Við SKJÓTUM þig á MORGUN, mister MAGNUSSON


Ég var að enda við að lesa meiriháttar ævisögu manns sem hefur átt vægast sagt ótrúlega magnað og lygilegt lífshlaup. Án efa ein athyglisverðasta ævisaga sem ég hef lesið til þessa.

 

Haukur Már Haraldson, skrásetjari sögunnar, skilar verki sínum af þvílíkum sóma og slíkri vandvirkni sem fátítt er að sjá nú á tímum, sem alla jafna einkennist af hraða og oft hroðvirkni.  

 

Ég hef ófáar bækurnar lesið og nokkrar þeirra hef ég hreinlega kastað frá mér án þess að ljúka lestrinum vegna þess einfaldlega, að ekki frekar en að ég sé hrifin af því að borða myglaðan mat – hef ég hvorki nennu, tíma eða vilja til að lesa bækur sem eru unnar í flýti.

 

Punktur.

 

Í þessarri bók er svo sannarlega ekki kastað til hendinni. Þvílík saga – þvílíkur unaður að lesa.  

 

Öll eigum við okkur jú sögu.  En þessi ævisaga er það einstök, að hún er á köflum lygileg.

 

Að mínu viti ofmeta margir sitt eigið lífshlaup og telja sem svo að það sé svo merkilegt, afrekin svo stórkostleg að sagan verði að komast út til almennings. Oft eru þetta ævisögur, þar sem ævin er rétt að hefjast...

 

Það fer alltaf svolítill kjánahrollur um mig, sérstaklega í ljósi þess að sagan býr oft yfir jafn rýru innihaldi og kartöfluflögupoki, með nokkrum flögum í, sem annars er fullur af lofti.

 

En ekki þessi. Þú færð heila bók með innihaldi á hverri síðu. Ég heillaðist af sögu Mikaels Magnússonar, karakter hans – hispursleysi, æðruleysi. Þvílíkur maður segi ég nú bara. Þvílík afrek og þá sérstaklega þetta: 

 

Mik er staðsettur í Kenya alla tíð, en var settur í verkefni víðar um heim. Meðal annars í verkefni í Namibíu, sem mér persónulega finnst vera hans merkilegasta verkefni, þar sem heil þjóð, hver einasti íbúi af þeim kynstofnum sem þar lifa, var skráður á kjörskrá og fékk fræðslu um það, hvað leynilegar kosningar væru, svo þeir gætu kosið út frá eigin forsendum en ekki annarra.

 

Í fyrrum Júgóslavíu gerðist margt magnað og skelfilegt, en það sem upp úr stendur,  er að Mik kemur á framfæri við heiminn fjöldanauðgunarbúðum serba, þar sem múslimskar konur voru markvisst gerðar ófrískar. Og loks hættir hann hjá Sameinuðu þjóðunum vegna þess að honum fannst yfirmenn þar ekki taka nógu hart á „ofbeldi“ í garð undirmanna. 

 

Árið 1964 er hann, þá Bruce Mitchell, rúmlega tvítugur Bretinn, alinn upp í Skotlandi og Malasíu sem lendir á Vestmannaeyjaflugvelli af öllum stöðum. Hann ætlaði sér að vinna í Fiskiðjunni í nokkra mánuði. Síðan líður hálf öld og í dag heitir þessi merkilegi maður, Mikael Magnússon, er íslenskur ríkisborgari með íslenska kennitölu. En örlögin höfðu ætlað honum stærra og meira verkefni. 

 

 

„Mik kvæntist í Eyjum, fór á sjóinn, setti upp leiksýningar víða um land: á Grundarfirði, á Laugarbakka í Miðfirði, á Hvammstanga, í Vestmannaeyjum, á Eskifirði og að síðustu hjá Ferðaleikhúsinu (Light Nights) í Reykjavík.

 

Hann flutti fyrstur manna fréttir á ensku í útvarpinu, var fréttaritari fyrir BBC á Íslandi í síðasta þorskastríðinu, starfaði fyrir Menningarstofnun Bandaríkjanna og hjá bandaríska hernum á Keflavíkurflugvelli.

 

Síðan lá leiðin til Afríku á vegum Rauða krossins. Svo hóf hann störf hjá Sameinuðu þjóðunum, fyrst í Namibíu og Kenýa og síðar í stríðshrjáðri fyrrum Júgóslavíu.

 

Á ævintýralegri vegferð sinni lenti Mik í mörgum sviptivindinum í starfi og einkalífi. Í þessari bók skrásetur Haukur Már Haraldsson tæpitungulaust lifandi frásögn hans af sögulegri ævi.“

 

Ég mæli eindregið með þessari bók fyrir unnendur ævisagna með innihaldi. Nei, ég mæli með þessari bók fyrir alla. Því ekki aðeins er hún skemmtileg, hún er hreinlega mannbætandi.  

 

Hægt er að kynna sér bókina nánar með því að smella hér.