Aðsend grein: Tillitsleysi við UNGLING af hálfu móður


Í allri umfjöllun um ofbeldi finnst okkur ærin ástæða til að rýna betur í ofbeldi/einelti og tilfinningalega kúgun sem mörg börn verða að þola af hendi foreldra og systkina sinna - og þarf þá ekki að koma til óregla á heimilinu, barnamerg né fátækt.

 

Börnum er mismunað af foreldrum sínum, gerð að blórabögglum..! 

 

Börnin ómöguleg í alla staði allt frá fæðingu og alls staðar fyrir. Neðangreint finnst okkur eiga erindi hér á Spegilinn, bréf frá unglingi sent Póstinum hjá VIKUNNI fyrir mörgum árum. Gerandi ofbeldisins er móðirin.

 

BRÉFIÐ: TILLITSLEYSI VIÐ UNGLING:

 

Kæra Vika!

 

Ég leita til þín í vandræðum mínum, eins og svo margir aðrir. Ég er 15 ára (að verða 16) og á í miklum erfiðleikum.

 

Svoleiðis er að ég þjáist að óskaplegum öryggisskorti, en ég held að það sé mikið til uppeldinu að kenna. Alltaf þegar ég kem heim með vinkonur mínar segir mamma við mig, í áheyrn stelpnanna, að sjá nú muninn á hárinu á henni, heldur en þér með hárið þitt, eða þá sjáðu hvað þessi er í huggulegum skóm, svona vildir bú ekki að ég keypti handa þér, það eru allar stelpur nema þú sem vilja svona.
 

Það er eitthvað á þessa leið nöldrið í henni, en hún lætur ekki svona við mig aðeins þegar ég er með jafnöldrum mínum. T.d. um daginn þá fór ég með foreldrum mínum í fermingarveislu, og þá þurfti mamma endilega að minnast á það í allra áheyrn hvað það væri nú agalegt að sjá hvað krakkinn væri í stuttu pilsi, svo spurði hún: og finnst ykkur hún ekki vera fígúrulega klædd.
 

Allra augu mændu á mig, og ég ætla ekki að segja hvernig mér var innanbrjósts, þessa stundina. Ég hef talað um þetta við mömmu og beðið hana að hætta að tala svona um mig, en hún virðist ekki skilja hvað ég tek það nærri mér hvernig hún talar um mig í allra áheyrn, hún segir bara, að ég gefi henni tilefni til þess. Ég hef reynt að vera eins og ég held að henni líki best, en hún finnur alltaf eitthvað athugavert við mig.

 

Ég er að verða hálf taugaveikluð út af þessu, gefðu mér nú einhver góð ráð.

 

SVAR:

 

Þar sem þú hefur fært þetta í tal við móður þína og talað þar fyrir daufum eyrum að því er virðist, þá skaltu nú sýna móður þinni bréf þitt í þessu blaði og í tilefni af því vill pósturinn segja eftirfarandi við móður þína:

 

Það er varla ástæða til að halda að þú viljir ekki dóttur þinni vel, en þú ert því miður ekki betur gefin en svo, að þú vinnur örugglega og markvisst að því að brjóta dóttur þína niður. Það er vitaskuld í lagi að þú gagnrýnir hana, en það ætti að vera ykkar á milli og slík gagnrýni má sízt af öllu eiga sér stað, þegar jafnaldrar og félagar hlusta á.

 

Tilfinning fyrir öryggisleysi og taugaveiklun eru rökréttar afleiðingar af framkomu þinni og með því að halda þannig áfram má ala upp slíka minnimáttarkennd að unglingurinn verði ófær um nám og starf og ekki er víst að hann bíði þessa nokkurn tíma bætur.

 

Ert þú með sögu/ábendingu/reynslu sem þú vilt koma á framfæri til lesenda Spegilins? Sendu okkur tölvupóst á spegill@spegill.is.