Hvenær sást þú manninn þinn síðast? Hvenær sá hann þig síðast?


Ég sá bíómynd í gær sem ég man ekki hvað heitir. Með Cameron Diaz, svona sæt vitleysismynd. En söguþráðurinn varð til þess að ég og gemlinn ræddum um innihaldið.
 
Vorum hreinlega sammála "sumu"...
Nefnilega hvenær og hvað gerist þegar að við hættum að sjá hvort annað. Hleypur hversdagsleikinn með okkur svo langt út í buskann, yfir fjöll og höf?
 
Þannig að ekkert verði eftir nema þreytan ein? Mér finnst allt svona svo spennandi. Af hverju þetta og af hverju hitt.
 
Hver af ykkur man ekki eftir þessu yndislega tímabili. Þessu bleika skýi þegar að allt var svo rósrautt, að meira að segja elsku kærastinn leit betur út þá en nú? Pirringur var enginn, allt mátti segja og allt mátti gerast.
 
Löngunin var svo mikil að hendurnar unnu í yfirvinnu við að þukla, strjúka, knúsa, klípa, kitla. Þú máttir ekki nálgast hann eða labba fram hjá honum þá greip hann í þig.
 
Þú máttir ekki vera í baði þá vildi hann inn í sturtuna eða troðast með í baðið svo allt flæddi upp úr. Bara að sjá þig á rassinum, æsti hann upp. Hann gat bara ekki látið þig í friði.
 
Hann endalaust hrósaði þér. Tók eftir þér og öllum þínum agnarlitlu smáatriðum. Meira að segja hvaða lit af G streng vantaði í safnið. Það rigndi inn sms-um. Með kræsnum og djörfum skilaboðum. Svo mikið að þú gast ekki beðið eftir að komast heim.
 
Hvað gerðist svo?
 
Við kyssumst ekki alltaf góðan dag, sofum stundum of lengi………. stress. Vekja börnin, morgunmatur, nesti. Út. Já, úbbs hann var þarna líka og ég var þarna líka. Þekkir einhver þetta?
 
Við göngum fram hjá hvort öðru án þess svo mikið að snertast. Er byrjuð að láta minnstu hluti pirra mig. Fer í klippingu, litun. Kaupi mér ný föt. Ekki einu sinni tekur hann eftir því hvort að ég skipti gráþvegnu gömlu Sloggi út í eitthvað frískara. Get ég ekki alveg eins látið vera að hafa mig til?
 
Mygla, mygla, mygla.
 
Það var ein dásamleg spurning í myndinni, sem dóttirin spyr pabba sinn:
 
-Pabbi af hverju kemur alltaf nýr dagur þegar að við erum búin að sofa?
 
AFÞVÍ AÐ SVONA ER LÍFIÐ.
 
Vá, hvað það er eitthvað leiðinlegt. Nú skil ég af hverju þér og mömmu leiðist svona oft...
 
Við könnumst líklega öll við eitthvað af þessu. Þar sem að sambandið/hjónabandið verður meira lifrakæfulegt en rósrautt.  Viljum við það eitthvað? Ég meina að sambandið/hjónabandið verði að einhverju fljúgandi skýi?
 
Já sum okkar, aðrir vilja hafa smá kæfu með. Aðrir meina að það "eigi" að vera smá kæfa með. Það er allt í lagi. Ég er bara þeirrar skoðunar að hjónabandið má alveg búa á þessu skýi.
 
Ég er taktískt ein af þeim, sem vil vera ofan á því og fljúga. Það má alveg "líka" Ég veit þó, af reynslunni að svona er það ekki, alltaf.
 
Ég veit, að þegar að ég upplifi kæfulífið, þá er það alveg eins upp á mína ábyrgð að hífa upp ermarnar og gera eitthvað draslískt. Alveg eins og mannsins míns.
 
Það virðist bara liggja okkur konunum betur að lenda undir og verða svolítið marðar af því.
 
Sæta Diaz í bíómyndinni tók málið í sínar hendur. Var andskoti djörf að mínu mati. Hún vildi gera "heimaporno" með kallinum. Sætt en hættulegt. Varð svo útkoman. 
 
Að vera djörf og það að þora því í miðju "gömlu" sambandi krefst oft mikils hugrekkis. Það er þó hundrað sinnum betra að taka sénsinn með sínum eigin kalli, en að fara út í bæ eða á netið og finna einhvern annan sem að vill leika hlutverkið á móti þér.
 
Það skiptir svo miklu máli að við finnum neistann, höldum í hann og glæðum hann lífi. Mín fantasía nær ekki mikið lengra en bíóferð, gönguferð og þó...kannski bý ég til góðan mat á G strengnum?
 
HVER VEIT!
 
Höf: Hafdís Ægisdóttir