Stafakubbarnir hennar Valborgar - íslensk hönnun


Valborg Birgisdóttir er textíl- og sérkennari að mennt og mikill fagurkeri. Valborg hefur verið að skapa og hanna allskyns hluti frá því hún man eftir sér og nú síðast þessa dásamlegu stafakubba. 
 
Við spjölluðum við hana. Gefum henni orðið: 
 
"Ég hef verið að skapa og hanna alls konar hluti nánast allt mitt líf. Þegar ég kaupi mér flík eða hluti hef ég alltaf þurft að fikta aðeins með það til að gera að mínu.
 
Ég er mikil prjónakona en á erfitt með að fara eftir uppskriftum og hanna því mikið af flíkum frá grunni. Ég fékk hönnunargenið í vöggugjöf frá móður minni sem er listmálari og móðurfjölskyldan mín er nánast öll í hönnunar- og listageiranum.
 
Fyrir utan vinnu mína sem kennari er aðaláhugamálið mitt þessa stundina að búa til jólaskraut eða breyta því sem ég á eða kaupi fyrir lítið".
 
 
 
 
"Fyrir ári síðan var ég á ferð með eiginmanni í Danmörku og við þræddum þar blómabúðir og gjafavöruverslanir sem eru mínar uppáhaldsbúðir. Ekki til að versla jóladót heldur til að fá hugmyndir.
 
Þar sá ég margar útgáfur af útskornum bókstöfum sem búið var að skreyta og raða saman með alls konar jólaorðum á ensku og dönsku og ég náði að smita manninn minn af þessari „jólaskrautastafabakteríu“ . Þegar við komum heim sagaði hann niður kubba fyrir mig, ég skreytti þá og stillti upp."
 
 
 
 
 
"Útkoman varð mjög falleg og þegar leið á haustið ákváðum við að búa til nokkur eintök og athuga hvort hægt væri að selja jóla-stafakubba hér á Íslandi. Viðbrögðin hafa verið nokkuð góð og hefur ýtt undir alls kyns hugmyndir um öðruvísi stafakubba sem gaman væri að útfæra fyrir næstu jól.
 
Þegar jólin eru búin langar okkur að halda áfram með stafina og ýmsar hugmyndir eru á teikniborðinu sem ég hlakka mikið til að vinna að". Segir hún að lokum. 
 
Hægt er að nálgast stafakubbanna í Fakó gjafavöruverslun á Laugavegi, í Gullregninu vinnustofu og gallerý við Holtagerði í Kópavogi og hjá Ljónshjarta sem er sölusíða fyrir íslenskar hönnunarvörur á Facebook og á netinu. Einnig eru kubbarnir með eigin Facebooksíðu, smelltu hér.
 
Frábær hugmynd hjá Valborgu og verður spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni.