Árnýin Design hannar skart af hugsjón og gleði - ódýr íslensk hönnun


 
Árný Sesselja er fædd og uppalin í sveit en býr í dag ásamt eiginmanninum, Óskari Þór á Skagaströnd. Hún er í fullri vinnu utan hefðbundinna heimilisstarfa og er skartgripahönnunin hennar aðaláhugamál, sem kom henni reyndar á óvart, að eigin sögn.
 
 
Við spjölluðum við þessa flottu stelpu:
 
Allt hófst í heimsókn hjá mömmu
 
"Ég byrjaði að fikta við þetta fyrir um tveimur árum. En þá var það í heimsókn hjá mömmu að ég sá að hún var að búa til armband. Ég var í frekar pirruðu skapi þennan dag og spurði hana hvað hún væri eiginlega að gera. Fannst þetta reyndar ekkert spennandi þegar ég sá hana sitja við þetta.
 
En daginn eftir kom ég aftur í heimsókn og hafði þá fengið hugmynd af hálsmeni sem bara vildi ekki fara úr kollinum á mér og ég varð að reyna að koma þessari hugmynd í alvöru hálsmen. Þannig að ég settist við dótið hennar mömmu og fór að velja liti og efni og byrjaði svo að raða saman.
 
Í dag er ég að hanna það sem mér dettur í hug. Hálsmen, Eyrnalokka, armbönd, lyklakippur, prjónamerki, skraut á töskur og farsíma og stubba svo kallaða sem er hægt að setja í stað haldsins á rennilásum ef það dettur af. Ef ég fæ einhverja hugmynd þá á ég það til að kasta öllu frá mér og fara í föndur hornið mitt og byrja." segir hún.
 
 
 
 
Hvaða efni ertu aðallega að nota? 
 
"Ég nota allskyns efni. Glerhluti, tré, akrýl, járn og plast og bara það sem ég finn og finnst sniðugt að nota. En ég passa mig á að notast við efni sem eru ekki með þekkta ofnæmisvalda. Ég endurnota líka gömul hálsmen sem ég er hætt að nota og bý til eitthvað nýtt úr þeim."
 
Áttu þér uppáhalds hlut sem þú hannaðir sjálf?
 
"Já, uppáhalds hluturinn minn er hálsmen sem ég gerði upp úr skartinu sem ég var með þegar ég gifti mig. Ég var svo óheppin að skemma það en tímdi aldrei að gera neitt annað úr því. Það var svo allt í einu að mér fannst eins og ég yrði að gera eitthvað fallegt upp úr því sem gæti glatt einhvern annan. Sem og það gerði því það seldist mjög fljótt."
 
 
 
 
Hvað er vinsælast hjá þér?
 
"Það sem er vinsælt hjá mér er misjafnt. Eyrnalokkar seljast mjög vel og prjónamerkin líka. Það er misjafnt hvað er að fara á hverjum tíma. En ég held að eyrnalokkarnir og hálsmenin séu vinsælust."
 
Er hægt að sérpanta hjá þér skart ?
 
"Já, ég hef fengið fyrirspurnir um hvort ég geti gert sett, þ.e hálsmen og lokka í t.d ákveðnum litum og formi frá fólki. T.d ef fólk á sér uppáhalds lit og langar í eitthvað fallegt þá er ég alltaf til í að búa til það sem að fólk óskar eftir.
 
Það eina sem ég þarf þá eru bara upplýsingar um hvað það langar c.a í og ég bý til hugmynd og sendi viðkomandi mynd af því sem komið er og fæ þá til baka ef það vill breyta einhverju eða bæta við.
 
Ég hef líka gert við fyrir fólk, skipt um festingar á hálsmenum og lokkum og gert við slitin armbönd svona sem dæmi."
 
 
 
Ertu bjartsýn á framtíðina?
 
"Ég bjóst aldrei við í upphafi að mér myndi finnast þetta svona gaman. Frá því að ég gerði mitt fyrsta hálsmen og til dagsins í dag ef ég búin að breytast helling í stíl og fleiru.
 
Ég myndast við að gera alla mína gripi með ást og umhyggju. Ég er mest í þessu vegna þess að mér finnst þetta svo gaman og þetta veitir mér ákveðna hugarró. Það að setjast niður og skapa smá eftir erfiðan dag er yndislegt.
 
Ég reyni að hafa alla mína gripi ódýra og fallega. Dýrasti hluturinn sem ég hef gert er á 3500 kr. Annars eru verðin frá 300 krónum og upp í 3500 krónur. Ég vil líka hafa þá eins ódýra og ég get, sel þá fyrir kostnaði svo að ég geti keypt meira dót til að hanna úr." Segir hún að lokum. 
 
 
 
 
Árný er á Facebook og þar má skoða skartið hennar. Kíkið endilega á þessa flotta stelpu.