Litla bláa fatan - sönn reynslusaga sem snertir hjarta þitt!


Reynslusaga
 
Við höfðum keypt litla bláa fötu af flugeldum fyrir barnið sem hafði gist hjá pabba sínum nóttina áður. Þegar hann kom með barnið lofaði hann að koma aftur stuttu seinna og sprengja smá.
 
 
Þrátt fyrir skilnaðarhugleiðingar hafði verið ákveðið að halda gamlárskvöldið saman, rétt eins og jólin.
 
Klukkan var orðin 15:00 og aðrir pabbar voru úti að sprengja með krílunum sínum. Sjálf er ég ekki mikið fyrir flugelda - hálf smeyk við þetta dót. En hann var jú búinn að lofa að koma snemma og sjá um þessi mál.
 
Barnið spyr: Hvenær kemur pabbi að sprengja með mér?
 
Ég skal hringja elskan, segi ég, enda var löngu kominn tími.
 
Þessari upphringingu var ekki vel tekið, en lofað að koma mjög bráðlega.
 
Klukkan er orðin 16:30 og ennþá situr barnið með litlu bláu fötuna sína við gluggann.
 
Fer pabbi ekki að koma?
 
Ég hringi aftur - viðurkenni að ég var orðin frekar fúl. Leiðist þegar barnið mitt þarf að bíða og bíða.
 
Nú - ef þetta er svona mikið vandamál þá kem ég bara ekki neitt, var svarið sem ég fékk.
 
Ég þakkaði fyrir að fá að minnsta kosti að vita það. Gæti þá gert ráð fyrir breyttum plönum og yrði greinilega að bjarga þessu sjálf. Var bara að dunda við matargerðina, steikin í ofninum - allt átti að vera gott. Hátíð barnanna. Maturinn átti að vera tilbúinn kl 18:00 og hafa síðan góða stund með barninu.
 
Um 17:30 er lykli stungið í skránna.
 
Pabbi mættur - en í þvílíkum ham.
 
Kemur inn á ganginn og byrjar að öskra og skammast. Barnið fer að gráta og biður hann að hætta. Hann heyrir ekki eða lætur sem hann heyri það ekki. Öskrar á mig áfram þrátt fyrir bænir barnsins um að hætta þessu.
 
Ég man eftir orðunum: Ég skal taka þig niður og gera þig að engu. Með það þrífur hann grátandi barnið, berhöfðað og illa klætt og ríkur með það út.
 
Ólýsanleg tilfinning fer um mig. Ég stóð eins og ég hefði verið slegin. Grátur barnsins ómaði ennþá í eyrunum, hræðslan í litlu fallegu augunum. Hvað á ég að gera?
 
Fyrsta hugsunin er að hringja á lögregluna. Kemst að því að lögreglan getur ekkert gert. Við erum jú ennþá gift þótt hann sé fluttur út. Er bent á að hringja til barnaverndar.
 
Geri það. Gef upp símanúmer mannsins, en barnavernd getur heldur ekkert gert. Spyr hvort ég haldi að barnið sé í hættu. Hvort um væri að ræða áfengi eða slíkt. Ekki taldi ég það vera.
 
Hringi í systur mína og skýri henni frá málum.
 
Hringi loks í meðferðarráðgjafa sem hafði meðhöndlað manninn mörgum árum áður. Það var gott að tala við hann. Hann sagði mér að gera ekkert. Reyna að fara jafnvel út til vinkvenna. Reyna að slaka á. Hér væri um stjórnsemi að ræða.
Þegar ég hafði talað við hann ákvað ég að hringja á lásasmið. Maðurinn skyldi ekki hafa lykla af íbúð minni framar og geta ætt svona inn með þessum látum.
 
Hálftíma síðar mættu alveg indælir feðgar. Þeir unnu að því að skipta um læsingar. Meðan þeir voru að þessu kemur maðurinn æðandi. Ég spyr hin rólegasta um barnið. Hann segist hafa skilið það eftir hjá vini sínum, en honum vanti föt og flugeldafötuna góðu. Ég læt hann fá þetta.
 
Litlu bláu fötuna sem búið var að sitja með við gluggann allan daginn.
 
Lásasmiðirnir sem urðu vitni að þessu áttu ekki orð. Eftir að þeirra störfum var lokið kvöddu þeir með virktum og sögðust vonast til að allt færi vel.
 
Ég settist inn í stofu og reyndi að horfa á áramótaskaupið. En augun voru of full af tárum og hugurinn annars staðar. Hvernig leið elsku litla barninu. Af hverju að gera þriggja ára barni þetta?
 
Skreið upp í rúm og hlustaði á sprengingarnar þegar nýja árið gekk í garð. Tárin héldu áfram að leka niður í koddann. Ég gat ekkert gert. Fyrir mér voru ekki áramót. Vonaði að það hefði allavega verið sprengt upp úr litlu bláu fötunni. Að það hefði veitt einhverja gleði einhversstaðar þarna úti í myrkrinu.
 
Sofnaði loksins.
 
Barnavernd hringdi daginn eftir. Hafði ekki náð í manninn. Hvatti mig til að reyna að hringja aftur sem ég gerði. Ekkert svar.
 
Fékk upphringingu seinna um daginn. Barnavernd hafði náð í manninn og fullvissaði mig um að allt væri í lagi.
 
Það var nýársdagskvöld. Til allrar lukku átti ég góða vinkonu. Við ákváðum að fara í bíó með vini hennar. Hann kom og sótti mig - ég var jú bíllaus. Við fórum og sáum Avatar. Ofboðslega góð mynd.
 
Daginn eftir, 2. janúar kom hann loks með barnið. Hann var einn heima - foreldrar hans fjarverandi. Gat þess vegna ekki sinnt henni sjálfur. Eða eldað mat. Á gamlárskvöld hafði hann verið hjá vini. Barnið sagði mér frá því að kona vinarins hefði verið góð. Sýnt því dót og lesið bók. Lakkað á henni neglurnar. En það var hrætt í ókunnu húsi í ókunnugu rúmi. Því var kalt. Vildi bara fara heim. Pabbi hennar upptekinn af því að spjalla við vin sinn. Lítið að spá í tilfinningar lítils barns sem hafði verið þrifið heiman frá sér í illindum og látum.
 
Seinna fékk ég skýrslu frá barnaverndarnefnd vegna þessa atviks. Þar stóð skýrum stöfum að faðir hefði þurft að fjarlægja dóttir frá ofurölvi móður (á þetta plagg til). Ég starði á þessi orð þegar barnaverndarfulltrúi rétti mér skýrsluna. Leit upp. Var ekki verið að grínast í mér?
 
Lásasmiðirnir góðu brugðust fljótt og vel við. Held að maðurinn hafi steingleymt þeim í þessu lygaferli sínu. Þeir sendu bréf til barnaverndarnefndar þess efnis að ekkert áfengi hefði verið að sjá og þessar ásakanir væru í hæsta lagi fáranlegar.
 
Viðbrögðin við þessum vitnisburði frá manninum voru jafnvel með enn meiri ólíkindum: Hann neitaði að hafa nokkurn tíma talað um gamlárskvöld. Sagði það misskilning hjá barnavernd. Þetta hefði verið annan í jólum.
 
Merkilegt. Þar sem enginn á okkar vegum hringdi í 112 eða barnaverndarnefnd á annan í jólum. Hvað þá lögreglu. Það var skjalfest og vottað hjá lögreglu, barnavernd og 112 (sem tekur jú upp öll símtöl) að þetta var á gamlárskvöld. En samt reifst hann um dagsetningar við barnavernd.
 
Þetta var upphafið á endurteknum atburðum að svipuðu tagi. Atburðum sem hafa sett sitt mark á barnið, enda var það notað til að klekkja á mér. Saklaust barn. Þrátt fyrir ungan aldur man hún þetta ennþá – ásamt öðru. Því sár á lítilli sál skilja eftir sig ör.
 
Ég veit að þessi atburður ásamt öðrum voru til þess gerðir að særa mína sál. Það er með ólíkindum að faðir átti sig ekki á sárunum sem hann veitti sínu eigin barni á sama tíma.
 
Kannski er honum sama.