannski lag...um að sinna því kallinu. Seilast í forboðinn ávöxt.
 
Allar hreyfingar og augnaráð beinast að þessum eina. Honum sem er svo seiðandi sætur. Með fyllingu sem bráðnar upp í mér.
 
Ég herja á götuna. Þefa uppi fórnarlamb og fæ mér sæti. Kona í þessum ham þarf bara kroppinn sem kallar.
  
Að leyfa sér að langa er sæla. Finna straumana liggja alla í eina átt. Taugaenda titra og glottið brjóta sér leið. Augun verða dreymin og senda skilaboð í skugga sólglerja, svo sterkt að molinn byrjar að bráðna. Ég verð að fá bragðið, beint í æð. 
  
Hann snýr sér við, óumbeðinn. Fannst ég kannski segja eitthvað. Reynir að ná augnsambandi sem er erfitt fyrir hann. Ég sé vel í gegnum glerin, beint í þessi augu. Kem honum til bjargar og bið um vatnsglas, með sóda. Mikinn ís. Hann kinkar kolli og flækir lappirnar við að snúa við á punktinum.
  
Ég veit hann vill ég snerti fingur hans. Svo ég geri það. Vil það vel. Hann sér ekki í augu mín en tekur eftir er ég bít í neðri vör að innan, til hliðar. Óþarfi að segja takk. Akkúrat núna. Svo ég þegi. Hann talar með augunum.
  
Drykkurinn er svalandi og ég að brjálast úr þorsta. Allt í stíl í dag. Ég þamba, svo lítið ber á og spyr hann er hann gengur hjá: Sendiði heim? Svona konfekt? Hann játar. Ég hripa niður götuheiti og númer á servíettu. Panta eina tegund. Og borga vatnið.
  
Ég vanda mig við göngulag meðan ég hverf úr sjónmáli og kemst loks heim til mín, iðandi í skinninu. Í stofunni eru sex kerti. Ég kveiki á þeim öllum. Sný mér aðeins fyrir framan spegilinn, enn með stút á vörunum. Fæ mér sæti og bíð komunnar.
  
Bjallan hringir og ég hleypi inn. Opna upp á gátt, set aðra hönd á mjöðm og vel mér svip. Hann segir:
  
Þú pantaðir súkkulaði. Þeir eru allir með fyllingu.
 
steina@spegill.is