Kikke Lane Koff - meiriháttar íslensk hönnun!


Ása Birna Viðarsdóttir er konan á bak við Kikke Lane Koff. Hún býr á Akranesi með eiginmanni og börnum og lagði stund á háriðn við Iðnskólann í Reykjavík.
 
“Ég vann við það í nokkur ár, en með viðkomu á nokkrum stöðum, í dag vinn ég við umsjón tæknigagna á Umhverfis- og Verkfræðisviði Norðuráls." Segir Ása Birna.
Hvenær byrjaðir þú að hanna?
 
"Ég hef í raun verið að hanna og skapa síðan ég man eftir mér, og hef dottið inn í allskonar handverk í gegum tíðina, prjónaskap, leirgerð og ljósmyndun svo fátt eitt sé nefnt.
 
Kikke Lane Koff er í raun splunkunýtt, fór í loftið fyrir um tveim vikum síðan. Ég hafði verið að hanna þessa púða og kerti og gefa sem gjafir og þetta spurðist út.
 
Eitt leiddi af öðru og ég fann fyrir miklum áhuga og ákvað að setja þetta inná Facebook til að prufa. Viðbrögðin hafa farið algjörlega fram úr mínum björtustu vonum."
 
 
 
Hvað ertu aðallega að hanna?
 
"Í augnablikinu eiga púðarnir og kertin hug minn allan eins og gefur að skilja, ég er ákaflega stolt af því hvernig til hefur tekist. En þess má geta líka að ég er áhugaljósmyndari af lífi og sál og finnst fátt meira slakandi en að grípa bakpokann minn með myndavélinni í og rölta eitthvað út í náttúruna til að taka myndir.
 
Ég hef unnið talsvert efni í kringum ljósmyndunina mína, meðal annars hannað auglýsingar ofl. Sumar þeirra mynda sem ég er með á púðunum og kertunum hef ég sjálf tekið. Annað efni hef ég nálgast í myndabönkum eða tölvuteiknað."
 
 
 
Hvernig kom hugmyndin af myndunum sem þú ert með á púðunum?
 
"Ég er alltaf að fá nýjar hugmyndir og í raun bara í startholunum með þetta, með hausinn fullan af hugmyndum og hlakka afskaplega mikið til að fara í vöruþróun þegar tími gefst. Efniviðinn sæki ég mest í dýraríkið og sveitina, þar sem mér líður best ."
 
Hvað finnst þér um íslenska hönnun í dag?
 
"Það er ótrúleg fjölbreytni og gróska í íslenskri hönnun, margir sem eru að gera einstaklega fallega hluti og ná góðum árangri með sínar vörur.
 
Ég held að íslendingar almennt séu ákaflega skapandi og skemmtilegir, stór hluti af fólkinu í kring um mig fæst við hönnun og listir af einhverju tagi og margir snillingar á sínu sviði."
 
 
 
Áttu þér uppáhalds hönnuði -íslenska og erlenda?
 
"Já, það eru tvær íslenskar systur. Búsettar í Danmörku þar sem þær voru í hönnunarnámi. Þær hanna undir sitthvoru vörumerkinu.
 
Önnur þeirra heitir Hildur Runólfsdóttir og hannar undir vörumerkinu Hrundesign, hún hannar geggjaða silfurskartgripi sem mér finnast ákaflega fallegir.
 
Systir hennar heitir Erla og hannar undir vörumerkinu Ranka, stórglæsilegan fatnað úr hinum ýmsu efnum. Tveir snillingar þar á ferð."
 
 
 
 
Bjartsýn á framtíðina?
 
"Já ég get ekki verið annað en bjartsýn eftir þennan gífurlega meðbyr sem ég hef fundið fyrir undanfarið.
 
Það er svo margt spennandi framundan hjá mér og ég er full tilhlökkunar að takast á við það,  þó ekki væri nema brot af þeim hugmyndum sem ég er með í kollinum." Segir hún að lokum.
 

Þú finnur Kikke Lane Koff á Facebook við hvetjum ykkur til að skoða og fylgjast með þessari dömu - meiriháttar flott sem hún er að gera!
 
Íslenskt? Já takk!
 
 
Ert þú ekki örugglega að fylgjast með okkur á Facebook