LALLA: geggjuð listaverk úr hrauni


Hún Herdís Stefáns hefur alltaf haft áhuga á öllu sem snertir hönnun og handverki.
 
Þrátt fyrir að vera menntuð í viðskiptum og mannauðsstjórnun tók hún þokkalega U-beygju fyrir 2 árum þegar hún hætti í fjármálaheiminum eftir 13 góð ár og fór að gera það sem henni finnst langskemmtilegast og mest gefandi.
Hún lét gamlan draum rætast með að opna vinnustofu og verslun með systur sinni og fór að hanna vörulínu undir nafninu LALLA.
 
Nafnið Lalla kemur frá ömmu hennar Valborgu Steingrímsdóttur frá Siglufirði. Lalla var mikil listakona og notaði einnig það sem er að finna í hinni margbrotnu náttúru Íslands í sín verk og er hún því hennar helsti innblástur ásamt náttúrinni sjálfri.
 
Fyrsta verkið í vörulínu LÖLLU var lukkuskeifa þakin hrauni en amma hennar var þekkt fyrir sínar Lukkuskeifur og þótti Herdísi því ekki annað koma til greina en að byrja á þeim, enda táknrænt fyrir hana og ekki síður sem tákræn gjöf við svo mörg tilefni.
 
 
Hvað ertu aðallega að hanna?
 
"Flest verk sem ég geri eru unnin með hraun og steina svo finnst mér alltaf spennandi að vinna með steypu og sprey. Almenn samfélagsábyrgð skiptir okkur líka miklu máli og því nota ég sem mest endurunnið ásamt því að nálgast náttúruna af virðingu.
 
Vinsælustu vörurnar frá upphafi hafa verið Lukkuskeifurnar og ICELAND sem er útskorin tréplata þakið íslenska hrauninu – útlendingar virðast elska þetta og mikið um að íslendingar séu að senda fjölskyldu og vinum erlendis, enda skemmtilegt að hafa bæði landið uppá vegg og hvað þá með íslenska hrauninu sem er svo stór hluti af okkar menningu.
 
Einnig hef ég gert ýmis verk á striga, bæði Ísland þakið hrauni og andlit sem er gert eftir verki Löllu ömmu, nema amma gerði það á útskorna tréplötu með hrafntinnu sem er að finna á mörgum heimilum ásamt stofnunum og eldri fyrirtækjum – Hrafntinnan er friðuð í dag en ég á 2 mola, annan sem Lalla amma átti og mamma varðveitti eftir að amma lést árið 1973 og hinn steininn gaf vinafólk mér í sumar."
 
 
Ertu með eitthvað nýtt í gangi fyrir veturinn?
 
"Nýjasta í vörulínunni eru kertin, þau eru svo vinsæl að ég hef varla haft undan að svara eftirspurn og svo eru margir sem ætla að nota þau í aðventukransinn í ár sem er bara frábært. Það eru 3 kertalínur, kerti þakið hrauni eða steinum, þannig að þegar kertið brennur niður stendur eftir „vasinn“ sem hægt er að nota undir annað kerti eða hvað sem er enda frekar harðgert og eigulegt.
 
Svo er ég með kerti sem er bara með steypu utan um og heita Jökull og ilmkerti í glerskál sem er þakin hrauni og steinum með 3 mismunandi ilmum sem einnig er hægt að nota undir annað kerti þegar hitt brennur eða bara undir jólasælgætið.
 
Annars eru alltaf nýjar vörur í vinnslu, við systur hvetjum hvor aðra áfram og eru það algjör forréttindi að fá að vinna með systur sinni enda mikið hlegið alla daga sama hversu mikið er að gera hjá okkur. Við tókum þátt í Bleikum október sem var að ljúka og nú eru það jólin. Fólk er byrjað að versla jólagjafir og frábært að sjá hvað margir ætla að gefa íslenskt handverk, svo það hefur verið flott trafík hjá okkur enda hægt að finna fallegar gjafir fyrir alla aldurshópa hjá okkur."
 
 
Áttu uppáhalds mun eftir þig sjálfa?
 
"Flest verk sem ég geri stoppa stutt hjá mér, það eru aðallega frumgerðir eða verk sem hafa verið gerð á tilraunaferlinum sem eru að finna inná heimilinu mínu, enda hafa þau mestu minningarnar fyrir mig, ég var t.d. í 8 mánuði að fullkomna „steypuna“ sem ég nota á hestaskeifur til að festa hraunið á, svo ég á nokkrar þokkalega „spes“ lukkuskeifur og nokkur sérkennilega skökk kerti."
 
 
Áttu uppáhalds hönnuði, íslenska og erlenda?
 
"Það eru fyrirmyndar konur allt í kringum mig sem ég lít upp til, ekki bara Lalla amma. Hulda mamma mín hefur prjónað frá því áður en ég fæddist, samt enginn venjuleg íslensk prjónakona, hún er með vélar og prjónar allt mögulegt á alla aldurshópa ásamt að vera snillingur í hekli, en vörurnar hennar er hægt að fá á vinnustofunni hjá okkur systrum.
 
Svo er það auðvitað stóra systir mín hún Jóhanna, hún er klárlega uppáhalds skartgripahönnuðurinn minn. Án hennar dagsdaglega væri hugmyndin af LÖLLU örugglega bara enn í rassvasanum. Svo eru bara svo margir íslenskir og erlendir hönnuðir að gera flotta hluti í dag, mér finnst alltaf gaman að sjá eitthvað alveg nýtt og ferskt frá íslenskum aðilum, þó það sé mikið um að fólk er að herma eftir þeim sem gengur vel – en ætli það verði ekki alltaf til markaður bæði fyrir þá sem vilja verk eftir hönnuðinn sjálfan og svo þeir sem sætta sig við eftirlíkinguna."
 
 
"Þó mín helsta ósk er að eignast Hrafntinnu andlit eftir Löllu ömmu mína finnst mér dásamlegt að eiga verk eftir aðra hönnuði, ég horfi stundum á verkin þeirra og spái hvað ætli þeir hafi verið að hugsa þegar þeir fengu hugmyndina.
 
Það nýjasta sem ég eignaðist eru fallegu fiðrildin frá Bility eftir Guðrúnu Lilju, þar sem skuggi og endurkast fá að njóta sín. Þó þykir mér alltaf vænst um verkin hennar ömmu sem ég hef verið svo heppin að eignast frá því ég fór að búa og glasamotturnar sem mamma heklaði og gaf mér í jólagjöf fyrir mörgum árum síðan."
 
 
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?
 
"Framtíðin er björt og hrikalega margt spennandi framundan, ég ætla að koma vörunum mínum í fleiri verslanir innanlands og erlendis svo ég geti einbeitt mér meira af því að vinna verkin í mínum eigin draumaheimi.
 
Það er opið alla virka daga á vinnustofunni milli 12:00-17:00 nema á fimmtudögum er opið til 18:00 – alltaf heitt á könnunni og stemning að heimsækja okkur systur á litlu vinnustofuna okkar – Eflaust verður svo líka opið eitthvað á laugardögum fram að jólum," segir þessi flotta skvísa að lokum. 
 
Vinnustofan er í bakhúsi, Holtagerði 38, Kópavoginum
 
Flottar systur sem létu drauminn rætast og kertin þeirra eru alveg geggjuð. Kíkið endilega á Facebook. Hér er svo Heimasíðan og er öllum velkomið að hringja í síma 6900-100.