REYNSLUSAGA: Að missa barnið sitt úr vöggudauða


Þegar ég var 23 ára eignast ég mitt annað barn, með þáverandi sambýlismanni mínum.

 

Ég eignaðist yndislegan son, en fyrir átti ég litla fallega stelpu fædda árið 1984. Allt gekk mjög vel í fæðingunni og faðirinn klippti stoltur í sundur naflastrenginn.

 

Þá tíðkaðist að nýbakaðar mæður væru 3-5 daga á sængurkvennadeild, nema við vorum á sjúkrahúsinu á Ísafirði og vorum inni á deild sem hafði upphaflega átt að nýtast sem gjörgæsludeild.

 

En hvað um það, börnin voru höfð í herbergi inn af vaktherberginu um nætur og svo vorum við mæðurnar vaktar til að gefa. Nema litli minn, hann vildi ekki vera hjá hinum börnunum, en þau voru 5-6 ásamt honum og hann varð ekki rólegur fyrr en hann fékk að vera frammi með vaktinni.

 

Svo förum við heim og allir glaðir og sælir, hann var mjög bráðþroska og hjalaði og horfði í kringum sig, einnig sýndi hann viðbrögð við tónlist.

 

Við vorum hamingjusöm lítil fjölskylda. Svo rennur upp dagurinn sem ég gleymi aldrei.

 

Pabbi hans fór til vinnu snemma morguns og kveður okkur, hann sagði mér seinna að hann hafi verið svo hamingjusamur þegar hann horfði á okkur um morguninn. Ég fer að gefa syninum brjóst og um 20 mínútum síðar fer ég á fætur, en við bröltinu á mér koma enginn viðbrögð frá honum.

 

Ég kem við hann og finn og sé að það er eitthvað að, varirnar bláleitar og ég þreifa eftir púls og hjartslætti sem ég finn ekki. Ég prófa hjartahnoð og blástur og reyni að finna símann, um leið og ég vef hann í sæng, því mér fannst skipta máli að halda á honum hita.

 

Svo hringi ég eftir sjúkrabíl og segi:

 

- Góðan daginn, ég er með andvana barn!

 

Þetta gat ég ekki skilið seinna, en var sagt að heilinn sé eins og setur á sjálfsstjórn við svona áföll.

 

Svo hringdi ég í mömmu og vakti hana með að segja að barnabarn hennar væri dáið. Ég náði ekki í pabba hans. Dóttir mín hafði farið að leika sér við vinkonu í sama stigagangi og ég hafði enga rænu á að ná í hana, en nágrannakonan kom svo með hana.

 

Allt fylltist af fólki. Læknirinn kom, löggan, mamma, sambýlismaður minn. Sonur minn var úrskurðaður látinn, og farið með hann.

 

Krufning fór fram í Reykjavík og ég man hvað var sárt að horfa á pinku litlu kistuna við hliðina á vélinni áður en henni var komið fyrir aftast í vélinni. Við hittum svo sérfræðinginn sem krufði og fengum að vita að þetta væri vöggudauði þ.e. skyndidauði, en þá gerist eitthvað í miðtaugakerfinu og barnið hættir að anda og hjartað hættir að slá.

 

Enn í dag veit enginn af hverju. Enn útbreiddur misskilningur er að börnin kafni og oft er sagt að fólk eigi að passa að þau sofi ekki á maganum. Mér sárnaði það oft að fólk hélt í raun og veru að ég hefði ekki gætt hans nógu vel og hann kafnað. En þetta var ekki á mínu valdi, þetta var skyndidauði.

 

Þessi sami sérfræðingur sagði okkur það að þetta þekktist ekki hjá gula kynstofninum, væri algengt hjá svörtu fólki, en enginn lenti oftar en einu sinni í þessu nema að einn íslenskur maður varð fyrir því að missa tvö börn með þessum hætti með sitthvorri móðurinni.

 

Eftir að niðurstöður voru fengnar, fórum við með hann heim að jarðsetja hann. Ísafjarðabær þ.e. stjórnsýslan kom mjög vel fram við mig, en ég starfaði sem leikskólakennari hjá bænum.

 

Þau lokuðu bæjarskrifstofunni og mættu langflest á jarðaförina. Auk þess var leikskólinn lokaður, og mér var boðið þriggja mánaða orlof á launum og lengra ef ég vildi.

 

Við fengum ótal fallegar kveðjur og ég er enn snortinn yfir hvað mikinn hlýhug við fjölskyldan fundum þarna.

 

Með kærri kveðju,

Valdís Bára

 

Ert þú með reynslusögu sem þú vilt deila með lesendum Spegilsins? Sendu okkur tölvupóst; spegill@spegill.is