Sumir dagar eru erfiðari en aðrir


Suma daga koma upp atvik sem að hafa meiri áhrif á líf þitt heldur en önnur atvik. Þetta eru atvik sem að koma upp úr þurru, allt í einu eins og þruma úr heiðskýru lofti. Þau tengjast oftast einhverjum nánum þér, fjölskyldu þinni, vinum þínum eða jafnvel þér sjálfum.

 

Ég hef lent í svona atviki. Ég sat saklaus í tíma þegar að síminn minn hringdi og það var símtal frá góðri vinkonu minni sem að átti eftir að hafa áhrif á daginn minn, næstu daga, vikur, mánuði, jafnvel ár....

 

Ég þarf ekkert að fara neitt nánar út í hvað gerðist, en allavegna þá endaði það á farsælum nótum sem betur fer en ég komst ekki að því fyrr enn seinna um kvöldið. Ég kláraði því skóladaginn með bros á vör, hitti vinkonur mínar og gerði allt eins og á venjulegum degi án þess að einhver myndi taka eftir því að ég væri bara með hálfan hug við þetta þar sem að ég var í sjokki, áhyggjufull og leið mjög ílla.

 

Þegar að ég kom svo heim og settist upp í rúm þá kom restin af sjokkinu og í þessu öllu þá fór ég að hugsa um það hvað lífið er rosalega dýrmætt og að við þyrftum að vera meira vakandi um fólkið sem að er í kring um okkur, ég skal útskýra þetta aðeins betur.

 

Ég er sjálf kvíðasjúklingur með áfallastreituröskun & þunglyndi að berjast við. Á hverjum degi mæti ég brosandi í skólann með þessa grímu sem að ég hef haft á andlitnu undanfarin ár. Fólkið sem að ég hitti á hverjum degi það horfir á mig og sér brosmilda stelpu, sem að er til staðar fyrir alla aðra en það sér ekki raunverulega mig.

 

Stelpuna sem er dáinn að innan. Það að líða svona er ekkert grín og þetta reynir rosalega mikið á. Það koma dagar þar sem að það er mjög erfitt fyrir mig að vakna og fara í skólann en ég læt mig samt hafa það.

 

Ég er orðin vön þessu, og orðin frekar góð leikkona og næ að láta flesta halda að það sé allt í himnalagi hjá mér. Ég kann orðið á sjálfan mig, ég veit hvenær að mér líður það ílla að ég þurfi að fara að fá hjálp eða að ég þurfi að tala um hlutina því miður þá eru ekki allir sem að þekkja þau mörk hjá sér.

 

Þetta á alls ekki að fjalla um mig eða mínar tilfinningar, ég er ekki að leita að vorkun með þessum skrifum heldur er ég að vonast til þess að þetta fái ykkur til þess að hugsa aðeins.

 

Manneskjan sem að þið umgangist á hverjum degi, þessi sem er alltaf brosandi er ekki endilega brosandi að innan heldur getur það verið að hún sé bara að sýnast til þess að valda ekki öðrum áhyggjum. Þessi manneskja gæti átt mjög erfitt, þessi manneskja grætur sig hugsanlega í svefn á hverju einasta kvöldi og vaknar á morgnana án þess að hafa nokkra löngun til þess en hún lætur sig hafa það, setur upp bros og fer af stað út í daginn.

 

Það gæti þurft rosalega lítið til þess að særa þessa manneskju meira, lítið korn sem að fyllir mælinn þannig að hún brotnar niður, þannig að hún fari að hugsa út í eitthvað sem að hún ætti ekki að hugsa um. Það þarf alls ekki að vera stórt, ein setning, eitt orð, eitt atvik hvað sem er. Þú veist aldrei hvað manneskjan sem að situr hliðin á þér hefur þurft að þola, sama hversu vel þú þekkir hana þá getur alltaf verið eitthvað sem að þú ekki veist. Þú getur heldur ekki vitað hvað hún hefur hugsað, hvað hún hefur reynt eða bara hvernig hún hefur það.

 

Þessi mynd útskýrir þessa „grímu“:

 

Höf: Stefanía Hrund Guðmundsdóttir

 

Ég er alls ekki að segja að þú eigir að vita þessa hluti, ég veit vel að fólk kann ekki að lesa hugsanir annara en ég vil samt biðja þig um nokkra hluti kæri lesandi.

 

Ef að þú sérð að einhverjum líður ílla, eða er einn þá skaltu hiklaust fara og athuga hvort að þú getir hjálpað manneskjuni, þó það sé ekki nema bara með því að tala við hana þar sem að það getur breytt deginum hjá mörgum.

 

Ef að þú þekkir einhvern sem að líður ílla þá skaltu ekki hika við að tala við viðkomandi og segja honum frá því að þú sért til staðar ef að viðkomandi vil tala um hlutina, og að þú sért að sjálfsögðu reiðubúin að hjálpa honum á alla þá vegu sem að þú getur, þó það sé bara að hjálpa honum við að finna viðeigandi aðstoð.

 

Aldrei fara ósáttur eða reiður út í manneskju að sofa, þú veist ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

 

Vertu óhræddur við að taka utan um fólkið sem að þér þykir vænt um, og segja því hvað þau skipta þig miklu máli og að þú elskir þau, þessi orð skipta svo rosalega miklu máli & geta gert hina verstu daga svo mikið betri.

 

Elsku lesandi vonandi gerði þessi litla hugleiðing mín eitthvað gagn, kannski hjálpar hún þér á einhvern hátt að skilja betur það sem að sumt fólk er að díla við, hvað litlu hlutirnir skipta miklu máli í svona tilfellum eða kannski hjálpar þetta þér að vita hvernig að þú átt að bregðast við. Sama hvernig þetta hjálpar þér, þá vona ég að þetta hjálpi eitthvað.

 

Við erum ekki öll eins, við erum öll með okkar bakrunn, eigum öll okkar sögu, erum öll að glíma við okkar vandamál. En þrátt fyrir það þá þurfum við öll á því að halda að vera elskuð og eiga einhvern sem að stendur við bakið á okkur sama hvað.

 

Sýnum fólkinu í kring um okkur þá ást og umhyggju sem að það þarf og á skilið að fá, því eins og við vitum flest þá vitum við ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér & þessvegna skulum við ekki fresta því að segja fólkinu sem að okkur þykir vænst um hvað það skiptir okkur miklu máli.

 

Höfundur: Stefanía Hrund Guðmundsdóttir