Sár sem gróa


Ég sat og kroppaði, endalaust. Alla daga fram á kvöld. Inn í nóttina. Kvaldist eins og ég vildi það. Reyndi að sleikja blóðið því ég átti engan plástur. Kveikti mér í vindlingi, málaði augun.
Hlustaði á blús og fékk mér drykk...
 
...svo vakna ég og segi, hristu hausinn. Hættu að hjakka, haltu áfram. Skildu örið eftir þar sem þú stendur. Hvað meinarðu, segir hjartað. Á ég að sitja hér og bíða? Tjaslaðu mér saman og taktu mig með. Það er einhvers staðar partý.
  
Allir vilja ráðskast með rauðan vökvann. Vita betur, vita best. Þetta er svona, hitt er hinsegin. Og ég hlusta en heyri ekki orð. Þver og þrjósk í þessu fari. Magnað hvað við þráum að þjást. Það er rigning, í stíl við bláa slæðu.
  
Kraftarnir fara út og suður, í eitt og annað. Svo er ég staldra við, rispa ég mig. Ræð ekki við hugann, hann er beintengdur í suður. Til vinstri. Kannastu við það? Þar er vöðvi sem við teiknum á blað og litum rauðan. Stundum missir hann úr slag. Oft í gegnum augun. Farðu frá!  
 
Finnst þér ég vera að bulla? Ég er ekki hissa. Þetta er pistill um sár sem gróa að lokum. Þessa eftirsjá, örið. Eitthvað sem ég aldrei átti alveg hvort eð er. Eitthvað sem yfirtekur allar taugar. Skynsemin er eins og rispuð plata, segi það satt. En hvað veit hún? Gemmér smók.
  
Við hefðum getað átt það allt. Þú veist það líka. Sumir segja að stundum þvælist hræðslan fyrir manni. Hvað heldur þú? Gunga er asnalegt orð. Hræðslupúki.
  
Ég flysja hvítlauk og hendi flusinu í tunnu, farðu með. Ég eiri ekki lengur. Með brúna flösku úr gleri, finn ég þig við varir mínar. Þú ert kaldur. Drullaðu þér í eitt skipti fyrir öll. Hvar fékkstu þennan röndótta bol?
  
Ég á að gefast upp á því. Að heyra þig í hverju orði, sama hvaða disk ég set í tækið. Stór stelpa, veit betur. Eða veit bara alls ekki neitt. Það er óþolandi. Get ómögulega tekið til í þessu drasli. Þetta skildum við eftir. Ætlarðu ekkert að hjálpa til? Að sópa þér út?
  
Blessaður komdu þér þá fyrir, þú ert alls staðar hvort eð er. Ég ætla að sofa í þér í sænginni minni. Skríddu inn í mig líka. Þú ert hvort sem er að gera mig brjálaða. Set þig í frysti á morgun bara. Það er vont gott að rífa ofan af.
 
En ég get það ekki lengur. Örið er mjúkt.

steina@spegill.is