Guðveig Jóna hannar einstakar töskur úr roði og leðri - íslenskt? Já takk!


Guðveig Jóna Hilmarsdóttir, alltaf kölluð Jóna, lauk stúdentsprófi frá FB 1983.
 
Í dag starfar hún sem fjármálastjóri fyrir KH veitingar efh. sem staðsett er í Hörpu. Hún er gift og á tvö börn og eitt barnabarn. Hún vakti athygli okkar fyrir einstaklega fallega unnið handverk. Ma. geggjaðar töskur og belti.
 
Við spjölluðum við hana.
Ástæðan fyrir töskunum kemur frá tengdó
 
"Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á ýmiskonar handverki. Ég hef prjónað og saumað mikið bæði á mig sjálfa, fjölskylduna og svo að sjálfsögðu í gjafir handa vinum og ættingjum.
 
Ástæða þess að ég fór að hanna og sauma töskur er sú að tengdamóðir mín Edda Jónsdóttir hafði í mörg ár hannað og saumað töskur úr leðri og roði. Hún hafði oft rætt að henni þætti vænt um ef einhver innan fjölskyldunnar vildi taka við af henni og læra leðursauminn. Árið 2005 ákváðu ég og mágkona mín, dóttir Eddu (mágkonan mín heitir líka Edda en er Ástvaldsdóttir), að fara í læri hjá tengdó.
 
Við fengum góða kennslu og höfum verið að sauma í öll þessi ár en aldrei gert neina alvöru í því að koma okkar vöru á framfæri. Við hönnuðum mismunandi töskur og seldum til vina og ættingja og gáfum í gjafir."
 
 
 
 
Hannar undir eigin nafni, Guðveig Jóna
 
"Tengdamóðir mín sem er lærður kjólameistari verður 90 ára í október n.k en hún byrjaði að sauma töskur þegar hún fór á eftirlaun og saumar þær enn þann dag í dag. Mín hönnun er undir miklum áhrifum frá henni.
 
Í vor var svo ákveðið að nú yrði eitthvað gert til að koma okkar vöru á framfæri og framleiðum við núna vörur okkar undir okkar eigin nöfnum. Mín hönnun er merkt guðveig jóna."
 
 
 
Vel tekið og afar þakklát
 
"Við fengum inni á Handverkshátíðinni í Hrafnagili 9-12 ágúst s.l Okkur var vel tekið og í framhaldi af því ákvað ég að halda þessu brölti mínu áfram og fyrir tveimur vikum stofnaði ég Facebook síðu fyrir mínar vörur."
 
Facebook síðunni hefur verið vel tekið en ber hún einfaldlega nafnið Guðveig Jóna
 
"Ég er afar þakklát fyrir öll jákvæðu kommentin sem ég hef fengið á síðunni, þau gefa mér hvatningu til að halda þessu áfram á sömu braut.
 
"Ég tek á móti pöntunum og hægt er að hafa samband við mig í gegnum síðuna og líka með tölvupósti á netfangið gudveigjona@gmail.com."
 
 
 
 
Hvað ertu aðallega að hanna?
 
"Ég hanna töskur, stórar og smáar. Þetta eru aðallega hliðarveski, en þau eru öll fóðruð að innan og með tveimur vösum. Sum veskin eru með loki en önnur ekki og eru með smellu sem lokar veskinu.
 
Nýjasta hönnunin hjá mér er GSM veski og golf veski. Golfveskin eru hugmynd sem ég fékk þegar ég var í golfi og var alltaf að vandræðast með símann, kortið, bíllyklana, varalitinn og fleira smádót sem maður vill alltaf hafa með sér, ég set hanka á veskið sem hægt er að hengja á golfkerruna."
 
Hvaða efni notar þú í þína hönnun?
 
"Ég nota aðallega leður, roð og skinn, en nota líka önnur efni eins og t.d. gobelin. Roðið er frá Sauðárkróki og er mjög skemmtilegt efni að vinna með."
 
 
 
 
Áttu uppáhalds hlut sem þú hefur hannað?
 
"Það sem er mest í uppáhaldi hjá mér í dag er GSM taskann sem ég hannaði. Taskan er með langri ól, hólfi fyrir símann og litlum vasa aftan á, þar sem hægt er að geyma lykla, kreditkort eða peninga sem dæmi. Þetta er lítil taska og nett sem ég nota í vinnunni allan daginn. Var orðin leið á að vera alltaf með síma og lykla í höndunum þegar ég fór út úr skrifstofunni minni."
 
Hvað finnst þér um íslenska hönnun í dag ?
 
"Íslensk hönnun er mjög spennandi og virkilega gaman að fylgjast með því sem er að gerast hér heima. Fólk er frjótt og óhrætt við að prófa nýja hluti eða aðferðir. Ég held að íslensk hönnun eigi eftir að styrkjast verulega í framtíðinni og vildi óska þess að þeir geti lifað á hönnuninni sinni."
 
 
 
Uppáhalds hönnuðir, íslenskir og erlendir?
 
"Ég held ekki uppá neinn sérstakan þessa dagana en ég kynntist íslenskri stúlku á handverkshátíðinni sem er að endurnýta gamla hluti í sinni hönnun eins og t.d mjólkurfernur, hún heitir Inga Sól og hönnun hennar undir nafninu Ingasol design. Mér fannst hún vera að gera skemmtilega hluti."
 
Hvernig leggst framtíðin í þig?
 
"Framtíðin leggst vel í mig og ég hlakka til að takast á við ný verkefni. Ég stefni á að halda áfram með hönnunina á töskunum og vona að þessar góðu móttökur haldi áfram."
 
Endilega kynnið ykkur hönnun hennar Guðveigar og kíkið á afar fallegar töskur og aðra íslenska hönnun.
 
Íslenskt? Já, takk!
 
 
 
Hér er linkur á Facebook síðu hönnuðarins, þar sem hægt er að skoða enn fleiri myndir, senda inn fyrirspurnir og panta.