Vanda forvinnuna...vanda sig!


Fyrir mig getur verið stórhættulegt að horfa á sjónvarp.
 
 Ég get hreinlega orðið skaðleg umhverfi mínu og sjálfri mér með áhrifum ýmisskonar. Hugmyndaflugið leiðir mig einatt til aðgerða og oftar en ekki með einhverjum timburmönnum, eins og fyrir skemmstu þegar ég var að horfa á einn þáttinn eftir miðnætti. 
 
Framkvæmdir höfðu staðið yfir á heimilinu í þessum þætti og allt í einu langaði mig að gera eitthvað annað en að hliðra til húsgögnum eða sauma nýtt sett af gardínum eða púðum.  
 
Ég fæ þá hugdettu að mála sófaborðið, fannst það ekki passa við hvíta sófasettið. 
 
Ég opnaði málningadollu, vitandi í undirmeðvitundinni að þetta kynni ekki góðri lukku að stýra. Hvít málning varð fyrir valinu, grunn átti ég engan. Sandpappír ekki heldur. Og þar sem vantar í mig sárlega þolinmæðis-element....byrjaði ég að mála. 
 
...og ég málaði og málaði eins og ,,motherfucker" á olíuborin flöt með akríl - málningu...hverja umferðina á fætur annarri. Dreptu mig ekki, hvað þetta var heimskulegt af mér! 
 
Beið svo á meðan að málningin þornaði. Hugsaði um hvaða hluti ég ætlaði að stilla upp og allt var klárt. Upplifunin var undursamleg á meðan ég virti fyrir mér afraksturinn og hundsaði samvisku-röddina sem hvíslaði:
 
 -Heiða þú ert fífl...
 
Því næst tók ég raka borðtusku og renndi yfir þurran flötinn. Málningin máðist af á augabragði. Einmitt... 
 
Þetta var greinilega ekki að gera sig.  Ég dröslaði blýþungu borðinu frekar feitt og mikið vonsvikin ofan í baðkarið. Ég smúlaði og skafaði og eyddi lunganu úr efri part kvöldsins og nóttinni, sveitt og blaut í hrókasamræðum við sjálfa mig um hversu mikill bévítans fáráðlingur, ef ekki bara brjálæðingur ég væri.
 
Sælan var að vísu stutt en hún var sönn og góð á meðan á henni stóð. Samhliða þessu var baðherbergið smúlað í hólf og gólf. Og ég líka auðvitað. Tók loforð af sjálfri mér að þessu myndi aldrei segja frá þessu.  
 
The moral of this story is: Vanda forvinnuna. Byggðu allt sem þú gerir á traustum grunni.