Ef við fullnýtum þennan kraft getum við breytt heiminum


"Ég er trúlofuð og í fjarbúð með gullmolanum, Þorgeiri Þorgeirsyni, arkitekt og miðli. Ég vinn við að skrifa um og deila eigin reynslu um ferð mína um grýtt landslag lífsins.
 
Hvar ég fékk hjálp, öðlaðist von og leit mína inn á við sem reyndist lykillinn að innri ró og betra lífi." Segir Hulda Kristín Jóhannesdóttir rithöfundur, en nú nýverið gaf hun út dásamlega bók, Friðar kver. 
"Þegar ég komst að því að við erum annarsvegar hugur og hinsvegar vitund, sem erum við sjálf get ég með sanni sagt að líf mitt hafi þá breyst. Tilvera okkar er tvöföld og flóknari en sýnist en þekkingin á uppsprettu sálarinnar er byrjunin á öllu því sem maðurinn þarf á að halda til siðferðislegrar breytni.
 
Sá skilningur mundi breyta heiminum. Þessa vitneskju langar mig að gefa áfram og það geri ég í gegnum bækurnar og líka í gegnum Facebook síðurnar Hulin Viska og Huldu Kver (Hulin Viska). Einnig hef ég tekið á móti fólki í heilun, spjall og tarot."

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin?
 
Eftirminnilegustu jólagjöfina fékk ég árið 1982. Þá var sonur minn sjö vikna gamall og hafði hann verið útskrifaður af sjúkrahúsi deginum áður, eftir mikil veikindi. Þegar allir voru búnir að borða og opna jólagjafirnar og ró komin yfir heimilisfólkið þá var mér litið í vögguna þar sem drengurinn lá sofandi og hugsaði: Já, þetta er jólagjöfin mín.
 
Drengurinn var heilbrigður, bara með slæman magakrampa sem mundi ganga yfir á nokkrum mánuðum. Ég fylltist af svo mikilli gleði, þakklæti og auðmýkt yfir velvild almættisins. Já, þetta er besta jólagjöf sem ég hef fengið. Jólagjöf sem hefur vaxið og veitt mér ómælda ánægju í gegnum lífið og gerir enn. Gjöf sem er orðin að fallegum og góðum manni sem hefur fært mér yndislega tengdadóttur og litla ömmustelpu."
 
 
 
 jóla jóla! 
 
 
Ertu byrjuð á jólaundirbúningum?
 
"Já, alla jafna hefst ég handa við undirbúning hátíðarinnar í ágúst og tek forskot á sæluna með því að setja jólalög á fóninn. Hver skápur og skúffa er þrifin, veggir stroknir og gardínur þvegnar og straujaðar. Jólatréð er venjulega komið upp í nóvember og er þá búin að skreyta allt og hef þá desember til að kaupa jólagjafir. En ég kem sennilega til með að minnast jólanna í ár sem jólanna sem sanna undartekninguna á hinni gullnu reglu. Vegna þess að það er frekar líklegt að ég flytji úr því húsnæði sem ég hef búið í, í vesturbænum í sautján ár, upp í sveit. Það er samt ekki alveg komið á hreint."
 
Hvað langar þig í, í jólagjöf?
 
"Frá því ég komst til vits og ára hef ég alltaf beðið um sömu jólagjöfina; frið á jörðu. Ég ætla aftur að biðja um það sama því ég trúi því að helsta ósk mannkyns, sem er að fá að lifa í friði, eigi eftir að rætast. Til vara mundi ég vilja fá svarta spariskó."
 
Jólabókin í ár?
 
 
 
 
"Friðar Kverið. Þó svo að ég hafi sjálf skrifað þá góðu bók þá verð ég, eins og aðrir, fyrir daglegu áreiti þar sem hugurinn hleypur með mig í gönur.
 
Þá er gott að hafa bók við höndina sem leiðir mig aftur upp á veginn, upp að því marki sem ég stefndi að í upphafi."
 
Eftirminnilegustu jólin?
 
"Ætli það séu ekki jólin sem ég strauk að heiman, sextán ára gömul. Ég strauk heim til vinkonu minnar sem átti heima þremur götum neðar en ég. Þar var mér boðið í dýrindis hátíðarmat klukkan sex á aðfangadag þar sem ég sat í gallabuxum og snjáðu flóttamannadressi og borðaði með sparibúnu heimilisfólkinu.
 
En ég man sérstaklega eftir hlýjunni og kærleikanum sem ég mætti í öllu viðmóti og ekki var minnst einu orði á tættan útgang né ástæðu fyrir hinu meinta stroki. Þarna réði hinn sanni jólaandi ríkjum."

Heldur þú í jólahefðir, og þá hverjar?
 
"Já, það er blessuð jólasúpan hennar mömmu. Á meðan foreldrar mínir voru á lífi var jólasúpan alltaf í forrétt klukkan sex á aðfangadag. En eftir þeirra dag hefur mágur minn tekið við sleifinni og eldað súpuna í hádeginu á aðfangadag, sennilega norðlenskur siður sem hann tók með sér frá Akureyri, þaðan sem hann er ættaður.
 
Núna hittumst við systkinin ásamt góðum vinum og borðum súpuna hennar mömmu í hádeginu og þá er líka nóg pláss í maganum fyrir jólasteikina klukkan sex."
 
 Hulda með tengdadóttur sinni og barnabarni 
 
Hvernig verður aðfangadagurinn hjá þér í ár?
 
"Hvort sem ég verð farin í sveitina eða verð ennþá í vesturbænum þá veit ég að aðfangadagur verður góður. Ég kem til með að borða jólamatinn, í fyrsta skipti sem amma, hvort sem ömmustúlkan, tengdadóttir og sonur borði með okkur eða ekki.
 
En alla vega borðum við Þorgeir góðan mat saman ásamt hundunum okkar tveimur sem verða uppábúnir í fínu jólasveinabúningunum sínum.
 
Strengir þú áramótaheit?
 
"Nei, ekki beint heit. En um áramótin horfi ég alltaf yfir farinn veg og reyni að glöggva mig á hvað hefði mátt fara betur og hvað það raunverulega er sem ég vil gera á komandi ári. Ég reyni alltaf að hlusta á hjartað mitt, það segir alltaf satt."
 
Lokaorð...
 
Lokaorðin fæ ég að láni úr Friðar Kverinu: „Hvert stefnum við? Hvaða hlutverki gegnum við á jörðinni? Við getum íhugað þessar spurningar ef við áttum okkur á áhrifamætti hugans. Gríðarmikil orka býr í huga okkar, bæði jákvæð og neikvæð.
 
Við búum yfir meðfæddum hæfileika, ótrúlegri hugarorku sem er tengd við lögmál almættisins. Orka þín birtist í viðhorfi þínu. Og við vitum að sameinaður hugur margra er afl. Ef til vill er kominn tími til að fara að horfa á manninn sem hið góða.
 
Frjáls vilji þinn og sameiginlegur vilji mannkyns er orkan sem knýr áfram öfluga hreyfingu sem við öll erum þátttakendur í. Ef við fullnýtum þennan kraft getum við breytt heiminum. Þú getur gert miklu meira en þig órar fyrir.“
 
Segir þessi dásemdarkona að lokum. 
 
Hægt er að fylgjast með Huldu / Hulin Viska með því að smella t.d. hér. Gefðu þér það að gjöf að fylgjast með þessari hvetjandi síðu, þar sem daglega eru gefnar gjafir í formi fallegra og upplífgandi orða til umhugsunar og þroska.
 
Gjafir gefnar af alhug og í kærleika.