Heiðarleikinn borgar sig


Einn af góðum kostum mannverunnar er að vera heiðarleg. Samt má ýmislegt kyrrt liggja. Óþarfi að vera það heiðarlegur að það særi aðra.
Ég á við, þú stekkur ekki að manneskju sem þér finnst að ætti að splæsa í falskar tennur og hætta að brosa fyrr en eftir þann gjörning. Eða einhverri sem þér finnst svo leiðinleg að þú getur ekki umborið viðkomandi – hættu bara pent að tala við hana. Manneskjur eru allskonar. Okkur líka þær ekki allar, en það er okkar mál – ekki þeirra.
 
En þegar kemur að mannlegum samskiptum við þá sem þú vilt eða þarft að hafa samskipti við, þá er það heiðarleikinn sem skiptir máli. Því lygin bítur alltaf sjálfa sig í rassinn eða skýtur sig í fótinn.
 
Það er nefnilega svo auðvelt að vera heiðarlegur. Sönn frásögn getur ekki klikkað. Lygin klikkar hins vegar alltaf einhvern tíma – bara spurning um hvenær.
 
Heiðarleg manneskja ávinnur sér líka alltaf traust annarra. Þó svo hún sé ekki ungfrú alheimur, viskugyðja framtíðarinnar eða fágaðasta fyrirbæri landsins. Heiðarleikinn skapar traust og traust skiptir máli.
 
Þess vegna geta heiðarlegar og góðar manneskjur ljómað og blómstrað yfir svo margar gyðjur og goð. Bara á því einu að vera sönn eða sannur.
 
Sumum reynist þetta erfitt. Sérlega þeim sem hafa haft eitthvað grunsamlegt í hægri rassvasanum og eiga erfitt með að viðurkenna það.
 
Það er nefnilega oft lang erfiðast að vera heiðarlegur við sjálfa/n sig. En ef það er ekki hægt þá er heldur ekki hægt að vera heiðarleg/ur við nokkurn annan.
Það segir sig sjálft.
 
Ég öfunda ekki fólk sem lifir í eigin ósannindaheimi og eyðir lífinu í að telja öðrum trú um að þannig sé líf viðkomandi og hafi verið. Það mun alltaf skapa vonbrigði og leiðindi fyrir þá sjálfa og alla aðra í kringum þá. Sú manneskja er tilbúningur og ekkert annað. Sem mun alltaf uppgötvast.
 
En auðvitað er þetta spurning um hugrekki.
 
Sjáðu til. Hversu óheiðarlegur sem einhver hefur verið, mun umbreyting yfir í heiðarleika ekki bara vera léttir. Sú umbreyting mun breyta lífi viðkomandi. Kannski ekki strax, en það mun gerast.
 
Sjálfsmyndin kemur til með að taka stakkaskiptum og lífið mun breytast. Auðvitað þýðir þetta meira hugrekki, en flestir þeir sem hafa margt ljótt að fela fyrir eigin samvisku geta höndlað. En til þeirra get ég sagt. Það má vera að þú felir þetta fyrir sjálfri/sjálfum þér. En aðrir sjá þetta á endanum. Svo þú hefur engu að tapa.

Vertu heiðarlegur, byrjaðu í dag.