Háskaleikur


Ég er logandi bál um stund. Fyrir þig. Þú ert ávani og bindandi. Sestur að í huga mér og sál. Öllum kroppnum. Ef leiknum er lokið, sit ég í rústunum. Brotunum og sprungunum. Háskalegur leikur elskan. Ertu hættur? Ertu hræddur? Það er fyrirséð að tapa.
Ég man þegar ég sá hann hið allra fyrsta sinn. Glampann í augum sem snertu mig alla. Struku mér upp og niður. Enduðu í mínum. Sögðu hér er ég. Að horfa á þig. Og gera meira en það. Ég er bráðið vax sem lekur yfir allt. Þú hitar mig upp. Með einu blikki. Já, svona er ég lin. Þegar ég finn af þér lyktina.
 
Komdu aðeins nær, áður en þú hverfur. Ef þú ert að hugsa það. Því nú er ég á nálum. Allar taugar þandar og ég eiri varla lengur. Hvað ertu að meina? Vildi svo ég gæti áttað mig á öllu. Lesið það úr svitanum og bragðað það á tungunni. Vitað hvað það þýðir er þú kreistir mig fast. Heyrt einhver orð í stunum sem ég anda að mér. Það er allt sem ég vil.
 
Leyndarmál í sálinni. Springa þau út með húðinni um þig allan? Ég skynja um of og á mér hvergi athvarf. Fyrir þér. Þú eltir mig um allt. Hvað get ég sagt? Þegar þú felur þig í hornum. Ertu villtur? Viltu að ég leiði þig? Eða týndur og ég finn þig aldrei meir?
 
Vertu alveg rólegur. Þetta er tímarit, ég er að búa þig til. Þú ert hræddur en þig langar. Ég er ekki vitlaus. Bara sjúk í þig. Þú þarft að þola það. Þegar augun lokast í hægum kossi. Þá kviknar í mér. Hver ræður? Hann eða þú? Farðu að átta þig á því. Háskaleikur þetta brölt. Ertu inni eða úti? Kannski bæði?
 
Ég rata ekki tilbaka...lent í háska, þarf að þrauka. Mundu þetta er tímarit. Gæti sem best strokað þig út. Ef ég hefði nú skrifað með blýi.
 
steina@spegill.is