Á persónulegum nótum með Kjartani Guðjónssyni stórleikara


Ég og Kjartan ákveðum að hittast heima hjá honum. Eftir mikla leit að samstæðum sokkum og misheppnað make up ákveð ég að leggja í hann í einum gráum sokk og einum röndóttum.
 
Jæja hann er leikari og hlýtur því að skilja einstaklings frelsið til að velja, hugsa ég á leiðinni. Ég var búin að reyna að fela bóluna sem var orðin ofvaxin á kinninni með allskyns trixum, en gafst upp þegar hún virtist bara stærri með tonni af bólufelara og púðri.
Ég hefði þá allavega eitthvað til að gera grín af við sjálfa mig þegar ég kæmi til hans. Ég renn í hlað til hans eftir að vera búin að vera villt í 10 mínútur, með hann í símanum á öxlinni hlægjandi að athyglisbrestinum mínum.
 
Ég mæti á tröppurnar, svo er öskrað:

-Ég kaupi enga helvítis límmiða af þér, komdu inn það er opið!
 
Við mér tekur glaðlegur hundur og fallegt heimili. Kjartan knúsar mig og bíður mér upp á kaffi. Við erum búin að spjalla í 2 tíma "off the record", þegar við munum eftir að ég, var jú komin til að taka við hann viðtal.
 
Það er svo skrýtið með hann Kjartan, að þegar ég hitti hann fyrst leið mér eins og ég væri búin að vera vinkona hans allt mitt líf, stórskemmtilegur, gefandi og yfirhöfuð bara stórkostlegur einstaklingur.
 
Það er stutt í hláturtaugarnar þegar ég er í kringum hann.
 
 
 
 
Hver er persónan Kjartan?
 
-Ég veit það ekki. Maður er náttúrulega svolítið skitsó sem leikari. Búin að leika 50 hlutverk.
 
 
Finnst þér það breyta þér?
 
-Nei alls ekki. Ég er ekki þannig leikari sem tek hlutverkið mikið inn á mig. Hvað mótar mig? Bara lífsreynslan. Ég hef alltaf verið svolítill trúður í mér. Ég skrollaði mikið sem barn ég skrollaði meira að segja orð sem voru ekki R í. Ég snéri því upp í fyndni.

Ég var t.d. allaf á Raufarhöfn á sumrin og var með skemmtiatriði í sjoppunni. Ég er svona 8 ára og fékk alltaf mix og súkkulaði fyrir að fara með krummi krunkar úti og rómverskur riddari. Þannig að ég snéri þessu bara upp í að gera grín af sjálfum mér. Ef eitthver ætlaði að fara að gera grín af mér þá svaraði vinur minn alltaf fyrir mig: Þegiðu hann bjó í Frakklandi í 5 ár þess vegna talar hann svona.
 
Síminn minn hringir í miðju viðtali og Daddi tekur því létt eins og öllu öðru og ég varð að svara.
 
-Hæ Pabbi ég er í miðju viðtali má ég heyra í þér á eftir? Já ég veit, aha, jamm ok heyri í þér á eftir. Ég útskýri fyrir Kjartani að ég hafi gleymt að hringja í 3 daga af því að ég var í sleik og við skellum uppúr.
 
 
 
 
 
Látinn lesa Litla skrýtna skáargatið í mörg ár
 
-Ég var í talskennslu í mörg ár og Gunni vinur minn líka sem gat ekki sagt S, svo í öllum íslenskutímum í skólanum var kallað: -Kjartan og Gunnar, gjörið svo vel að koma með mér!

Þá fórum við upp í svona risherbergi þar sem ég var látinn lesa Litla skrýtna skráargatið í mörg ár. Svo var ég sendur til svona 20 talkennara um allan bæ, rándýrt dæmi en virkaði ekkert. En svo tók frændi minn mig að sér. Hann var að kenna í Öskjuhlíðarskóla og tók mig í kennslu þar tvisvar í viku eftir að hann var búinn að kenna á daginn.

Hjá honum lærði ég að segja R. Í lífinu skoppa ég yfir R in, en á sviðinu er ég mjög meðvitaður um þetta og tek sérstaklega utan um R in.
 
 
 
Þetta útskýrði alveg fyrir mér karakterinn sem hann er, öll erum við með grímu sem mótast eftir lífsreynslu okkar. Ég veit allavega að ég er þakklát fyrir að hann hafi tekið grínið á þetta, því þjóðin græddi úrvals leikara og algjöran demant í þjóðfélagið. Mig hafði langað að kynnast persónunni Kjartani eða Dadda eins og ég á að kalla hann núna.
 
Aldrei hefði mig órað fyrir því að svona stórbrotinn einstaklingur eins og hann er, myndi gefa mér svona tíma með sér, en það er bara svo mikið hann.
 
 
Hvað er framundan hjá þér Daddi?
 
-Næsta vetur verður gerð Pressa 4 hvar ég er í öðru aðalhlutverkinu og verður sú sería stærri en hinar þrjár. Svo erum við Edda Björgvins að fara að sýna í haust leikrit um starfsævi hennar þar sem ég verð svona sidekick hjá henni.

Það verða svona confliktar á sviðinu þar sem ég mun vilja að hún leiki Bibbu á Brávallargötu, en hún mun vilja gera hluti sem hún var aldrei beðin um. Eins og monologue úr Shakespeare og syngja því hún hafi aldrei verið í söngleik, svo það verður eitthvað.

Næsta vetur mun ég einnig frumsýna leikrit sem má segja að sé um móður mína, sem útvíklast í samband sona við mæður sínar og það er gert í samstarfi við Vesturport.

Þetta er okkur aðstandendum leikritsins mjög hugleikið. Við strákar erum eiginlega alltaf mömmustrákar inn við beinið og maður fer smá af límingunum ef mamma er ekki ánægð með mann, oft nokk sama hvað pabba finnst. Og ég mun leika mömmu, en þetta verður samt ekki eitthvað svona þorrablóts karlmaður fer í kjól. Segir Kjartan að lokum. 
 
 
 
 
Ég fyrir mitt leyti hlakka mikið til að mæta og horfa á þennan nýja vin minn slá í gegn í báðum þessum sýningum og ég veit að hann á eftir að skila þeim vel af sér eins og allt sem hann gerir.
 
Við tökum einn kaffi til með mjólk. Kíkjum á YouTube og hlægjum af nýjasta atriðinu sem hann er búinn að finna . Þetta er kvöld sem gleymist seint. Með manninum sem er svo mikið meira en bara landsfrægur leikari.
 
Hann er bara eitthvað svo ótrúlega frábær!