ÍSLENSK HÖNNUN: Erna Björk býr til falleg verk úr mósaík


Erna Björk Antonsdóttir hannar einstaklega fallega muni úr mósaík, en samhliða starfar hún við skrifstofustörf.
 
Erna Björk er á hárréttum stað í lífinu, því hún að að gera það sem hún elskar að gera og með því að gleðja aðra í leiðinni.
 
Við kynnum konuna á bakvið mosaic.is., en hún hefur einmitt fengið verðskuldaða athygli erlendis frá fyrir sköpun sína.
 
Við spjölluðum við hana:
Gerði  andlitsmyndir af The Beatles úr mósaik
 
"Frá því ég var barn hef ég sífellt verið leitandi í kringum mig eftir efnivið til þess að fá útrás í myndsköpun. Ég byrjaði strax í æsku að nota þurrkuð blóm, steina og skeljar í myndir. Ég hef alla tíð verið með þá áráttu að þegar ég sé efnivið sem hefur fallega áferð og liti þá sprettur upp löngun að vinna eitthvað með hann.
 
Áhuginn byrjaði fyrir alvöru þegar Guðmundur Magnússon sem var teiknikennari í Hagaskóla fór með okkur krakkana niður í fjöru til að leita efniviða og hugmynda í myndir til að vinna síðan úr. Hann opnaði nýjan heim fyrir mér sem fann þessari áráttu minni farveg. Á þeim tíma gerði ég m.a. andlitsmyndir úr muldu grjóti af The Beatles sem voru átrúnaðargoðin á þeim tíma”.
 
 
Stundum þarf maður að verða fyrir áfalli til ná að endurmeta stöðuna
 
“Ég kynntist kraftaverkakonunni Ernu Magnúsdóttur, iðjuþjálfa, sem nú rekur Ljósið og henni tókst að endurvekja neistann á ný eftir að hann hafði legið í dvala um skeið.
 
Stundum þarf maður að verða fyrir áfalli eins og ég með brjóstakrabbamein til að það nái að ýta við manni á ný í að endurmeta stöðuna. Með hjálp Ernu nöfnu minnar opnaðist þessi heimur fyrir mér á ný." Segir hún og er afar þakklát."
 
 
 
 
Dóttirin kom öllu af stað -eftir það hef ég verið óstöðvandi
 
“Dóttir mín, hún Anna Hulda fann þessa breytingu á mér og dró mig með sér á mósaíknámskeið. Eftir það hef ég verið óstöðvandi.
 
Þá dreif ég mig til Ítalíu í Mosaic Art School sem Lusiana Notturni, þekktur mósaik-listamaður rekur. Hún hefur sérhæft sig í mósaíktækni sem notuð var til forna og er hún einn mesti sérfræðingur Ítala í viðgerðum á gömlum listaverkum.
 
Þarna lærði ég þessa gömlu tækni, m.a. að höggva marmara og nota smalti í myndverk, vinna lágmyndir skv. aldagamalli tækni, portrait og síðan gólfskreytingar. "
  
 

 
 
Vinnur mest með íslenska steina
 
"Mósaík á sér ekki hefð hér á landi og hef ég fyrst og fremst haft áhuga á að nýta það listform til þess að skapa íslenska stemningu í verkum mínum. Ég vona að mér takist það að einhverju leyti.
 
Ég vinn aðallega með íslenska steina, sem ég ýmist hegg niður, saga í flögur eða slípi. Geri myndverk þar sem ég nýti mér tæknina sem ég lærði á Ítalíu auk þess sem ég geri myndir úr smalti, sem er glertegund sem notuð hefur verið m.a. í veggskreytingum erlendis."
 
 
 
 
Grípur í prjónana og teiknar sín eigin mynstur
 
"Úr smalti hef ég verið að glíma við að gera myndir af fiskum þar sem ég nýti portrait tæknina sem ég lærði. Síðan koma skeljarnar og hrúðurkarlar sem ég hef gaman að vinna með. Þar hef ég aðallega verið að vinna nytjamuni eins og vasa og þessháttar. Síðan hef ég gripið í að búa til fuglaböð og skreyta blómapotta eftir atvikum.
 
Milli þess sem ég er að vinna mósaík þá gríp ég prjónana og hef aðallega verið að teikna munstur fyrir lopapeysur og prjóna þær. Frá því í haust hef ég síðan bætt við sköpunargleðina og byrjaði að hanna og sauma töskur eða taupoka mér til mikillar ánægju og sem framlag til að sporna við endalausri plastpokanotkun." 
 
 
 
Fær athygli erlendis frá 
 
"Íslensk hönnun og handverk blómstrar í dag. Sem betur fer hefur almenningur sýnt mikinn áhuga á að styðja við handverkið og vona ég að svo verði áfram.
 
Ég fæ talsvert klapp á bakið varðandi verkin mín en verð þó að segja að ég hef fengið talsvert meiri athygli erlendis frá í gegnum tíðina. Þess vegna hef ég haft vefsíðuna mína mosaic.is á ensku í nýrri uppfærslu sem hefur verið í smíðum hjá mér að undanförnu. Ég fæ fleiri heimsóknir á síðuna frá útlöndum.
 
Ef ég get látið drauminn um almennilega vinnustofu rætast og á meðan ég finn fyrir neistanum sem gefur mér nýjar hugmyndir þá get ég ekki annað en verið bjartsýn á framtíðina," segir þessi flotta kona að lokum og að sjálfsögðu óskum við henni velfarnaðar í framtíðinni.
 
 
Á teikniborðinu er splunkuný hugmynd  að mósaíkverkefni sem bíður þess að verða að veruleika ásamt fullt af spennandi hlutum.
 
Einsog t.d. konukvöld með yndislegum handverkskonum sem verður haldið 5. mars nk.  Ykkur er velkomið að prenta út boðsmiðann hér að neðan -og mæta, því allir eru boðnir hjartanlega velkomnir. 
 
Erna er á Facebook og þaðan má nálgast allar frekari upplýsingar varðandi konukvöldið og fallega handverkið hennar.
 
 
 
 
Fylgstu með öllu því nýjasta á Facebook!