Siðblindur maður heillar barnaverndarstarfsmann


Hér á eftir fer aðsend grein, Birtist hún orðrétt frá konu sem kýs að láta nafn sitt ekki getið:
 
Unga stelpan hafði veigrað sér við því að hringja í mig og láta mig vita af ósköpunum vegna þess að hún vissi ekki hvernig ég myndi bregðast við, svo hún var fegin að ég hafði samband við hana af fyrrabragði.
 
Hann var búin að segja henni að ég væri ofbeldisfull, henti í hann hlutum og barði hann. Ég ætti við áfengisvanda að stríða og væri brjáluð í skapinu.
 
Hann er svo sannfærandi að hún trúði því en var hins vegar alltaf í vafa eftir að hún hitti mig í afmælum barnanna og annað. Sagði honum að henni fyndist ég mjög fín og væri ekki alveg að sjá þessa geðveiku konu sem hann talaði um. En hann sagði henni að um leið og dyrnar lokast þá myndi ég breytast í skrímsli.
 
Hann hafði greinilega líka heilaþvegið fjölskyldu sína sem ég átti í yndislegu sambandi við þegar við vorum saman. Það sló mig þegar ég heyrði mömmu hans eitt sinn segja við mig "já þetta gekk ekki hjá ykkur, þið eruð svo lík í skapinu".
 
Ég var í áfalli eftir samtal mitt við ungu konuna en um leið svo þakklát, hún hafði staðið við hlið barnanna minna og gætt þeirra þegar þau voru hjá honum. Hann talaði um það þegar þau voru saman hversu ljúft það væri ef hann gæti bara skilað þeim á kvöldin og þurfti ekki að hafa þau yfir nótt. Hann var greinilega ekki með þol í að hafa þau 4 daga í mánuði.
 
Ég ákvað að leita til barnaverndar eftir ráðum því þetta var mér offiða. Þar talaði ég við yndislega konu sem hlustaði á mig og ráðlagði mér að halda þeim frá honum þar til þau væru búin að kanna málið. Mikið var mér létt. Ég þarf vart að taka fram hversu glöð börnin mín voru þegar þau spurðu mig fimmtudagskvöldið fyrir næstu pabbahelgi hver myndi sækja þau á leikskólann.
 
Það liðu nokkrir dagar þar til aðili frá barnavernd kom heim til að taka af mér skýrslu, og þar sem hann bjó í öðru bæjarfélagi þá skiluðu hvor nefndin um sig sinni umsögn. Þetta var aðili mín megin. Konan settis á móti mér og setti upp tölvuna sína.
 
Mér leið hálf kjánalega að tala við hana um þetta, þar sem hún sýndi máli mínu lítinn áhuga en pikkaði og pikkaði inn í tölvuna á meðan ég talaði. Hún tók símann í hvert skipti sem hann hringdi því hún var í kjaranefnd og hún varð að svara.
 
Gott og vel, en mér þótti þetta samt óþægilegt þar sem ég var að ræða um ótta minn um velferð barnanna minn sem skipta mig öllu máli í heiminum.
 
Ég tel fram vitni af því sem gerðist, segi henni frá ungu konunni og að ég sé kannski ekki að muna allt nákvæmlega það sem hún segir og gef henni símanúmerið hennar til að hún geti fengið að heyra hlutina frá fyrstu hendi.
 
Hún talar svo við hann. Hún hringir svo í mig aftur til að ræða betur við mig. Þá telur hún enga ástæðu til að tala við ungu konuna. Telur enga þörf á að ræða við fleiri aðila og eins og hún orðaði þetta "það er best að klára þetta sem fyrst".
 
Þetta var á laugardegi og ég var að gæsa vinkonu mína með hóp að stelpum svo ég spurði hana hvort ég mætti ekki bara tala betur við hana á mánudeginum.
 
Hún jánkaði því. Ég hringi svo í hana og furða mig á því að hún ætli ekki að tala við einu manneskjuna sem hefur engra hagsmuna að gæta og var vitni að þessu öllu saman. En þá áttaði ég mig. Hann hefur náð henni.
 
Andskotinn. Er hún ekki menntuð í sínu fagi? Þekkir hún ekki siðblindu?
 
Er hún í alvöru að segja að það sé nóg að tala við mig og hann og meta svo hvað er best fyrir börnin? Ég bið hana að taka viðtöl þá allavega við börnin.
 
Hún segir að það sé nú yfirleitt ekki rædd við svona lítil börn. Ég fæ hana samt til að heyra í ungu konunni eftir langar rökræður. Ég reyndi að fá hana til að leita til lögreglunnar og geðdeildar en það var ekki hægt. Lögreglumál sem eiga sér stað áður en umgengni er stöðvuð teljast ekki skipta máli og í raun má ekki fara í þær að hennar sögn, hvernig má það vera? Geðheilsa hans, hún er ekki könnuð. Ég var tilbúin í að fara í allar geðrannsóknir líka og það var ekki heldur í umræðunni.
 
Hún spurði mig trekk í trekk afhverju ég treysti honum ekki. Margsagði mér að það sem hafi gerst okkar á milli í okkar sambúð kæmi börnunum ekki við nema að þau beindist að þeim beint.
 
Hann mátti sem sagt berja mig fyrir framan barnið jafnvel drepa mig og það, að sögn hennar, hefði það engin áhrif á barnið nema ef hann myndi snerta það eða meiða....
 
Ég var strax farin að sjá eftir því að hafa talað við barnavernd, ef þau horfa svona á ofbeldismál þá er nú ekki mikil vernd fólgin í þeirra hjálp ef hjálp skyldi kalla.
 
Hún ítrekaði margoft að ég gæti ekki haldið þeim frá honum, þeirra réttur á að umgangast hann væri svo sterkur. Þá hugsaði ég til baka og mundi hvað unga konan sagði varðandi það að hann vildi að hann gæti bara haft þau daglangt og ég kom með þá tillögu en hún sagði að lágmarks umgengni yrði alltaf frá föstudegi til sunnudags ég gæti ekki farið fram á minna en það.
 
Svo spyr hún mig aftur hálfundrandi við hvað ég sé eiginlega hrædd og spyr mig hvort það sé kynferðislegt ofbendi sem ég sé hrædd við. Mér fannst svo skrítið að það var eins og hún hafi ekkert verið að hlusta á mig þegar hún hitti mig fyrst og þegar ég hringdi fyrst til þeirra.
 
Ég þurfti að útskýra allt aftur og aftur og aftur og mér var farið að líða eins og ég væri eitthvað skrítin að vera hrædd um börnin mín.
 
Eftir þetta hringdi hún í mig svona tvisvar til að fá nánari upplýsingar og var þá búin að ræða við hann líka nokkrum sinnum. Samtölin fóru alltaf fjær og fjær börnunum og hún fór að spyrja mig um okkar samband mjög mikið og var að ræða hluti sem voru svo langt frá því að skipta máli varðandi börnin.
 
Mér fannst skrítið að það kæmi börnunum meira við en ofbeldið sem átti sér stað í meters fjarlægð frá barnarúminu þar sem fyrra barnið hágrét að meðan hann lá ofan á grátandi móður þess.
 
Aldrei var haft samband við vitni...þeir sem tjáðu sig voru ég , hann, mamma hans og svo unga konan. Ekkert annað kannað !! Orð á móti orði. Það er öll rannsóknin.
 
Greinagerðin kom svo loks. Þar sem barnavernd sá ekki að það væri hætta á ferðum hjá föðurnum þá sér hún ekki tilgang í að breyta umgengninni.Og sama sagði nefndin í hans umdæmi. Ég átti ekki orð. Aldrei átti ég von á því að barnavernd myndi samþykkja andlegt og líkamlegt ofbeldi á börnum, en sú var raunin. Það er s.s allt í lagi að beita börn ofbeldi bara ef maður er nógu sjarmerandi og skemmtilegur.
 
Þetta voru skilaboðin.
 
Mér fannst líka hálf undarlegt að móðir hans hringdi í barnavernd og allt sem hún sagði í þessu símtali er í umsögninni en ekki helmingurinn af því sem ég sagði. Hann fær að svara mínum ásökunum og gera lítið úr þeim en ég má ekki svara hans ásökunum. Það er víst útaf því að það er verið að kanna aðstæður á hans heimili og má hann því verja sig...en ég ekki.
 
Hvers vegna má hann þá saka mig um hluti, á þetta ekki að virka eins í báðar áttir? Það vita það allir sem hafa kynnt sér siðblindu að þannig fólk svífst einskis um að ná sínu fram, það er mest sjarmerandi fólk sem þú hittir, það er skemmtilegt og maður trúir öllu sem þau segja því þau eru svo sannfærandi.
 
Það er mjög auðvelt að sjá það í heilaskanna hvort fólk er með siðblindu, ég vona að það verði gert einhverntíman í svona málum sem öðrum. En það var svo margt í umsögninni sem stakk mig.
 
Rauði þráðurinn samt í gegnum hana var sá að ég og unga konan vorum að plotta gegn honum og gerði hún lítið úr okkar orðum. Það var eins og hún væri að vinna fyrir hann en ekki börnin, umsögnin var bara þannig.
 
Umsögnin frá hinu umdæminu var miklu betur unnin og málefnalegri en hún tók þó mið af hinni umsögninni líka. Hitt umdæmið t.d furðaði sig á því að það hafi ekki verið rætt við börnin. Og þau fóru svo í viðtal hálfu ári eftir að þetta allt gerist og þá búin að gleyma öllu slæmu. Set spurningamerki við svo margt, þetta er nefnd sem er með líf barnanna minna í höndum sér, sjá ekkert að því hvernig hann kemur fram við þau en hver ber svo ábyrg ef það gerist svo eitthvað hræðilegt, ekki barnavernd það er á hreinu!
 
Sýslumaður úrskurðar svo að sjálfsögðu eftir þessari umsögn og sér ekkert hættulegt við það að þau fari til hans. Fyrst tvær helgar daglangt og svo á allt að fara í fastar skorður eins og var. Ég ákvað að leyfa þeim að fara til hans daglangt, því ég veit að hann mun passa sig extra og vera mjög skemmtilegur við þau því það er honum mjög mikilvægt að líta vel út. Það passar, fyrsta daginn mega þau ráða hvað þau gera, það er húsdýragarðurinn og kolaportið og þau koma gjöfum hlaðin heim.
 
Seinni daginn er ekki alveg eins gaman en samt rosalega skemmtilegt, helgina á eftir var fyrri dagurinn allt í lagi en fyrra barnið talaði um að síðasta daginn hafi ekki verið gaman en næst verði gaman því þá fá þau að gista. Greinilega búið að undirbúa það af hans hállfu...því hann veit að það er það sem ég hræðist mest.
 
Þegar það kom að næturgistingu sagði ég stopp. Ég fékk strax mánudaginn eftir dagsektarboð frá sýslumanni, hann s.s. ætlar að beita mig dagsektum. Ekkert mál ég borga það bara en á meðan ég fæ ráðið þá vernda ég þau, það meira segja stendur í lögum að það sé mín skylda viti ég af yfirvofandi hættu....þetta er allt í þversögn þvers og kurs.... en næsta skref er það lögregluheimsókn og börnin tekin og sett til hans. Ég er ráðþrota, ég er að reyna að gæta þeirra eins og mér ber skylda til samkvæmt lögum en svo er allt kerfið að vinna hörðum höndum að því að setja þau í hendur ofbeldismanns.
 
Það þarf að fara að endurskoða þessa stofnun barnavernd.
 
Aðsend grein