Svefnlausar nætur....ert þú ein/n af þeim?


Það er svo merkilegt hvað svefnleysi hefur mikil áhrif á mann. Það læðist einhvern veginn aftan að manni og maður bara hættir að fúnkera. Ég get ekki gert lítið úr því hvað það getur verið erfitt og fæ að finna það reglulega á eigin skinni. Stundum held ég að svefnleysi sé eðlilegt ástand. Suma daga tel ég mér trú um að ég sé bara alveg eins og ég eigi að mér að vera, þó ég hafi sofið lítið og illa. Aðra daga finn ég glöggt að ég er ágætis dæmi um svefnvana konu. Ponsin mín brölta á nóttunni og ég er ekki frá því að það hafi áhrif á mig.
 
Fyrstu dagar svefnleysisins eru ósköp sakleysislegir. Ég helli yfir mig æðruleysinu og minni mig á að amma vakti vorvertíð. Ég er ekki alveg jafn viðbragðsgóð og áður og stundum þarf að kalla oftar en einu sinni í mig til að ná sambandi en ég virka nokkuð vel. Ég mismæli mig aðeins oftar en áður en ekkert sem nokkur tekur eftir.
 
Eftir því sem svefnlausum dögum fjölgar verður erfiðara að halda sambandi, ég reyni að fela þetta en stend mig að því að segja ha óþarflega oft og biðja fólk um að endurtaka sig. Ég annað hvort næ ekki að fylgja samræðum eftir eða tala út í eitt, svolítið samhengislaust. Ef ég geri öndunarpásu eða einhver brosir til mín þá missi ég jafnvel taktinn og man ekki stundinni lengur um hvað ég var að tala.
 
Svo líður tíminn og ég man kannski ekki alveg hvenær allir sváfu heila nótt, ég er farin að missa hluti úr höndunum á mér bara sí svona. Ég finn ég blóta í hljóði ef ég missi eitthvað í stað þess að hugsa úps. Ég er alveg í stuði til þess að tuða í búðarstarfsfólki og æðruleysi er eitthvað sem aðrir geta bara tileinkað sér.
 
Nú mismæli ég mig ekki aðeins heldur segi ég oft bara eitthvað bull. Ég fer að hafa áhyggjur af málfræðikunnáttu minni. Ég rugla nöfnum, fallbeygi ekki og þarf oft að gera hlé á máli mínu. Sem er ekki gott því ég man þá ekki um hvað ég var að tala og hve langt ég er komin í sögunni.
 
Ég veit til dæmis ekki hve oft ég hef beðið manninn minn um að rétta mér eitthvað algert rugl. Baða hendinni fram eftir blautþurrkunum og bið hann að rétta mér blómin, stólinn eða ullarbuxurnar. Þegar hann áttar sig ekki á því um hvað ég er að tala bið ég hann um að heyra það sem ég hugsa en ekki það sem ég segi.
 
Ég er svo farin að rjúka úr einu í annað því ég hreinlega man ekki hvað ég var að gera, af hverju ég var að því og hvað ég ætlaði að gera næst.
 
Hlutirnir verða aðeins flóknari, erfiðari og leiðinlegri. Ég er orðin svifasein og stend oft og góni út í loftið. Eftir margra daga svefnleysi hættir fólk að vera fallegt og röddin í því verður skrýtin, dregst svona eins og þegar rafhlöður eru að klárast í segulbandstækinu. Á þessu stigi er mig farið að dagdreyma um nætursvefn og flestar hugsanir mínar eru þráhyggjukennt að réttlæta hvað ég á mikið skilið að leggja mig eða sofa óáreitt eða sofa út. Sjálfsvorkunnin byrjuð að bakka mig upp.
 
Að lokum trúi ég því að þetta séu karaktereinkenni hjá mér, ég sé almennt sljó, húmors- og minnislaus. Karaktereinkenni en ekki aukaverkanir af svefnleysi. Ég óttast að ég fái aldrei vinnu því ég er með óstarfhæfan heila. Ég held að vinir mínir yfirgefi mig og að maðurinn hætti endanlega að nenna að tala við mig.
 
Þegar hér er komið sögu átta ég mig yfirleitt á því að þetta gengur ekki lengur og þá skal taka á málunum. Ég tilkynni yfirleitt við hátíðlega athöfn að nú hafi ég tekið svefnmálin í mínar hendur og allir settir í prógramm sem verður að fylgja eftir. Ég fletti í bókum, teikna plan og set mig í stellingar. Nú verður ekki skorast undan. 
 
Yfirleitt nær það svo ekkert lengra. Mér finnst það vera regla frekar en undantekning að akkúrat þegar ég er komin með góða áætlun til þess að taka á svefnmálunum þá örmagnast ég einhvers staðar, sef eins og steinn og börnin fögru gera það líka. Og þvílíkur er munurinn. Ó hvað það er gott að sofa - svefni hinna réttlátu. 
 
Allt verður fallegt aftur, fuglarnir syngja, vinirnir fá húmorinn og afgreiðslufólkið verður aftur kurteist og yndælt. Eftir góðan nætursvefn get ég aftur gert einfalda hluti án þess að þurfa að taka mér pásu og ég er ekki frá því að lífið sé bara öllu auðveldara og léttara.
 
Það er mjög ólíklegt að sælan og svefninn endist og því reyni ég að njóta augnabliksins sem aldrei fyrr. Fallbeygja rétt og muna hvar ég legg frá mér hlutina. Svo er gott að muna að það er ekkert mál að vaka eina vorvertíð, sérstaklega þegar maður á svona falleg börn.