OGGA - elskar að sjá konum líða vel í kjólunum sínum


Hún Guðrún Ósk sem stundum er kölluð Ósk eða Ogga ólst upp á Patreksfirði en hefur verið búsett í Reykjavík s.l 10 ár.
 
"Ég hef alltaf elskað að skapa og gera eitthvað í höndunum. Frá því ég fór að vinna hef ég unnið hin ýmsu störf eins og t.d. við beitningu, umönnun, bókhald sem ég menntaði mig í, ásamt því að taka próf í einkaþjálfaranum og vinna aðeins við það.
 
Mér finnst um að gera að hafa þetta fjölbreytt og prófa nýja hluti." Segir Guðrún Ósk. 
 
Tengir nafnið OGGA við yndislegu ömmu sína
 
"Það var fyrir um tveimur árum að ég byrjaði fyrir alvöru að sauma. Vinkona mín á Patró kom mér inn á það og ég hef ekki getað stoppað síðan. Það er mín slökun að sitja við saumavélina.
 
Ég saumaði fyrst undir nafninu Sauma Ást en var að breyta því í OGGA því það nafn tengir mig mikið við yndislegu ömmu mína sem hefur alltaf verið mín fyrirmynd í handavinnu."
 
 
 
 
 
Hvað er það sem þú ert aðallega að hanna?
 
"Ég er mest í kjólum sem ég mála sjálf á og einnig hef ég þá ómálaða, peysur, leggings og svo með haustinu þá koma inn treflar, yfirhafnir og fleira".
 
 
Hannar þú efnin þín sjálf?
 
"Nei ekki öll. En slæður sem ég hef gert og sumir kjólar hef ég verið að batiklita sem mér finnst gaman því þá er engin útkoma eins. Svo er ég að fara í tilraunastarfsemi með að búa til efni úr allskyns efnablöndum og það er þá eitthvað sem ég sauma sem stykki í kjóla."
 
 
Áttu uppáhalds flík sem þú hannaðir sjálf og uppáhalds flíkin í skápnum heima?
 
"Ég held mikið upp á blúndu/silfur kjól sem ég saumaði. Ég var með þessa kjóla og heita þeir Rómó kjólar. Mjög þægilegir og hægt að útfæra þá á svo marga vegu. Hafa þá lausa eða taka saman og þá er hann aðsniðinn. 
 
Svo er dýrmætasta flíkin mín reyndar í myndaramma og er komin á vegg á saumastofunni minni. Þetta er kjóll sem hún yndislega amma mín saumaði á mig þegar ég var 1.árs og var minn fyrsti jólakjóll."
 
 
 
 
 
Hvað er að seljast mest hjá þér?
 
"Það eru kjólarnir sem ég handmála og kalla Print kjóla. Þeir hafa verið afar vinsælir og virðast höfða til kvenna á öllum aldri. Ég reyni að vera dugleg að finna nýtt print til að mála á þá og hafa þau á mismunandi stöðum á kjólunum þannig að hver kjóll er einstakur. Einnig eru leggins alltaf vinsælar."
 
 
 
Saumar þú eftir sérpöntunum?
 
"Já ég elska þegar það koma til mín konur með sínar eigin hugmyndir og ég hef gert nokkra þannig kjóla. Svo hafa litlu frænkur mínar verið duglegar að láta reyna á saumakunnáttu mína og þá á ég að sauma eitthvað svipað og vinkonan á sem er í leikskólanum. Svo kom frá einni af þessum elskum ósk eftir fimleikabúning sem átti að vera mynstraður og hún var búin að teikna hann upp og hanna og það var æðislega skemmtileg áskorun."
 
 
Ertu bjartsýn á framtíðina?
 
"Já, það þýðir ekkert annað. Á meðan allt þetta yndislega fólk líkar það sem ég er að gera þá er ekki hægt annað en að vera bjartsýn. Það er bara að bæta sig og vera dugleg að koma með nýjungar. Reyndar er hausinn á mér núna svo stútfullur af hugmyndum sem mig langar að gera en ég kemst ekki yfir það allt því ég er bara ein að gera þetta.
 
Þegar ég sé konu máta kjól og henni líður vel í honum og hann dregur fram hennar fegurð þá er ég bjartsýn og líður vel. Ég er á Facebook  þar er ég dugleg að setja inn myndir af því sem er nýjast hjá mér. En vinnustofan mín er á Kleppsmýrarvegi 8 í Reykjavík og póstfangið mitt er saumaast@internet.is. Einnig má hringja í mig í síma 693-1393.
 
 
 
 
Ég reikna með að vera með 2 fasta daga í viku þar sem vinnustofan er opin en ég mun setja það á Facebook síðuna mína. Þegar ég er á staðnum er ekkert mál að hringja bara eða senda sms og fá að koma þegar hentar hverjum og einum." Segir þessi flotta gella að lokum. 
 
Tékkið á Oggu, hún er að gera margt frumlegt, fallegt og flott!
 
 
 
 
 
 
 
 
Guðrún Ósk