Það sem karlmenn segja til að ...


...þurfa ekki að gera það aftur.
 
Til að komast undan því að vera beðnir aftur um að vaska upp þá gera karlmenn þetta:
 
Sulla allt út í eldhúsinu, vaska illa upp eða raða illa í uppþvottavélina. Brjóta disk eða fallegt glas sem var úr hinu fullkomna setti af 6 stk. Finna svo ekki sópinn eða fægiskófluna til að geta sópað upp eftir sig og eru sífellt að kalla:
 
-hvar er uppþvottalögurinn?
-hvar er sópurinn?
-hvar setur maður sápuna í uppþvottavélina?
-hvar er uppþvottavélin?
 
Til að komast hjá því að vera beðnir að sjá um þvottinn á heimilinu:
 
Óhreinatauskarfan er borin inn í þvottahús með hangandi haus. Hún er tæmd inn í þvottavélina (svart, hvítt og allir litir settir saman, handklæði og borðtuskur líka) bara áskrift á eyðileggingu og svo byrja köllin:
 
-hvar setur maður þvottaefnið?
-á að nota þetta í brúsanum sem stendur L eitthvað á?
-hvaða stilling er fyrir allskonar þvott?
-er ekki best að hafa sem mestan hita svo allt verði sem hreinast?
 
Til að komast hjá því að þurfa að brjóta saman þvott:
 
Þurrkarinn er tæmdur eða þvottasnúran og öllu hrúgað í sófann inni í stofu. Svo grípur hann í eina og eina flík eða handklæði og stendur með vandræðasvip yfir þessu gríðarlega þvottafjalli. Og svo byrja köllin:
 
-er best að byrja á sokkum og svoleiðis eða skiptir það ekki máli?
-þarf að brjóta saman þvottapoka, þeir eru hvort eð er svo litlir?
-ég finn bara einn svartan sokk með þessari bleiku rönd hvað geri ég þá?
-ef ég rúlla upp handklæðunum þá taka þau miklu minna pláss finnst þér það ekki?
-hvernig brýtur maður saman þessar pínu nærbrækur?
 
Til að þurfa aldrei að ryksuga aftur:
 
Hann stendur þunglamalega upp af rassgatinu og nær í ryksuguna. Nöldrar allan tíman yfir því að það sé ekkert ryk neins staðar. Og svo byrja kvartanirnar:
 
-ryksugaðirðu ekki um síðustu helgi?
-ég sé ekkert sem þarf að ryksuga hérna á gólfunum!
-ha, þarf að ryksuga undan mottunum líka?
-elskan ég held að ég hafi ryksugað sokkinn sem ég fann ekki þegar ég var að brjóta saman!
-elskan, ryksugan er stífluð!
 
Til að þurfa aldrei aftur að fara einn út í búð að versla:
 
Honum er réttur miði og á bara að kaupa það sem stendur á miðanum. Þegar út í búð er komið er svo margt freistandi að hann verslar helling af ruslfæði og kökum og kexi. Er líka búin að hringja í þig nokkrum sinnum og spyrja:
 
-þú skrifar tómatsósa en það eru til 6 gerðir, skiptir máli hvaða tómatsósu ég kaupi?
-það stendur egg hérna en ekkert hvað mörg eða í hvaða lit!
-ég ætla ekki að kaupa þessi dömubindi (hvíslað í símann)...
-álegg, hvernig álegg? Hefur þú séð úrvalið í kælinum?
-reyna að velja fallegt læri fyrir sunnudags matinn, fallegt! Þetta eru allt eins læri af dauðri rollu!
  
Já, svona voru þau orð.
 
En það eru víst til afar sjaldgæfir menn sem gera alla þessa hluti heima hjá sér með bros á vör og brjóta ekki diska heldur brjóta saman þvott.