Engilberts hönnun - íslenskt, loðið, einstakt og töff!


Gréta Engilberts og Hjörtur Sólrúnarson eru fólkið á bak við Engilberts - hönnun.
 
Gréta er barnabarn Jóns Engilberts listmálara og nota þau verk Jóns í eitthvað af þeirra eigin hönnun.  Ber þar helst nefna myndir sem þau hafa gert með listaverkum eftir málarann við sjö ljóð Jónasar í tilefni 100 ára dánarafmælis hans.
 
Einnig voru gefnar út bækur í tveimur bindum í viðhafnarútgáfu árið 1946 af athafnamanninum Ragnari í Smára.
Gréta er menntuð sem kennari og förðunarfræðingur og starfar sem förðunarfræðingur hjá 365 miðlum. Hjörtur er tónlistarmaður og spilar í rokkbandinu Casio fatso ásamt því að semja eigin lög og texta.
 
Þess má til gamans geta að ljóð sem Hjörtur samdi var valið til að prýða servíettur sem fyrirtækið Kaffitár lét prenta fyrir síðastliðin jól. Hjörtur er einnig listamaður og teiknari og er þessa dagana að vinna að heimildarmynd sem verður að hluta til teiknuð með dóttir Grétu, Birgittu Engilberts.
 
 

 
Bæði frjó og skapandi
 
"Bæði erum við frjó í hugsun og skapandi og því hlaut eitthvað að gerast þegar við leiddum hesta okkar saman. Útkoman er Engilberts-hönnun, fyrirtæki sem heldur utan um hugsanir okkar og hugarfóstur, sem fyrst fóru að láta kræla á sér haustið 2013.
 
Við byrjuðum að vinna með og hanna konseptið í kring um myndirnar sem Jón Engilberts málaði við ljóðin hans Jónasar Hallgrímssonar. Myndirnar voru til og við veltum fyrir okkur hvernig við gætum nýtt þessar myndir og útkoman varð þessi, að skeyta þeim saman við ljóðin á einu blaði. Svo útbjuggum við möppur úr möttu plasti til að setja myndirnar í og með hverri möppu fylgir bleðill með upplýsingum um bæði Jón og Jónas."
 
 
 
 
 
 
Útkoman bekkirnir og kollarnir
 
"Það sem við erum aðallega að gera núna er að vinna í bekkjunum og kollunum, hugmynd sem við fengum í október á síðasta ári. Það fóru nokkrar vikur í að hugsa út hvernig við vildum gera þetta, hvaða efni við vildum nota og hvernig útlit við vildum hafa. Útkoman eru bekkirnir og kollarnir sem við erum að gera í dag.
 
Við fengum húsgagnasmið til að smíða fyrir okkur grindina eftir okkar teikningu og svampinn látum við skera fyrir okkur, en allt annað gerum við sjálf. Það skemmtilega við bekkina og kollana er að það eru engir tveir eins. Allt er sérunnið og ekki hægt að gera neitt eftir neinu móti.
 
Hvern fót á bekkjunum þarf að skoða sérstaklega og velja þarf tvær stökur (skinn) saman á hvern bekk svo þær falli sem best saman að bekknum. Eins þarf að sníða hverja stöku sérstaklega að hverjum kolli. Leðurbeltin þurfum við að sérsníða fyrir hvern koll og bekk, því engin kollur er jafn breiður og mislangt er á milli fótanna á bekkjunum."
 
 
 
 
 
 
Íslenska geitin er skemmtileg
 
"Við ákváðum að reyna að nota íslenskan efnivið eins mikið og við getum í það sem við gerum. Viðurinn er íslenskur frá Hallormsstað og við ákváðum að fara í íslensku landnámsgeitina til að klæða með.
 
Íslenska geitin er mjög skemmtileg. Sléttur og síður feldurinn kemur afskaplega skemmtilega út, en vegna þess hversu fágæt íslenska geitin er, aðeins um 800-1000 dýr, er ekki eins hlaupið að því að fá stökur til að vinna með og til dæmis gæruna sem nóg til er af. En við höfum verið heppin enn sem komið er og fengið nokkuð magn til að vinna með.
 
Við höfum fengið geitabændur í lið með okkur að safna eins miklu af stökum og hægt er svo við getum haldið okkur við geitastökurnar. Hitt yrði þó möguleiki að prufa okkur áfram með gæruna ef við verðum uppiskroppa með geitina.
 
 
 
 
Hver nýr bekkur og kollur sem við gerum verður eiginlega í uppáhaldi hjá okkur. Við verðum alltaf svo ánægð með útkomuna. Þó að erfitt sé að gera upp á milli þá held ég að við séum aðeins skotnari í kollunum því þeir eru svo miklir töffarar."

 
Hvað finnst ykkur um íslenska hönnun í dag?
 
"Það er gaman að fylgjast með íslenskri hönnun í dag. Hún er gróskumikil og spennandi og fullt af flottum hlutum sem er verið að hanna. Það er mikið orðið til af flottri íslenskri hönnum, til dæmis Ávaxtarennan hjá SOSK design. Eins höfum við haft gaman af að fylgjast með Tinnu Gunnarsdóttur.
 
Við erum mjög hrifin af Kjarvals stólunum til dæmis, en við eigum tvo slíka. Eins erum við hrifin af skartgripunum hennar Brynju Sverris. Alli Metall er að okkar mati einn fremsti og færasti grafíski hönnuðurinn í dag."
 
 
Gréta og Hjörtur eru skapandi og samheldin hjón
 
 
Eru bjartsýn á framtíðina
 
"Við erum bjartsýn á framtíðina og spennt fyrir því sem framundan er. Við ætlum að halda áfram að skapa fallega og skemmtilega muni, bæði húsgögn og fínlegri hluti. Erum nú þegar með nokkrar hugmyndir sem við ætlum að koma í framkvæmd,"segja þessi flottu og skapandi hjón að lokum.
 
Þau eru að sjálfsögðu á Facebook og þaðan er hægt að nálgast frekari upplýsingar. 
 
Smart hönnun hjá þeim Grétu og Hirti. Skoðið endilega síðuna þeirra, þar sem hér að ofan er aðeins sýnt sýnishorn af öllum flottheitunum.