Rökkvi er staðráðinn í að klára að safna milljón fyrir áramót


Rökkvi Vésteinsson er uppistandari og forritari að atvinnu. Eigandi uppistand.is og skipuleggjandi Iceland Comedy Festival sem er núna í fullu gangi. Hann á þýska konu og tvær stelpur.
 
Hann er stoltur af því að vera nörd. Þrátt fyrir miklar annir um þessar mundir, gaf hann sér tíma fyrir jólaspurningar Spegilsins.
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin?
 
Örugglega þegar ég fékk Grayskull kastalann fyrir He-Man í jólagjöf. Margur He-Man kallinn átti eftir að eiga dauðdaga sinn þar í framhaldinu. Detta niðrum hlerann og vera étinn af skrímslunum fyrir neðan til dæmis.
 
Ertu byrjuð/byrjaður á jólaundirbúningum?
 
Nei ég hef ekki tíma í þannig meðan ég er að halda Iceland Comedy Festival.
 
Hvað langar þig í, í jólagjöf?
 
Quality time með konunni minni.
 
Jólabókin í ár?
 
Ef ég bara hefði einhvern tíma til að fylgjast með því hvaða bækur eru að koma út. En góð bók fyrir nörda er til dæmis; The Selfish Gene eftir Dawkins og síðan The Moral Animal eftir Robert Wright, sem eru best að lesa í þeirri röð sem ég nefndi þær. Fyrir krakka er Ótrúleg saga um risastóra peru mjög góð eða Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni.
 
Eftirminnilegustu jólin?
 
Þó að upplifunin hafi alltaf verið langmest sem barn, þá finnst jólin þegar ég var krakki meira og minna renna saman í eitt svo það er erfitt að segja. Árið 2008 fór ég með konunni minni til Þýskalands rétt eftir aðfangadag og það var mjög sérstakt. Hitti tengdafjölskylduna í fyrsta sinn og gaf krökkum mágkonunnar auðvitað Nonna og Manna, sem þau horfðu á á döbbaðri þýsku.
 
Fórum síðan til Berlínar um áramótin að sjá flugelda, þar sem allt var krökkt af fólki og óeirðalögreglan tilbúin á hverju horni. Sáum villisvín í skóginum rétt fyrir utan borgina sama kvöld. Það er í raun fátt sem ekki er hægt að sjá í Berlín.
 
Heldur þú í jólahefðir, og þá hverjar?
 
Allar alvöru jólahefðir já því jólin eru gömul heiðin hátíð til að halda upp á að dagurinn fari aftur að lengjast. En ég nenni engu af þessu trúarlega, sem kristnin bætti við jólahaldið seinna, þar sem ég er ekki trúaður sjálfur.
 
Hvernig verður aðfangadagurinn hjá þér í ár?
 
Ég þori að veðja að ég verð svo þreyttur eftir nóvember að ég mun betla að fá að vera hjá foreldrum mínum, sem er fínt því þá verða fullt af krökkum þar sem geta öll leikið sér saman og jólin snúast hvort sem er um börnin en ekki fullorðna fólkið.
 
Strengir þú áramótaheit?
 
Já ég ætla að gera það núna. Klára að safna milljón í góð málefni með uppistandinu ef ég verð ekki búinn að því fyrir áramót og að vera með fyrsta uppistandið mitt á dönsku á næsta ári.
 
Ætli ég verði ekki líka að standa við það að glíma aftur við Geir Ólafs og núna eftir Júdóreglum, þó ég kunni afar lítið í Júdó og fái sennilega að smakka á gólfinu nokkrum sinnum í þetta skiptið.
 
Lokaorð...
 
Endilega hættið að spyrja trúleysingja eins og mig hvort þeir haldi jól. Orðið jól er gamalt norrænt orð um heiðna hátíð. Jólatré, snjókallar og jólasveinninn eru ekki í biblíunni, eða það að við eigum að gefa hvoru öðru pakka á þessum tíma árs. Ég röfla heldur ekki í ykkur kristna fólkinu um það hvort þið megið fara á Þorrablót úr því þið séuð ekki ásatrúar.
 
....myndbrot með tónlistarmyndbandi eftir Rökkva (ekki fyrir teprur eða viðkvæma):