Sonja Design - hannar öðruvísi hluti


Hún Sonja Karen Marinósdóttir er tónlistarkennari við Tónlistarskóla Grundarfjarðar.
 
"Ég hef verið að kenna tónmennt, söng og byrjendum á píanó frá árinu 2006. Ég setti m.a upp stóran söngleik í Grundarfirði, Blúndubrók og brilljantín árið 2009. Þetta var samstarfsverkefni Tónlistarskólans, Fjölbrautarskóla Snæfellinga og Grunnskóla Grundarfjarðar og tóku 65 nemendur þátt. Verkefnið var mjög krefjandi en ótrúlega gefandi á sama tíma," sagði Sonja.
"Ég hef alla tíð haft brennandi áhuga á myndlist og hönnun. Hóf skólagöngu mína við Kennaraháskóla Íslands á myndmenntakjörsviði en skipti svo yfir í tónmenntina þar sem einn kennarinn, Kristín Valsdóttir, hafði algjörlega heillað mig þegar ég gekk framhjá stofunni hennar einn daginn á leið í tíma.
 
Ég hef teiknað og málað síðan ég var barn samhliða tónlistinni og því hefur
sköpunarkrafturinn alltaf fylgt mér. Ég á erfitt með að sitja auðum höndum og þegar hugmyndin að eigin vörulínu fór að gerjast í kollinum var ekki aftur snúið. Ég geng yfirleitt hratt í hlutina því mér leiðist kyrrstaða."
 
 
 
Eru íslendingar nægilega duglegir að styrkja íslenska framleiðslu og versla íslenska hönnun?
 
"Að sjálfsögðu mættu þeir vera duglegri við það en aðalástæðan er fyrst og fremst sú að íslensk framleiðsla er dýrari og þar af leiðandi eru íslenskar hönnunarvörur oft töluvert dýrari en þær sem eru framleiddar erlendis. Margir vilja gjarnan versla meira af íslenskri hönnunarvöru en hafa ekki efni á henni.
 
Verðlagning er einnig mjög mismunandi eftir hönnuðum, ýmist alltof há eða of lág.
 
Margir hönnuðir láta framleiða vörur sínar erlendis og er það skiljanlegt í mörgum tilvikum þar sem það er oft of dýrt, eða einfaldlega ekki hægt vegna tæknilegra vandkvæða, að framleiða vissar vörur hér heima.
 
Það mætti vera meiri samstarfsvilji hjá fyrirtækjum á Íslandi fyrir því að halda verðlagningu í lágmarki þegar leitað er til þeirra með framleiðslu. Við erum öll að vinna að sama markmiði, að efla íslenska atvinnustarfssemi, og því verður fólk að mætast á miðri leið svo framleiðsla á íslenskum vörum færist ekki öll á endanum yfir á erlenda grundu."
 
 
Hvað ertu að hanna í dag?
 
"Fyrir utan Eldlaufin (veggkertastjakana), Lauf og Stjörnu hengiskrautin, Fyrsta skref – kertastjakann og Góða nótt, sofðu rótt skiltin er ég að hanna óróa, rúmföt, servíettur, servíettuhaldara, skálar og margar aðrar vörur innan La Tí Ta línunnar. Einnig er ég byrjuð á nýrri línu sem væntanleg er á markað á næstu mánuðum."
 
Hvaða efni ertu að nota í þína hönnun?
 
"Ég nota stál og ál og mismunandi viðartegundir (t.d. linditré og birki) eins og er. Rúmfötin verða svo úr lífrænni 300-360 þráða bómull og ég mun einnig nota fleiri viðartegundir, íslenska ull, gler og leir í næstu vörum. Ég er hrifin að því að blanda saman ólíkum hráefnum til að fá mismunandi áferð á hlutina."
 
 
 
Áttu uppáhalds mun eftir þig sjálfa?
 
"Fyrsta skref – kertastjakinn er í algjöru uppáhaldi hjá mér. Hann er unninn í samstarfi við Stefán Hauk Erlingsson útskurðarmeistara. Ég vildi varðveita minningu um fyrstu skref stelpnanna minna og því fékk ég Stefán til að skera út nákvæma eftirlíkingu af fyrstu skóm stelpnanna, þ.e. skóna sem þær stigu fyrstu skrefin sín í, skórnir voru vel notaðir og því eru tréskórnir ekki eins og fullkomnir nýir skór. Þeir áttu að líta út eins og notaðir, sem þeir gera.
 
Mér fannst líka nauðsynlegt að enginn skór væri nákvæmlega eins og því er passað vel uppá það við útskurð og eftirvinnslu. Hver viðskiptavinur fær sitt einstaka eintak.
 
Ég hef alltaf verið skotin í blúndusokkum og því hannaði ég álhólkinn með það í huga að hann minnti á stroff á sokknum og fékk Sigríði Diljá Guðmundsdóttur frá Nýju- Búð til að hekla fyrir mig blúndukragann á sokkinn eftir minni uppskrift. Munstrið er byggt að hluta úr gömlum dúk eftir ömmu mína, Guðlaugu Gísladóttur.
 
Kertastjakinn hefur því mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig og mun ávallt vera uppáhalds."
 
 
 
Ertu að selja þínar vörur í einhverri verslun?
 
Vefverslunin www.sonjadesign.is opnaði í gær, 2. desember og þar er hægt að panta vörurnar og fá sendar. Vörurnar fara einnig í verslanir fyrir jól og verður hægt að fylgjast með því hvaða verslanir það verða á Facebook síðunni Sonja Design. 
 
Togga Hanssen á heiðurinn af vöruljósmyndum á hönnun Sonju. Ljósmyndari á myndum af hönnuði er Anna Sesselja Sigurðardóttir