Sönn nútímasaga: Hetjan!


Ég var nú hvorki stór né stæðilegur maður. Bara svona venjulegur náungi sem vann á tímabili alla daga og aðra hvora helgi í bakaríi á næturnar í Kaupmannahöfn, sem aðstoðarmaður.
 
Laugardagskvöld rennur upp. Það er fullt tungl og svarta myrkur.
Klukkan er 12 á miðnætti þegar ég hjóla af stað í vinnuna. Ég á að vera mættur kl. 1.
 
Leið mín liggur að venju í gegnum lítinn skóg til að stytta mér leið.
 
Ég hjóla þarna annars hugar, þegar ég sé allt í einu innkaupapoka á miðjum stígnum.
 
Innihaldið liggur á dreif út um allt. Það fer kuldahrollur um mig.
 
Ég hjóla hægt áfram. Skima í allar áttir. Skil ekki neitt í neinu.
 
Skyndilega birtist mér sjón sem ég aldrei mun gleyma...
 
Úr skimunni frá tunglinu sé ég að kona liggur á stígnum. Pils hennar er dregið upp. Skyrta hennar er í tætlum og það sést víðsvegar i bert hold.
 
Karlmaður liggur ofan á henni.
 
Hann er stór og kraftmikill. Andardráttur hans er þungur. Það glittir í tattú á örmum hans, sem halda höndum hennar læstum við jörðina.
 
Ég er frosinn. Tíminn er frosinn.
 
Þau líta bæði á mig og það rennur skyndilega upp fyrir mér, að ég er riddarinn á hvíta hjólinu...
 
En hann er bara svo miklu stærri en ég.
 
Ég mana mig upp. Hoppa af reiðhjólinu og segi eins karlmannalega og ég get:
 
-Hvað er að gerast hérna?
 
Ég hljóma eins og fermingarstrákur í mútum..
 
Augu hans líta ekki af mér. Stara á mig eins og úlfur á bráð.
 
Hún snýr höfðinu hægt og lítur nú beint í augun á mér.
 
Rödd hennar er róleg, en þrunginn æsingi. -Ertu ekki nógu gamall til að vita það? Spyr hún...
 
Hann brosir... hún brosir...
 
Ég hjóla hægt og nötrandi í burtu, ákveðinn í að þennan leik ætlaði ég mér ekki að leika eftir með kærustunni minni...
 
höf: Valgeir Halldórsson

Býrð þú yfr neyðarlegu, skemmtilegu atviki, eða reynslu sem þú vilt deila með lesendum Spegilsins? Sendu tölvupóst á spegill@spegill.is