Misskilningur í kínversku apóteki - Sönn saga


Ég hafði ráðið mig í vinnu í Kína um tíma og hafði dvalið þar í rúman mánuð.

Ég hafði tekið hylki með í Kínaferðina sem heita Acidophylus. En þau eru góð til að láta þarmaflóruna virka eðlilega og fást í öllum apótekum og heilsubúðum hérlendis.

 

Það var orðið lítið eftir í glasinu sem ég hafði tekið með mér svo ég fór á stúfana og ætlaði að endurnýja birgðirnar. 

 

Ég fór út og finn von bráðar mjög fínt apótek, fer þar inn og spyr huggulega stúlku í hvítum slopp hvort hún tali ensku. Hún hristir höfuðið og segir eitthvað á kínversku sem ég ekki skildi.

 

Ég bendi þá á fleiri sem voru þarna fyrir innan afgreiðsluborðið og reyndi að koma henni í skilning um hvort það væri kannski einhver annar sem talaði ensku.

 

Ekki virtist það vera.

 

Þá dró ég upp hálftómt glasið og bendi á nafnið Acidoplylus á miðanum  og bendi svo á allar hillurnar til að koma henni í skilning um að ég vilji fá annað glas með þessum sömu hylkjum. Nú voru komnar tvær stúlkur til að sinna mér og sú þriðja á leiðinni.

 

 

 

 

Er nú dreginn upp þykkur doðrantur og flett í honum góða stund. Ekki fannst þetta orð sem passaði við nafnið á glasinu mínu í þessum doðranti. Og þvílíkur orðaflaumur sem stóð út úr súlkunum. Hann var ekkert venjulegur. Þær voru greinilega ekki á sama máli hvað þetta væri sem ég var að biðja um.

 

Nú var sú fjórða komin og hafði sitt að segja um þetta mál. Virtist sem orð hennar hefðu afgerandi ákvörðun í þessu máli. Hljóðnuðu nú hinar og horfðu ýmist á mig, glasið á borðinu sem á stóð Acidohylus 100 stk. eða á stúlkuna nýkomnu.

 

Virtust þær eiga í basli við að leyna lúmsku brosi sem ég veitti ekki athygli fyrr en síðar þegar ég fór að rifja þetta upp. Var nú sóttur lítill pakki sem á stóð eitthvað á kínversku. Tók ég þennan pakka ásamt glasinu mínu og er að reyna að bera þetta saman og spyrja hvort þetta sé örugglega sömu hylkin.

 

Allar sem ein kinkuðu þær kolli fullvissar um að þetta sé einmitt efnið sem á að viðhalda minni maga og ristilflóru í lagi næstu vikurnar. Dró ég upp veskið og borgaði umyrðalaust uppsett verð, sem mér fannst vera í hærra lagi.

 

Ég vildi fyrir alla muni hafa þetta í lagi. Það vill enginn fá í magann og þurfa að fara á kínverskt almenningsklósett. Trúið mér.

 

Þegar ég gekk út úr búðinni heyrði ég eitthvert tíst frá stúlkunum. Snéri mér við og fjandinn sjálfur, sú fimmta var komin.

 

Allar brostu þær hringinn til mín, hjálpsemin ein þessar elskur. Er heim í íbúð var komið skoðaði ég innihaldið í pakkanum betur. Ein stór bleik tafla. Ég varð eitt spurningamerki.

 

-Sú á að virka heldur betur, hugsaði ég. Eitthvað fór þetta samt að naga mig. Hvað var þetta eiginlega sem ég var kominn með í hendurnar?

 

Þrautalendingin varð eins og oft áður að hafa samband við gömlu mína heima á Íslandi. Ég var búinn að sjá á litla pakkanum eitthvert latneskt heiti, þrjú orð. Þetta stafa ég samviskusamlega fyrir mína. Bið hana að komast að því, hvað þetta sé sem hjálpsömu, brosmildu stúlkurnar í apótekinu seldu mér.

 

 

 

 

Það fór fram mikil rannsóknarvinna heima á Íslandi með aðstoð yngstu dóttur okkar og  "Gúggúl frænda"...

 

Næsta sem gerist er að það koma SMS skilaboð í símann minn frá gömlu minni.

 

Taflan sem þú ert með er VIAGRA. Alls ekki taka nú. Allavega ekki fyrr en ég er kominn út til þín.

 

Það er enn verið að hlæja að þessu í allri fjölskyldunni. Ég viðurkenni að sagan er góð þó ég hafi lent í þessu sjálfur. Núna skil ég vel pískrið og svipinn á afgreiðslustúlkunum þegar ég labbaði út með fjandans pillupakkann. Ég fer aldrei þarna inn aftur. Mínum viðskiptum við þetta apótek er lokið. Fyrir lífstíð.

 

Svona er að vera mállaus útlendingur í ókunnu landi...

 

Aðsend grein frá lesenda Spegilsins.

 

Átt þú eina sögu eða reynslu sem við þú deila með lesendum okkar? Ekki hika við að senda okkur tölvupóst: spegill@spegill.is.