Settu sjálfan þig í fyrsta sætið


Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sjálf að setja okkur í fyrsta sætið á undan öllum öðrum.
 
Sérstaklega af þeirri einföldu ástæðu að við eigum mjög erfitt með að aðstoða aðra og að hjálpa öðrum, láta gott af okkur leiða ef við göngum um á hálfum tanki.
Það er mikilvægt að njóta þess að vera maður sjálfur. Sérstaklega af þeirri einföldu ástæðu að það er enginn annar sem getur verið ég eða þú.
 
Finndu leiðina þína að því hvað gerir þig hamingjusama/n. Leiðina að því sem þú hefur gaman af að gera og því sem þig langar til að upplifa í þínu lífi.
 
Álit annarra á því sem þú ert að gera kemur þér einfaldlega ekkert við. Þú þarft ekki að hafa sama álit og skoðanir og aðrir hafa á þér. Haltu þínu striki burtséð frá því hvað öðrum finnst um það.
 
Mín reynsla er sú að eftir að ég lét álit annarra ekki lengur á mig fá það varð ég mun hamingjusamari.
 
Ég hætti að láta álit annarra ákveða hver ég væri. Ég ákvað sjálf hver ég vildi vera.
 
Ég fór að elska sjálfa mig bara eins og ég er í stað þess að tipla á tám til að reyna að þóknast öðrum.
 
Hverjum líkar vel við mig og það sem ég er að gera og hverjir gera það ekki er einfaldlega ekki mitt mál.
 
Mitt mál er að hugsa vel um sjálfa mig, bæði sál mína og líkamann sem ég hef að láni.
 
Gera það sem ég hef gaman af að gera og rækta sambandið við þá sem ég vil hafa í mínu lífi og við þá sem vilja vera í mínu lífi.
 
Að þóknast öðrum gerir okkur ekki hamingjusöm. Ef við erum að gera eitthvað fallegt fyrir aðra og við væntum þess að sá hinn sami geri eitthvað á móti þá gerir það okkur heldur ekki hamingjusöm.
 
Að lifa lífinu án væntinga og án gagnrýni og dómhörku gerir lífið þitt mun einfaldara og hamingjuríkara en þig hefði órað fyrir.
 
Einfaldleikinn gerir mig mun hamingjusamari en margt annað. Að lesa góða bók, að liggja í grasinu með einhvern mér við hlið og hlusta á náttúruna. Sitja á ströndinni og horfa á hafið og sólina setjast gleður mig meira en allir heimsins fjármunir.
 
Gerðu það fyrir sjálfa/n þig að gera það sem þig langar að gera og hefur gaman af að gera.
 
Settu sjálfa/n þig ávallt í fyrsta sætið.