ÍSLENSK HÖNNUN: EM ART


Það er endalaust gaman að kynna ykkur fyrir nýja hönnuði sem eru að gera flotta hluti og ætla ég að halda því áfram.
 
Ég kynni fyrir ykkur hana Ellen Magnúsdóttir. Hún er menntuð sem líffræðingur en hefur alltaf verið mikið að föndra og teikna.
 
"Ég hef aðalega verið að teikna og mála olíumálverk en sumarið 2011 fór ég að fikta mig áfram í að búa til skartgripi. Það vafði svona heldur betur uppá sig því aðrir urðu mjög áhugasamir um þetta "föndur" hjá mér og fór ég þá út í að hanna skart fyrir almenning.
 
Ég myndi kalla mig "frístunda hönnuð".
 
Ég er mest í teikningu og olíumálverkum en skartið hefur aukist ansi hratt hjá mér. Ég hanna úr nánast öllu mögulegu og er alltaf að bæta einhverju nýju við. Ég hef mikið verið að gera trékúlufestar sem ég mála og lakka sjálf. Annars er ég að búa til allskyns skart og það fer eftir hverju sinni hvað ég er helst að hanna.
 
Nýjasta sem ég er að nota eru steinar úr íslenskri náttúru. Ég slípa þá sjálf, svo er ég með kinda og geita horn sem ég sker út og slípi og set íslenskar rúnir á. Einnig bætti ég við mig í fyrra að rista rúnir í glös, bæði hef ég ristað nöfn á fólki og galdrarúnir t.d Ægishjálm og Vegvísi."
 
Ég var forvitin að vita hvort hún Ellen ætti uppáhalds hönnuð, erlendan eða innlendan.
 
"Ég veit ekki hvort ég eigi einhvern uppáhalds hönnuð en mér finnst æðislegt hvað íslensk hönnun er orðin fjölbreytt og falleg. Ég er líka meira fyrir "litlu" merkin þ.e þeir sem eru að gera þetta af áhuga og þar sem verðin eru sanngjörn. Sem dæmi get ég nefnt Helma Art og Krista Design, en mér finnst þær vera með ákaflega falleg verk. Einnig sem góð vinkona mín Vera Thordardottir (fashion designer) er alltaf með ofsalega fallega hönnun á fötum og fleiru.
 
Ég er mjög dugleg að nota muni úr eigin hönnun. Ég held að flestar myndir og teikningar heima hjá mér séu eftir sjálfa mig. Annars nota ég líka mikið af skartinu mínu. Í uppáhaldi hjá mér núna eru glasaskrautin sem ég geri. Til að einstaklingsmerkja glösin í veislunni sem og sjálf glösin sem ég risti í. Ég veit ekki hvort ég geti gert upp á milli skartsins enda á ég nánast eitt af hverri gerð sjálf þar ég ég get ekki ákveðið mig." Segir Ellen að lokum. 
 
EM ART er með heimasíðu og einnig á Facebook  og svo er hægt að ná í Ellen á: ellen@emart.is
 
Hún er einnig með hluta af skartinu sínu og myndum til sölu á Listatorgi Sandgerðis og bendir á þeirra Facebook-síðu. 
 
Kíkið á fallegt skart og myndir frá henni Ellen á EM ART.
 
Njótið~
 
 
 
 
 
 
anna@spegill.is