Íslensk vændiskona í viðtali


Ég þekki til hennar í gegnum sameiginlega vinkonu. Ósköp venjuleg kona á fertugsaldri, sjálfstæð móðir tveggja barna. Strákurinn er á áttunda aldursári og telpan árinu yngri.
 
Þau búa saman þrjú í fallega innréttaðri íbúð á vegum félagsbústaða, aðra hvora viku. Hina vikuna eru börnin hjá föður sínum. Hún er í hálfu starfi hjá hinu opinbera. Hún nær endum saman. En það hefur hún ekki alltaf gert.
 
Hún fékk sér aukavinnu.
 
Hún er mella. Eða hóra. Kannski vændiskona? Veldu bara það orð sem særir ekki blygðunarkennd þína, það er að segja ef þér finnst eitt heiti betra en annað yfir konur sem stunda þessa iðju sér til lífsviðurværis og af illri nauðsyn. Ég neita að trúa því að vændi sé val.
 
Hún féllst á að tala við mig, en vildi hvorki koma fram undir mynd né nafni. Lái henni hver sem vill. Fordómar eru ríkjandi allstaðar, út af öllum sköpuðum hlutum og finnast helst hjá þeim einstaklingum sem hirða ekki um að hífa buxurnar upp fyrir illa skeint rassgatið.
 
Ég kalla hana Dísu.
 
Dísa tekur á móti mér snemma morguns í köflóttum alltof stórum náttfötum, hafði tekið sér viku vetrarfrí. Ljóst sítt hárið bundið í tagl aftan á hnakkanum og inniskórnir sem eru líkan af belju eru án hárra hæla. Ekkert í fari hennar minnir á vændi, hóru eða mellu. Ósköp venjuleg og fíngerð. En taugaóstyrk.
 
Hvað viltu vita, æi hvað er ég að spá! Eins og þetta viðtal breyti nokkru. Ég var að hugsa um að svara ekki dyrabjöllunni. Þetta breytir engu svo sem, segir hún og horfir á mig alvarleg og kveikir sér í sígarettu og á kerti sem situr á miðju eldhúsborðinu.
 
Mig langar að vita hvernig og hvenær þú hófst að stunda vændi?
 
Ég skildi 2007 rétt eftir jólin. Sameiginleg ákvörðun okkar beggja og allt í góðu, þannig. Ákváðum að klára jólin, barnanna vegna. Eins og það skipti einhverju? Segir hún, lítur á mig spyrjandi og heldur áfram.
 
Eftir skilnaðinn fór ég á svakalegt flipp. Mér er minnistætt frá þessum tíma þegar ein vinkona mín hafði á orði við mig af hverju ég rukkaði ekki þessa vitleysinga sem ég væri að draga með mér heim af djamminu. Að ég hagaði mér hvort eð er eins og mella. Ég varð alveg brjáluð út í hana, sem er svolítið skrítið í ljósi þess að nokkrum mánuðum seinna, var ég farin að gera akkúrat það. Selja líkama minn.
 
Og það gerðist svolítið óvænt eða óvart. Ég hafði farið heim með manni sem ég hitti niðrí bæ, ég man lítið eftir kvöldinu,nema þegar ég vaknaði daginn eftir var hann farinn og hafði skilið eftir krumpaða þúsundkalla á borðinu. Ég varð öskuill út í hann, en ég notaði peninginn.  
 
Eftir þetta liðu dagarnir með tómum bensíntanki, nokkrum brauðsneiðum í ísskápnum og ég sjálf uppfull af hugmyndum um væntanlegan business. Að drepast úr samviskubiti samt. Sá einhvern smá ljóma yfir þessu. Sá fyrir mér fullt af peningum. Gerði meira að segja gróflega „viðskiptaáætlun“. Guð almáttugur hvað ég var klikkuð. Og er enn. Dísa tekur sér andartakshvíld og lítur undan.
 
Setti auglýsingu á einkamal.is
 
Ég setti auglýsingu á einkamal.is. Viðbrögðin voru ótrúleg. Allskyns menn. Og líka konur. Sá fyrsti kom til mín í miðri viku í hádeginu. Kennari. Mömmustrákur eins og ég kalla þá týpuna, en þeir eru skástir. Auðvelt að gera þeim til geðs. Að auki er þeir fljótir og alls ekki kröfuharðir. Þessi fyrsti er fastakúnni í dag. Mér þykir ágætlega vænt um hann. Svo hef ég auðvitað lent í allskyns viðbjóði. Mér hefur verið nauðgað, ég hef verið rænd. Ég hef verið barin. Næstum drepin einu sinni.
 
Sumir eru auðvitað meira kinky en aðrir. En allir eiga þeir eitt sameiginlegt, ég ber ekki neina virðingu fyrir þeim. Einn getur t.d. ekki haft kynmök nema klæða sig í nælonsokkabuxur og klippir þá klofið úr buxunum. Annar vill horfa á mig meðan ég fróa mér. Ég get haldið endalaust áfram. Hún lítur undan öðru sinni.
 
Hverskonar menn sækja í slíka þjónustu?
 
Menn úr öllum þjóðfélagstéttum. Sumir þekktir aðrir ekki. Eðlilega menn sem eiga peninga. Ég er t.d með tvo alþingismenn, lögreglumann, tónlistarmann og bankastjóra. Allir giftir. Í dag er ég aðeins með fastakúnna, sem ég þekki og treysti upp að vissu marki. Alltaf þeir sömu. Það er skárra en hitt helvítið. Vissi aldrei hver myndi birtast í dyragættinni.
 
Einu sinni lenti ég í hrikalega neyðarlegu atviki. Þegar ég opnaði dyrnar, stóð þar samstarfsmaður minn. Ég hélt ég myndi deyja úr skömm. Hann varð alveg eins og fífl líka, afsakaði sig og fór.
 
Og hvað, hvernig líður þér með þetta?
 
Þegar ég tala um þetta við þig, er eins og ég sé að tala um aðra manneskju. Mér ókunnuga. Ég set mig bara í „gírinn“ og læt mig hafa það. Þetta er kannski verst eftir á. Þegar ég sit ein eftir með mig og hugsanir mínar og lykt af manni sem kærir sig kollóttan um mig og mitt. Drulluskítuga samviskuna og viðbjóðinn yfir sjálfri mér.
 
Á slíkum stundum reyni ég að stappa í mig stálinu, hugsa til barnanna minna og segi við sjálfa mig: Það sem drepur þig ekki, herðir þig. Og trúðu mér, ég er hörð. Grjóthörð. Ég verð að vera það. En auðvitað er þetta viðbjóður og bara viðbjóður, sem tærir mig upp að innan. En ég er aldrei skítblönk.
 
Ég geri þetta bara fyrir peningana. Það er ekki eins og ég fái eitthvað annað út úr þessu. Ekki fæ ég fullnægingu. Hef reyndar aldrei upplifað fullnægingu á ævinni. Það er svo mikil mýta að vændi snúist um kynlíf, falleg nærföt, og látlausar fullnægingar hægri, vinstri. Þetta er hreinn og klár viðbjóður.
 
Einn daginn hætti ég. Það er bara svo fjandi erfitt út af peningunum. Mig dreymir um að flytjast erlendis. Hverfa í fjöldann. Ég er svo „paranojuð“, sé djöfulinn í hverju horni eða hitti kúnnana í Hagkaup. Það er ekki eins og eitthvað bindi mig hér, ég hef lítil afskipti af fjölskyldu minni, og er svolítið mikið ein með mitt.
 
Já, kannski geri ég það bara, flytji erlendis, segir Dísa að lokum...
 
heida@spegill.is