Bókin Hundadagar eftir Einar Má


Þegar ritstjóri Spegilsins óskaði eftir að ég læsi og skrifaði um bókina "Hundadaga" eftir Einar Má Guðmundsson taldi ég mig þurfa nokkra daga til verksins - var að fara á sjóinn næsta dag og ætlaði að lesa bókina í kojunni, skrifa svo upplifun mína af lestrinum þegar í land væri komið.

 

Ákvað að byrja að fletta bókinni þegar hún barst mér í hendur en um leið og lesturinn hófst var ekki hægt að hætta.


Höfundur hefur mjög sterka nærveru og þar sem ég þekkti hann ekki - fannst mér hún þrúgandi til að byrja með. Sumir rithöfundar láta persónurnar segja söguna, stundum segir hún sig sjálf á meðan aðrir eru þétt við hlið lesandans allan tímann.

 

En þegar líða tók á lesturinn fannst mér nærvera höfundar orðin þægileg og hann leiddi mig í gegn um söguna sem í raun eru margar sögur í einni bók.

 

Mest áberandi er að sjálfsögðu Jörundur sjálfur og næstur honum er Jón Steingrímsson eldklerkur sem flestir kannast við.

 

Jörundur var sonur úrsmiðs sem starfaði m.a. fyrir konung Danmerkur og fékk sonurinn að fara með föður sínum í höllina og þar hitti hann sjálfan kónginn í eigin persónu. Síðan átti Jörundur eftir að sigla umhverfis heiminn - sumir segja tvisvar sinnum og upplifa margt.

 

Jörundur var breyskur maður sem gerði margt rangt - en það er ekki hægt annað en þykja vænt um hann og jafnvel bera talsverða virðingu fyrir honum. Maður sem fylgir sínum hugsjónum og er trúr þeim alla leið - tekur kannski nokkur hliðarspor frá þeim, ekkert óeðlilegt við það - er að sjálfsögðu stórmenni sem sagan gleymir aldrei.

 

Það er reyndar líka hægt að upplifa Jörund sem vanstilltan sveimhuga er skorti aga til að ná markmiðum sínum - en augljóslega var mikið í hann spunnið.

 

En hvað var sameiginlegt með honum og Jóni Steingrímssyni? Þeir voru báðir stórhuga andans menn sem ferðuðust um allan heiminn - jafnvel þótt Jón Steingrímsson hafi aldrei til útlanda komið.

 

Litla Ísland var hans heimur á meðan heimur Jörgens innihélt fleiri lönd og eflaust finnur höfundur sjálfan sig í þeim báðum - en hans heimur er miklu stærri en þeirra tveggja. Heimur Einars eins og allra skálda býr í höfði hans og getur verið eins raunverulegur og aðrir heimar.

 

Eftir lestur bókarinnar er ég þakklátur höfundi fyrir að hafa boðið mér í ferðalag um hans eigin hugarheima - þar opnaðist betur fyrir mér sýn á veruleikann sem ég dvel í öllum stundum.

 

Okkar heimur er nefnilega fullur af undarlegum þversögnum sem hafa það hlutverk að þroska okkur og þróa.


Bókin segir okkur þá staðreynd að sagan er okkar besti kennari í nútímanum - hún geymir alla heimsins visku - nafni höfundar - Einar Benediktsson orðaði þetta ágætlega í aldamótaljóðinu sínu: "Að fortíð skal hyggja ef framtíð skal byggja".

 

Um söguna segir Einar í upphafi fimmta kafla á bls. 17: "Þannig er sagan, mótsagnakennd og merkileg. Hún kemur stöðugt á óvart, en stanslaus barátta á milli stétta, þjóðfélagshópa og einstaklinga. Sagan er bæði sprellfjörug, skrautleg og skemmtileg en dettur stundum niður í depurð og þunglyndi, hjakkar í sama farinu árum og jafnvel öldum saman."

 

Óhætt er að taka undir að þetta sé ekki bara lýsing á sögunni heldur lífinu sem við lifum á öllum tímum - það sem við erum að upplifa núna. Það er enginn munur á lífi og sögu.

 

Svo kemur skemmtileg lýsing á skaparanum: "Guð er því einskonar sagnfræðingur og vill ekki að við gleymum því sem gerst hefur, gagnstætt þeim öllum sem alltaf eru að segja okkur að hið liðna skipti ekki máli. Við sem segjum sögur og rifjum þær upp til að minna á hið liðna erum á bandi guðs. Þannig myndi Jón Steingrímsson líta á málin væri hann spurður".

 

Óhætt er að mæla eindregið með bókinni - hún er skemmtilegt ferðalag um tíðarfar átjándu aldar en það var öld mikilla þversagna. Þá urðu stórstígar framfarir og miklar hörmungar sem gátu af sér fjölda mikilmenna sem sagan geymir í fórum sínum.

 

Einari Má vil ég þakka skemmtilega samverustund - það er frekar óvenjulegt að lesa bók sem maður finnur svona sterka nærveru höfundar.

 

En nærvera Einars Más er notalega skemmtileg - stundum sá ég hann brosandi fyrir framan mig að segja mér allan þennan fróðleik - fyrir kom að maður fann ekki nærveruna og náði að sökkva sér í söguna, svo birtist höfundur með skemmtilega athugasemd.

 

Bókin verðskuldar hámarkseinkunn og ætli hún verði ekki til þess að maður taki með sér bækur eftir Einar Má Guðmundsson í framtíðinni - til að lesa á frívaktinni úti á sjó.


 

Jón Ragnar Ríkharðsson