Þrá


Undarlegir dagar þessir dagar sem teygja sig inn í næturnar. Finn svo skrýtin lítil atriði sem einhvern veginn setja mig í klemmu. Mála mig út í horn. Það er gott og slæmt. Þægilega óþægilegt og kemur á óvart. Það ert þú. Og ég hugsa: Hvað er það? Sem strípar mig er ég reyni að berjast. Varnarlaus en með alla anga úti. Þversagnir á þversagnir ofan.
Ég veðja á brosið þitt, tapa fyrir augunum. Það er skák og mát er ég snerti þig. Ekki snerta mig. Segirðu. Að ég leiði út. Þú leiðir inn. Alla leið að kvikunni. Ég er alveg bit. Skil ekki þennan ofstopa. Af hverju?
 
Er það svona sem það er, að elska og vilja. Að þrá og þurfa. Er það þetta sem er skrifað um í bókunum? Sem erfitt er að finna. Sem allir sækjast eftir. Sem hefur í hæstu hæðir um leið og það fellir mig að fótum þínum. Slekkur á mér, gerir mig máttvana og kveikir í mér, svo ég loga. Segðu mér, er það þetta?
 
Eða kannski veistu það ekki. Finnurðu til?
 
Stundum vil ég status quo, stundum allt á annan endann. Hugsa það lengra en frýs á staðnum. Ég er áralaus bátur á reki. En stend sem fastast svo þú sjáir mig. Ég er rauður litur ástríðunnar. Ég er blá slæða, mjúkur blús. Ég er bros, ég er blikk. Og varir um þínar.
 
Ég er þú í mér. Og get endalaust um það hugsað. Í einrúmi og í mannmergð. Þú treður þér að. Við vinnu og leik. Yfir pönnu, undir vatni. Þú ert ofan í skúffum og í sögu í bók. Ég sé þig er ég lít í spegil. Strýk þér niður mjöðm mína. Nudda þér með kremi yfir brjóstin. Farðu frá, svo ég megi anda. Bíddu ég er á leiðinni. Ekki láta mig bíða. Gerðu það aftur.
 
Svona læt ég og þú lætur hinsegin. Ég og þú sem ekki erum við. Ekki saman, því þá erum við eitt. Tókstu eftir því? Ég gleymdi mér í þér. Veistu, þú mátt bara eiga mig. 
 
steina@spegill.is