Haustið og húðin


Nú er haustið komið með sitt risjótta og ófyrirsjáanlega veður. Þá er ekki úr vegi að staldra við, líta í spegilinn og kíkja aðeins á þetta stóra líffæri sem kallað er húð.
 
Hvernig kom hún undan sumrinu? Er hún bara fallega hvít og fersk? Brann hún aðeins og varð rauð og viðkvæm? Eða fékk hún mikla sól og er nú fallega brún og hraustleg?
 
Auðvitað viltu halda sem lengst í þann fallega brúna lit ef svo er. Gott ráð er að næra húðina eins oft á dag og mögulegt er, til þess að hún haldi raka sínum og byrji ekki að flagna. Rakagefandi og nærandi body lotion og húðin andvarpar af velllíðan.
 
Kókosolía er líka mjög góð, hún er náttúruleg og hægt að bera hana á líkama og andlit. Það má setja mýkjandi olíu út í baðvatnið, bera nærandi maska á andlitið og kertaljós og róandi tónlist toppa þetta algjörlega. Þú finnur líka fljótt hversu vel þér líður þegar þú ert búin að næra húðina á þennan hátt.
  
Þú þarft að hugsa sérstaklega vel andlitið þegar vetur konungur nálgast. Húðina ætti að hreinsa kvölds og morgna, hvort sem notaður er farði eða ekki. Notaðu hreinsimjólk og andlitsvatn fyrir þína húðgerð. Óþarfi er samt að hreinsa húðina með hreinsimjólk á morgnana, andlitsvatn dugar.
 
Þú þarft að vernda húðina gegn kulda og hitamismun. Það eru til krem sem sjá um þetta, bæði dagkrem og næturkrem. Augnkremið er eitt af þeim kremum sem ekki má gleyma. Það er regla númer eitt, tvö og þrjú, bæði kvölds og morgna. Það er líka gott að bera augnkremið í kringum munninn til að koma í veg fyrir hrukkumyndun.
 
Nærandi og rakagefandi andlitsmaskar eru líka nauðsynlegir, það fer eftir húðgerð hversu oft í viku þeir eru notaðir. Skrúbbmaska er líka gott að setja inn í rútínuna. Besti tíminn til að nota hann er þegar þú ferð í sturtu á morgnana. Húðin verður silkimjúk og fín og getur nú betur tekið á móti þeim kremum sem eiga að viðhalda raka hennar yfir daginn. Farðinn helst líka betur á, verður jafnari og sest síður til.
 
Að gera umhirðu húðarinnar að fastri og góðri venju er það sem skiptir máli. Gerðu haustið að þeim tíma sem umhirða húðarinnar er tekin með trompi og sett í dagskrána fyrir hvern dag.
 
Hvernig þú ferð að, er undir þér komið. Við erum svo ólíkar. Sumum hentar að setja lítinn miða á spegilinn. Aðrar geta merkt við í dagbókina hvenær um kvöldið á að hreinsa farðann framan úr sér. Svo getur virkað vel að raða snyrtidótinu á einhvern áberandi stað.
 
Krem, maskar, olíur og hvað þetta nú heitir allt saman, gerir ekkert gagn uppi í skáp. Verum góðar við okkur og leyfum okkur þann munað að hugsa vel um húðina svo við getum brosað í spegilinn á hverjum degi sáttar og sælar.