Hengdi jólatréð upp í loft á krók - sumir kunna að redda sér!


Ásta Hafberg er viðskiptafræðingur að mennt, fimm barna móðir og mótorhjólatöffari með meiru.
 
Hún leggur stund á meistaradiplómu-nám í Hí í smáríkjafræðum.  Við spurðum þessa hörkuskvísu nokkrar spurninga er varða jólin...
 
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin?
 
Geisladiskar, saman í pakka, annars vegar Mench, Herbert Grunemeyer og hins vegar diskur með Björk sem ég fílaði aldrei en þorði aldrei að viðurkenna af því að ég var íslendingur í útlöndum og þá átti ég auðvitað að fíla þennan disk.
  
Ertu byrjuð á jólaundirbúningum?
 
Tók jólaskrautskassana niður af háaloftinu í dag. Afleggjurunum til mikillar ánægju.
 
Hvað langar þig í, í jólagjöf?
 
Góða bók, það er reyndar staðlað jólagjafasvar hjá mér.
 
Jólabókin í ár?
 
Allavega ekki nein skrifuð af íslenskum pólitíkusi.
 
Eftirminnilegustu jólin?
 
Jólin 2005. Var nýflutt með alla fjölskylduna, börnin og manninn, til Íslands. Öll búslóðin var í gám og kom ekki fyrr en rétt fyrir áramót. Við komum í húsið á Fáskrúðsfirði þann 19. des en húsið var nánast tómt fyrir utan uppblásnar dýnur og búsáhöld sem mamma gat misst á meðan við biðum eftir gámnum.
 
Hún hafði líka keypt handa okkur hið forláta jólatré sem stóð og hallaði sér upp að vegg í stofunni. Við vorum ekki með neinn fót, þannig að nú voru góð ráð dýr. Í loftinu hékk krókur þannig að við tókum snæri og bundum í toppinn á trénu og hengdum það hreinlega upp í stofuloftinu.
 
Síðan var keypt sería og snúið um herlegheitin og úr varð þetta fína snúanlega jólatré.
 
Heldur þú í jólahefðir, og þá hverjar?
 
Við erum með heimatilbúið jóladagatal, svona fyrir pakka, sem við höfum alltaf og svo má aldrei breyta út af vananum með jólamatinn, sem eru alltaf danskar endur fylltar með eplum og sveskjum ásamt sósunni sem ég geri úr appelsínum og fleiru góðgæti.
 
Einnig eru börnin mjög ákveðin með jólaskrautið. Þegar ég var ein með þau úti fyrir mörgum árum keypti ég fullt af sætu frekar gamaldags jólaskrauti fyrir jólatréð af því að það var ódýrt. Þetta hefur alltaf farið á tréð.
 
Eitt sinn eftir að ég kom heim og gerði heiðarlega tilraun til að kaupa fullt af kúlum í IKEA allar eins til að setja á tréð var mér tilkynnt að það myndi aldrei nokkurn tíma gerast þannig að núna þarf ég að finna gamaldags skraut og ekkert eins ef eitthvað skemmist af hinu til að læða í jólaskrautskassann.
 
Það er Þorláksmessuskötu boð fyrir stórfjölskylduna hjá okkur og auðvitað jólaboð og fleira í þeim dúr.
 
Hvernig verður aðfangadagurinn hjá þér í ár?
 
Eins og öll hin árin.
 
Strengir þú áramótaheit?
 
Nei aldrei, ég trúi ekki að það mun bæta líf mitt neitt eða ég verði ákveðnari í að standa við neitt. Ég tek hlutina þegar þeir koma og reyni bara að setja mér markmið allt árið sem mér líður vel með og henta mér. Mér finnst kjánalegt að keyra upp einhver markmið sem maður veit innst inni að maður muni ekki geta staðið við eða náð bara til að vera memm í einhverju áramótaheiti.
 
Lokaorð...
 
Lokaorð mín eru þau að lífið er núna og yfirleitt er það aldrei eins og maður heldur að það verði. Í staðinn fyrir að berja sig í höfuðið yfir því er gott að staldra við á svoleiðis stundum og reyna að sjá hvernig maður getur nýtt það sem er að gerast á jákvæðan og uppbyggjandi máta.
 
Ég reyni að setja þakklæti, auðmýkt, kærleika og æðruleysi inn í hvern einasta dag hjá mér af því að ég hef komist að því að á þann máta umgengst ég lífið og fólk á máta sem setur bæði mér og öðrum eðlileg og áreynslulaus mörk ásamt því að ég er mun meðvitaðri um hvað ég er að gera og af hverju.
 
Það er ekki til nein töfralausn á lífið en það er til margt sem gerir lífið meira töfrandi að lifa því. Segir Ásta að lokum.