ÍSLENSK HÖNNUN: JM Design


Jóna María er konan á bak við JM Design.
 
"Ég er lærður klæðskeri, útskrifuð úr Iðnskólanum 1991. Ég byrjaði c.a 11 ára að sauma föt á mig sjálfa og vinkonurnar og þá bjó ég til mín eigin snið líka.
 
Ég litaði fatnað líka og notaði oft efni sem voru ekki ætluð í fatnað. Ég er fædd með þessa þörf og hæfileika til að gera snið beint á gínu eða bara teikna snið og jafnvel klippa það beint út." Segir Jóna María.
Hrífst af litum, formum -leiðist drapplitað og grátt
 
"Ég er líka með meðfædda hæfileika til að teikna mjög vel en þó að ég teikni oft upp flíkina þá gerist hönnunin oft beint í saumaskapnum og við mátun. Þá breyti ég og bæti og stundum gerist eitthvað nýtt sem ekki var planað.
 
Ný flík eða form. Ég veit ekki hvaðan þessi þörf kemur en ég hrífst af litum, formi og hef mikla fegurðarþörf. Mér leiðist allt venjulegt drapplitað og grátt.
 
Í hjarta mér er mín hönnun eiginlega alltaf "performing" eða skapandi tilfinning, gleði, hreyfing eða styrkur sem ég vil gefa út til annarra og gefa öðrum þetta skemmtilega tækifæri til að upplifa það sem ég upplifi með minni hönnun."
 
 
Allt sem ég sé og upplifi fer í hugmyndapottinn 
 
"Hönnuður þarf að skapa sér sín eigin tækifæri og það þarf oft mikla undirvinnu áður en hönnuður getur sett sína vöru fram. Mitt tækifæri er að koma núna. Í mínu tilviki þá taka þessar stundir sem fer í hönnunina allan minn hug, kraft, tíma og orku.
 
Allt sem ég sé og upplifi fer í hugmyndapottinn og hefur þannig áhrif á hönnunina. Ég hanna fatnað sem er í senn fallegur, praktískur, þægilegur og skemmtilegur. Ég hanna ekki fyrir sérstakan aldur, heldur kvenfólk sem fílar minn stíl og er ekki hrætt við að vera svolítið öðruvísi og vill lifa lífinu lifandi."
 
 
En hvað ertu aðallega að hanna?
 
"Fylgihluti fyrir kvenfólk undir nafninu JonaMaria sem er selt í helstu ferðamannaverslunum hérlendis síðan frá árinu 2005. Og svo nýlega fatnað undir nafninu JonaMaria. Fatnaður og fylgihlutir eru seldir í versluninni Simply á Laugavegi 37 og er hugsað fyrir allar sem vilja."
  
Christian Dior með skemmtilega tilfinningu og drama
 
"Mér fannst alltaf Christan Dior vera með svo skemmtilega tilfinningu og drama eins og lífið sé leikrit og hvaða hlutverk vilt þú leika og þá klæddu þig eftir því. Einnig er ég hrifin af Andrew Gn." Segir þessi lífsglaða og flotta kona að lokum og þakka ég henni mikið vel fyrir spjallið.  
  
 
Hún er svo frábær hún Jóna María. Þvílík lífsgleði! Ég bara smitaðist fram í fingurgóma við að slá inn þetta fína viðtal okkar.
 
Yndislega flottar myndir fylgja hér með og ég mæli sko með því að þið skoðið.
 
Njótið~
 
 
 
  
  
 
 
anna@spegill.is