Ástarsögur


Ég lauma hönd í aðra þar sem við fetum göngustíg í tunglbirtu. Komdu með mér, ég skal sýna þér hvað ég hugsa. Ég banda frá mér grein á appelsínutré, hann er þröngur þessi stígur. Og ég þarf varla að útskýra hvað í ósköpunum við erum að gera á miðjum akri um nótt. Eða hvað?
Þú bremsar allt í einu, og ég get ekki annað; fingur mínir flæktir við þína. Stoppa líka og sný mér að þér. Við höfum lítið sagt enn sem komið er. Kannski viltu segja eitthvað, ég horfi spyrjandi. Höndin sem ekki er flækt við mína lyftir sér á annað plan og strýkst upp mjöðm mína og aftur á bak. Læðist yfir öxlina tilbaka og niður brjóstið; berskjaldað í haldara undir hlýrabol. Húðin er klístruð. Það er rakt í lofti.
  
Við horfumst í augu. Það fylgir, en bara stutta stund því ég þarf bráðum að loka mínum. Bara um leið og ég finn þínar varir leggjast að munni mér. Halla augunum aftur og laumast til að smakka þig. Með tungubroddi; strýk honum varlega eftir vörunum. Á meðan ég þreifa þannig fyrir mér, færist meira fjör í leikinn. Hendur fara í leiðangur um líkama.
 
Mjúkar línur og kvenlegar, nokkuð hraustar. Þeim finnst gott að láta skoða sig. Og ósjálfráð viðbrögð lauma höndum mínum um mitti. Inn undir bol og upp eftir kroppi. Þær finna brjóstkassann og vöðva í baki. Ganga svo langt að lauma sér niður fyrir buxnastreng, færa sig framar og hneppa tölu. Þá glottirðu.
  
Nú liggur hvítur bolurinn í rykinu, restin fær að fjúka. Við stöndum enn, erum að kynnast. Hita upp. Kveikja á tökkunum. Þú ert seigur með mína, leikur þér að því. Og ég finn allt þitt takast á loft undir gælum mínum. Andskotinn hafi það; ég leggst í rykið og dreg þig með mér.
 
Ég er stundum ein og sem ástarsögur handa sjálfri mér. Ef ég skrifa leikrit, viltu leika hlutverk?
 
steina@spegill.is