ÍSLENSK HÖNNUN: Krista Design


Hún María Krista er snilldarhönnuður. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér. Kynni ég hana hér með fyrir ykkur.
 
Hún María Krista segir að það megi skipta því í tvennt sem hún er aðalega að hanna.
 
Annars vegar er hún með heimilisvörurnar vinsælu eins og ostabakka, hitaplatta og klukkur sem eru mikið teknar í gjafir. Hún er með mikið úrval að gjafavöru sem hentar flestum.
 
"Við erum svo með smærri hluti til gjafa sem hafa verið ótrúlega vinsæl eins og "skeiðina hans afa" en það er götótt skeið, margir hafa rekið upp stór augu þegar þeir sjá hana en tilgangurinn er að veiða upp baunir, fetaost og ólífur án þess að vökvinn fari með.

Þær eru merktar mismunandi eftir matartegund. Sagan bak við þessa hönnun er að afi minn heitinn var vanur að gera þetta fyrir ömmu á búskaparárunum. Hann boraði út gamlar súpuskeiðar í þessum tilgangi og fannst okkur þetta svo mikil snilld að við endurgerðum okkar útgáfu af skeiðunum í minningu hans.

Nýlega bættum við svo við bókamerkjum sem gætu verið afar sniðugar útskriftargjafir.

Hins vegar er það svo allt skartið sem er sívinsælt. Bæði Perluprýðin okkar sem við höfum verið með frá upphafi og eru handsaumaðar og unnar perlufestar úr máluðum tréperlum og silkiborðum. Þær eru orðnar klassík en það er engin af þeim eins. Í fyrra bættum við við Perluprýði í styttri kantinum í nýjum litum með keðju og Perluskottum sem hafa verið mikið tekin.

Svo eru það nafnanistin, þau eru alltaf jafnvinsæl en þau eru öðruvísi en þessi hefðbundnu því þau eru úr ryðfríu stáli og hanga niður lóðrétt í síðri keðju.
Einnig erum við með fleiri persónulega skartgripi, hálsmen eða armbönd sem merkt eru nafni barnanna, upphafsstöfum makanna og fleira í þeim dúr. Skartið úr álinu er enn "heitt" og hentar í raun öllum aldri, kríur,hreindýr,krummar og uglur eru einna vinsælust.

Skartgripahengin verða líklega algeng fermingargjöf í ár og við erum bæði með fuglagrein úr krossvið sem hentar vel undir fylgihluti, Fuglasnaga úr áli og "hjartagull" álhjarta sem má hengja í glugga og nýta sem prýði í svefnherberginu í leiðinni.

Steplur, við verðum nefnilega að muna að geyma ekki skartið okkar inni á baðherbergi."
 
En hvað ætli hönnuður eins og María Krista geri í sínum frítíma?
 
"Þar sem ég vinn mikið heima og starfa ein við framleiðsluna þá hitti ég ekki marga svona dagsdaglega en ég hef það fyrir reglu að stunda leikfimi (sumum finnst ég eiga heima í ræktinni) en það er svo nauðsynlegt að skipta um umhverfi og hitta hresst fólk og það geri ég á Líkamsræktarstöðinni HRESS í Hafnarfirði.
 
Svo þykir mér gaman að fötum og tísku og er ekkert að hata það neitt að kíkja í búðir. Leikhúsferðir eru tíðar hjá fjölskyldunni og tökum við þá alla strolluna með eins og hún leggur sig. Það er svo frábært að kynna börnum fyrir almennilegu leikhúsi. Ferðalög eru líka yndisleg tilbreyting og stefnum við á Vestfirðina í sumar."
 
Ég spurði Maríu Kristu hvað hún héldi að yrði "hot item" í tískunni í sumar.
 
"Mér finnst GULL æði og það er minn litur svo ég vona að hann verði áfram "hot item" í tískunni. Gull passar svo vel með sumarlitunum, túrkis og orange, bláu og kóralbleiku. Ég mun allavega leggja töluverða áherslu á þessa liti í perlufestum og slíku og verð einnig með gullfestar úr flettuðum geðjum sem eru að koma skemmtilega út."
 
Í lokin spurði ég hvaða 5 hluti María Krista myndi taka með sér í ferðalag:
 
"Fyrir utan eiginmanninn og fjölskyldu þá yrði það góð nuddolía, því ég myndi nýta ferðina vel í afslöppun og nýta kallinn í leiðinni. Svo er Iphoninn skuggalega ómissandi, Foam flex boltana mína sem eru æðislegir fyrir kroppinn, bók sem ég er búin að ætla að lesa síðan á jólunum og auðvitað snyrtibudduna." Segir þessi flotta dama. 
 
Til að skoða hönnun Krista Design þá er hægt að fara inn á www.kristadesign.is og einnig inn á Facebook síðu sem er uppfærð reglulega. Settar eru inn myndir af nýrri vöru reglulega og auglýstur opnunartími.
 
Svo er alltaf opið hús í hverri viku og er það á miðvikudögum milli 16.00 og 21.00 á hennar heimili að Brúsastöðum 2 í Hafnarfirði. En þar er hún með lítið gallerí til umráða á lóðinni.
 
"Mér finnst mjög gaman að fá viðskiptavini mína í heimsók í "sveitina" miklu betra að skoða og versla í rólegheitum, fjarri ys og þys verslunamiðstöðvanna." Segir hún að lokum. 
 
Svo má ekki gleyma því að vörurnar hennar fást á töluvert mörgum stöðum á landinu, t.d. á;  Akureyri, Reykjavík, Kópavogi, Akranesi,Hafnarfirði og fleiri stöðum landsins og þá helst í hönnunar- og blómabúðum hér og þar. Nánari upplýsingar um þessa staði má finna á heimasíðunni.
 
Frábær hönnun og svo fjölbreytt. Endilega skoðið síðuna hennar, ég mæli með því.
 
Njótið~