Kynlífi fylgir mikill subbuskapur


Við mamma vorum ósammála um suma hluti eins og gengur, þar á meðal um ástundun kynlífs. Kerlan flautaði það alfarið af og sagði einfaldlega:
 
-Oj barasta Heiða, þessu fylgir svo mikill &%$=%#!“$ subbuskapur!
 
Ég veit, hún var yndi. Þessi elska.
 
Gott, heilbrigt og reglulegt kynlíf ...(á óreglulegum tímum), er klárlega mjög mikilvægt í lífi para og/eða hjóna.
 
Algjör synd þegar pör hætta að láta vel að hvort öðru í fyllingu tímans. Finna ekki tíma fyrir hvort annað. Gefa sér ekki tíma í kynlíf.
 
Algjör synd að kynlíf skuli enn í dag vera eitthvað tabú.
 
Algjör synd að verða vitni að því í upphafi sambands þegar neistinn logar glatt, að parið hafi ekki þroska til að hlúa að sér sjálfu og ástinni sín á milli. Þess í stað eyðir það ómældum tíma í að blása ástinni yfir alla Facebook vini sína með tilheyrandi ástarlögum af YouTube.
 
Eins mikið og ég gleðst yfir ástinni sem slíkri, klæjar mig í hárendana þegar ég verð vitni að þessu innihaldslausa ástarvæli á Facebook - svo er allt búið korteri seinna!  Tærnar á mér rúllast upp í slöngulokka. Nei, má ég þá frekar biðja um einn „stuttan“...takk.
 
Gefum okkur að ég ætti kærasta á kantinum, sem ég kannski á, kannski ekki -þá kysi ég miklu heldur atlot hans, orð og snertingu. Ekki stolin ástarlög sem hafa verið spiluð göt á. Ekki teiknimyndahjörtu og yfirlýsingar um að ég væri fallegust, best, byggi til besta mat í heimi o.s.frv. helvítis kjaftæði. 
 
Ég gæti hreint alveg orðið ofbeldisfull ef hann tæki upp á því að að skvetta sinni ást á mér, yfir alla á fésinu, í tíma og ótíma, oft á dag. Hann væri þá auðvitað ekki kærasti minn, en ef svo væri, hvar yrði ég? Í hinni tölvunni að svara? Nei, takk fyrir! Ekkert annað en sýndarmennska.
 
Og ég þoli ekki sýndarmennsku. En hvað er verið að sýna með þessum háttalagi? Eigið óöryggi?
 
Stelpur og strákar: Take a note: Takið þá/þær! Kyssið og étið! Elskið og njótið! Klórið og bítið...hengið hann/hana upp á krók...hvað svo sem veitir ykkur tveimur ánægju. Do it! Kynlíf er bráðhollt. Hefur góð áhrif á blóðþrýstinginn, fitubrennsla eykst, almenn andleg líðan bætist, streitulosandi og svo margt margt fleira. Eða: Bætir, hressir og kætir, eins og stendur framan á uniformi Opal-karlana.
 
Ekki gleyma að ástin er hverful og það þarf að hlúa að henni. Bara þið tvö, enginn annar. Ástin er fegurst og best , þó þú getir ekki snert hana. Og þó þú getir ekki snert ástina með fingrunum, þá getur þú snert ástina þína. Manstu hvernig það er að finna heitt hold, raka ástríðufulla kossa, njóta samrunans, verða tryllt, sveitt og nær óð?
 
Vakna að morgni þegar ekkert var sjálfsagðara en að elskast í morgunrofanum. Ekki? Spólaðu til baka og farðu á þann stað. Sá staður er góður. Og vertu þar. Alltaf.
 
Ástin er lifandi tilfinning og henni eru engin takmörk sett. Þið gætuð sigrað heiminn saman, hlúið vel að hvort öðru og kærleikanum ykkar á milli. Undir engum kringumstæðum ætti nokkur að sætta sig við það næstbesta þegar kemur að félaga/maka. Hvað þá kynlífi.
 
Bíddu heldur.. ég veit að það borgar sig.
 
heida@spegill.is