Íslensk hönnun: Líla Lirio - hárbönd fyrir allar prinsessur


Hún Thelma Þorsteinsdóttir er fædd og uppalin á Blönduósi. Hún er daman á bakvið Líla Lirio og hannar dásamlega fallegt hárskraut fyrir ungar dömur. 
 
Thelma stundaði almenna hönnun og fatatækni í Tækniskólanum og hefur hún saumað, hannað, teiknað og skrautskrifað frá unga aldri. 
 
 
Hóf að búa til hárbönd eftir að dóttirin fæddist
 
"Ég var búsett í Lundi hjá bestu vinkonu minni í Svíþjóð og ferðaðist með lest til Kaupmannahafnar til að stunda nám í fatahönnun í Margrétar-skólanum sem er á Strikinu. Það var ótrúlega skemmtileg lífsreynsla að flakka þarna á milli og fara vel út fyrir þægindaramman og prufa eitthvað alveg nýtt. Mig langar að halda áfram í hönnun enda er ég þar algjörlega á heimavelli.
 
Ég fór að búa til hárbönd eftir að dóttir mín hún Lilja Margrét fæddist í ágúst 2011 og er nafnið Líla Lirio í höfuðið á henni. Litli frændi hennar gat ekki sagt Lilja og sagði alltaf Líla og Lirio þýðir Lilja á spænsku svo í raun þíðir nafnið "Lilja-Lilja". Nafnið átti að vera tímabundið en síðan mín á Facebook varð svo vinsæl strax að það var ekki aftur snúið." Segir Thelma. 
 
 
Tók málin í sínar hendur
 
"Ég leitaði mikið af fallegu hárskrauti fyrir dóttir mína en fann lítið sem ekkert hérlendis né erlendis og það sem ég fann var ekki beint það sem ég var að leita að. Ég var óánægð með það sem ég nældi mér í eins og frá H&M, Carters og fleirum svo ég tók málin í mínar eigin hendur og fór að búa til hárbönd sjálf.
 
Stelpurnar í mömmu hópnum mínum báðu mig um að gera fyrir sig og svo vinir og kunningjar. Þetta varð svo vinsælt strax, mun vinsælla en ég átti von á eða hefði grunað. Ég hef verið að senda hárbönd mikið til Norðurlandanna og í eitt skipti til Nýja Sjálands." Segir Thelma ennfremur. 
 
 
Saumar sjálf í höndunum
 
"Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá litlar sem stórar prinsessur með hárband eftir mig.
 
Ég byrjað á að hanna hárbönd sem ég sauma sjálf í höndunum en ég geri einnig húfur, hárspangir og bindi. Ég sel þetta yfirleitt einungis á barnavörumörkuðum sem poppa upp öðru hverju og einnig hef ég verið að gera hálsmen í stíl við hárböndin, spennur,nælur og það nýjasta sem ég gerði eru skírnarsettin, það er að segja hárband og skírnarborði í stíl sem ég kalla Skírnarlilju. Ég gerði þau aðeins eftir sérpöntunum en lét loksins verða af því að hafa þau í boði á síðunni."
 
 
Hefur saumað, hannað, teiknað og skrautskrifað frá unga aldri
 
"Ég versla mikið efni erlendis frá og auðvitað líka hér heima. Ég er t.d löngu hætt að bjóða góðan daginn við skvísurnar í Vouge og Twill. Ég heilsa þeim eins og gömlum vinkonum mínum enda daglegur gestur þar á bæ.
 
Ég hef saumað, hannað, teiknað, skrautskrifað og smíðað frá unga aldri og á mjög mikið eftir mig sem ég gerði þegar ég var lítil. Á þeim tíma var nóg að láta mig hafa blað og penna og ég gleymdi mér. Það er reyndar hægt enn þann dag í dag."
 
 
Gossip Girl gríðalega mikill áhrifavaldur
 
"Ég held mikið upp á Birtu Björns í Júníform. Mín uppáhalds flík er einmitt eftir hana. Það er ullarkápa sem ég nota við hvert einasta tækifæri sem gefst. Ég á nokkrar aðrar fallegar flíkur eftir hana og áhrifin frá henni eru mikið þegar kemur að saumaskap hjá mér.
 
Einnig er Gossip Girl gríðalega mikill áhrifavaldur, ég horfi á einn þátt og áður en ég veit af er ég komin með blað og penna og byrjuð að skissa, og svo ég tali nú ekki um öll fallegu hárböndin sem eru í þáttunum.
En ég er svona ekta íslendingur, fataskápurinn minn er fullur af fötum úr H&M, Forever21 og Gina Tricot." Segir hún að lokum. 
 
 
Facebook síðan með hönnun Thelmu má skoða með því að smella hér eða senda tölvupóst með því að smella hér.
 
Mér finnst hún rosalega sniðug og þessi hárbönd eru svo flott og það ættu allar litlar stelpur að eiga eitt ef ekki fleiri. Kíkið á myndir og fáið smá krúttlegheit inn í daginn.
 
Njótið~
 
 
 
 
 
 
anna@spegill.is