Fagnar 40 ára starfsafmæli sínu í poppbransanum á Íslandinu góða


Herbert Guðmundsson starfar sem tónlistarmaður, lagasmiður og útgefandi og hefur gert síðan eftir hrun, árið 2008.
 
En þá tók Herbert þá ákvörðun, að lifa eingöngu af tónlistinni og hætta að starfa sem sölumaður hjá bókaútgáfu Arnar og Örlygs þar sem hann hafði starfað í 28 ár þar á undan með tónlistina sem aukavinnu.
 
"Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu." Segir Herbert. Hann er trúlofaður yndislegri konu; Lísu Dögg Helgadóttur.
 
Þrátt fyrir miklar annir þessa dagana tók þessi snillingur vel í að svara spurningum Spegilsins er varða jólin. Njótið vel. 
 
Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin?
 
"Ógleymanleg jólaminning!" Segir Herbert og heldur áfram: 
 
„Þegar ég var svona fimm eða sex ára og bjó inní Laugarnesi í gamla húsinu á hólnum þar sem Sigurður Ólafsson söngvari bjó líka ásamt fjölskyldu, en við bjuggum þar á efri hæðinni og faðir minn kom heim með epli sem voru kölluð „delisíus epli" en það stóð „delux" á kassanum.
 
Hann vann hjá Johnson og Kaaber í útkeyrslu og kom heim með heilan kassa af eplum. Þá sáust epli og appelsínur bara í búðum rétt fyrir jól og lyktin af þeim, vá það var sko jólailmurinn ógurlegi og ég fékk í jólagjöf lítinn traktor, gráan Massey Ferguson.
 
Ég lék mér að honum öll jólin og var ekkert smá sáttur með þá gjöf. Ógleymanlegt,svo sterkt í minningunni."
 
 
Herbert er trúlofaður yndislegri konu, Lísu Dögg
 
 
Ertu byrjuð/byrjaður á jólaundirbúningum?
 
"Get ekki sagt að ég sé byrjaður að undirbúa jólin að öðru leiti en því að klára vinnu og hönnun á nýjustu plötunni minni og þeirri fimmtándu í röðinni, sem kemur út núna fyrir jólin og heitir: Flakkað um ferilinn safndiskur með 20 þekktustu lögunum mínum og 20 myndböndum frá að ég tel nokkuð litríkum ferli sem spannar 40 ár. 
 
Sem sagt útgáfa til að fagna 40 ára starfs afmæli mínu í poppbransanum á Íslandinu góða."
 
Hvað langar þig í, í jólagjöf?
 
"Það sem mig langar að fá í jólagjöf er sannur friður og gleði, raunverulegur jólaandi þar sem að ekki gleymist af hverju við höldum heilög jól,sem er til að minnast fæðingu frelsarans Jesú Krists.
 
Og í leiðinni gleðjast með unnustu vinum og ættingjum, og njóta þess að vera saman."
 
Jólabókin í ár?
 
"Jólabókin í ár? Ekki hugmynd. En ef ég fæ einhverja þá þarf hún að vera uppbyggjandi og jákvæði fyrir anda og sál."
 
Eftirminnilegustu jólin?
 
"Eftirminnilegustu jólin þau sem ég átti þarna í æsku í Laugarneshverfinu."
 
 
Í þá gömlu góðu daga...
 
 
Heldur þú í jólahefðir, og þá hverjar? Aðfangadagurinn hjá þér í ár?
 
"Ég byrja á að skreyta húsið í kringum 15 desember, á afmælisdaginn minn. Ég set upp temmilega mikið af jólaljósum en þau eru skemmtileg þar sem þau birta allt upp í skammdeginu og gefa manni yl og birtu í hjartað.
 
Í desember fer ég fljótlega að versla í matinn en þar er efst á lista pekingöndin sem er yfirleitt alltaf borðuð á mínu heimili á aðfangadagskvöld - fyllt að hætti popparans. Fyllingin er algjört sælgæti.
 
Á annan í jólum er hangikjöt og þá helst kofareykt úr sveitinni ef hægt er. Það er oftast hægt vegna góðra sambanda síðan ég var í bóksölunni og hitti bændur landsins stóran hluta ársins á söluferðum um landið.
 
Dagar gætu samt eitthvað riðlast til þar sem að ég verð sennilega eitthvað hjá Lísu Dögg unnustunni minni um þessi jól. Og einnig hef ég stundum farið í hátíðarmessu kl:18:00 með móður minn, systur og strákunum mínum á aðfangadag og svo borðað hjá múttu eftir kirkjuferðina.
 
Síðan er það jólasúpan ómissandi sem er gömul ættarhefð sem ég lærði af móður minn en hún kallast "jólabrúnsúpan hennar mömmu". Ég fjárfesti í góðum nautabeinum sem soðin eru upp í svona þrjá til fjóra daga til að fá alvöru kraft í súpuna. Ég sýð upp á henni í síðasta skipti á Þorláksmessu. Þá er hangikjötið soðið líka til að fá jólalykt í húsið en hún kemur með suðu hangikjötsins og uppsetningu jólatrésins sem er náttúrulega lifandi tré."
 
 

Herbert er í óða önn þessa dagana vegna útkomu disksins; Flakkað um ferilinn. Sem spannar yfir 40 ára feril
 
 
Strengir þú áramótaheit?
 
"Reyni alltaf að byrja nýtt ár með góðum ásetningi og skrifa þá markmiðin niður í markmiðabók sem ég endurskrifa svo vikulega eða mánaðarleg til að minna mig á, og viti menn, með því að skrifa þau niður rætast þau eitt af öðru alveg magnað. 7 til 10 markmið er hæfilegt."
 
Lokaorð...
 
"Ég vil óska öllum landsmönnum gleðilegra jóla og gleðiríks komandi árs, með þakklæti fyrir að fá að starfa og vinna við að skemmta þjóðinni.
 
Megi komandi ár verða okkur Íslendingum öllum, ár gleði, hamingju og jákvæðs vaxtar til lands og sveita. Og munum hvað við erum gæfusöm að eiga og búa á þessu friðsama og góða landi." Segir popparinn að lokum. 
 
Herbert með hljómsveitinni Eik  - You And I: Gamalt og sígíllt!