ieg design - geggjuð íslensk hönnun!


Ingunn Elfa Gunnarsdóttir er menntuð sem jarðfræðingur frá Háskólanum í Árósum í Danmörku. Hún er þriggja barna móðir og eiginkona sem býr á Selfossi.
 
Í dag vinnur hún hjá verkfræðistofunni Verkís og hefur gert frá því hún flutti aftur heim frá Danmörku árið 2007.
 
Við spjölluðum við dömuna: 
 
Tók alla saumaáfanga sem hún gat
 
"Í minni stórfjölskyldu eru miklar handavinnukonur, þar sem prjónar hafa alltaf leikið stórt hlutverk. Þannig að þegar ég var ung ákvað ég að ég þyrfti ekkert að kunna að prjóna og heillaðist af saumavélinni í staðinn.
 
Ég saumaði allt sem mér datt í hug og þegar Vans flauelsbuxurnar mínar voru orðnar of stuttar þá síkkaði ég þær bara með efnist bút um mitt lærið þannig að ég gat notað þær lengur. Það má segja að þarna hafi ég í raun byrjað að hanna.
 
Ég tók alla saumaáfanga sem ég gat í gegnum mína skólagöngu sem og fór á saumanámskeið og fatahönnunarnámskeið. Þegar ég fór svo í fæðingarorlof árið 2010 byrjaði ég að hanna fyrir alvöru, fyrst og fremst bara fyrir sjálfa mig, þar sem mig langaði að líta vel út á meðgöngunni en samt vera í þægilegum fötum."
 
Trú
 
Hvað ertu aðallega að hanna?
 
"Ég er að hanna falleg en jafnframt þægileg föt á konur, þar sem engin flík er nákvæmlega eins. Í mínum huga er hönnun ekki bara það að geta teiknað fallegan kjól heldur að stórum hluta að geta raðað saman efnum sem passa saman og eru falleg.
 
Kjólana sauma ég aðallega eftir pöntunum og ligg því sjaldan með marga kjóla á lager. Þannig get ég líka gert kjólana persónulega, hvort sem það eru litir eða efnaval."
 
Von
 
 
Hefur þú verið að hanna þín efni sjálf?
 
"Nei því miður er ég ekki enn búin að læra það. En það er pottþétt eitthvað sem ég mun vilja læra í framtíðinni. Enn sem komið er þá versla ég mest af mínum efnum frá Bretlandi og svo auðvitað hérna heima. Þannig ligg ég líka ekki með mikið magn af sama efninu á lager og get því alltaf verið að skipta um efni í kjólunum og eru því engir tveir kjólar eins."
 
Áttu þér uppáhalds flík sem þú hannaðir sjálf, og þessa sem hangir í skápnum heima?
 
"Ég vildi að ég gæti sagt að einhver ein flík væri í uppáhaldi hjá mér en ég dýrka alla kjólana sem ég hef gert, enda byrja ég alltaf á að gera kjólana í minni stærð áður en ég get gert þá fyrir aðra. En ef ég ætti að nefna einhverja flík sem hefur sérstöðu hjá mér þá væri það annars vegar gollan SARA en það var fyrsta flíkin sem ég hannaði út frá grunnsniði, og hins vegar kjóllinn FRIÐUR, en hann var hannaður á móðursystur mína fyrir ákveðið tilefni og fékk nafn með réttu."
 
Ylur
 
 
Ertu að selja meira af einhverju sérstöku en öðru?
 
"Í upphafi voru það kragarnir sem voru að seljast mest. En í dag eru það aðallega kjólarnir og eldhús-leggings sem eru að seljast."
 
Gæti ég komið til þín með hugmynd af flík og beðið þig að sauma hana á mig?
 
"Oftar en ekki eru flestar mínar flíkur gerðar þannig. Það er viðskiptavinurinn sem hefur ákveðnar óskir varðandi liti á efnum, hvort það eigi að vera blúndu ermar eða jafnvel engar ermar og þannig fram eftir götunum. Þannig að já, það er alltaf hægt að koma með hugmyndir að flík til mín, ég nota þessar hugmyndir og hanna eitthvað fallegt en jafnframt þægilegt út frá því."
 
Kærleikur
 
 
Ertu bjartsýn á framtíðina?
 
"Ég er mjög bjartsýn á framtíðina. Ég er einmitt núna að undirbúa mig fyrir Handverkshátíðina í Hrafnagili sem verður dagana 9-12 ágúst. Einnig er ég að útbúa betrumbætt saumastúdíó ieg design á Selfossi þar sem ég get haft opið á ákveðnum tímum og tekið á móti fólki til að skoða flíkur og koma í mælingu."
 
Ég hvet ykkur því til að kíkja á síðuna mína á Facebook  og endilega gera eitt "like" á hana og fylgjast með og þar er einnig hægt að hafa samband við mig, ef einhverjar spurningar," segir hún að lokum.
 
Já, við fílum kólana og finnst einnig geggjað og frumlegt, hvernig hún raðar saman efnum.  Kíkið á síðuna hennar Ingunnar, frábær hönnuður og það sem er svo skemmtilegt er, að engar tvær flíkur eru nákvæmlega eins.
 
Íslenskt? Já takk!
 
 
 
Ingunn Elfa Gunnarsdóttir