Kennum börnum ábyrgð og sjálfstæði


Þegar við fæðumst höfum við eingöngu vit á grunnþörfum. Næringu, hreinlæti og mjög fljótlega ást. Við elskum þann sem sér um okkur og séum við nærð af einlægri ást þess utan, þá verðum við hamingjusöm börn.
 
Þegar við eldumst eru settar á okkur ýmsar kvaðir. Mismunandi eftir aðstæðum. En sem börn foreldra okkar trúum við þeim og treystum, sýnum þeim fullkomna ást.
 
Þess vegna er foreldrahlutverkið svo afar mikilvægt.
 
Fær barnið að fylgja hjarta sínu, eða þarf það að fylgja kröfum foreldra?
 
Þegar barnið er ungt fylgir það kröfum foreldra, það hefur ekki annað val. Barnið mun gera sitt allra besta til að geðjast foreldrum sínum. Það er þess eðli. Þess vegna er ábyrgð okkar svo mikil – okkar foreldra.
 
Hlustum við eftir þörfum og persónu barnsins, eða setjum við okkar eigin kröfur og væntingar í forgang?
 
Þetta var bara ein setning – en mikilvægi hennar er þyngri en allt sem hægt er að bera.
 
Það er svo afar auðvelt að setja börnunum okkar skilyrði sem þeim ekki hentar. Við höldum að við séum kannski að gera þeim gott. Höfum okkar eigið uppeldi og lærdóm sem fyrirmynd. En er það eitthvað sem hentar börnunum okkar? Erum við of föst í eigin kreðsum og væntingum? Getum við sett okkur í þeirra spor þegar þau þroskast, eða krefjumst við þess að þau feti í okkar spor. Upplifi okkar væntingar?
 
Því miður eru allt of margir fullorðnir sem gera þá kröfu að börn þeirra fylgi þeirra reglum, þeirra hugsjón og þeirra væntingum. Án þess að hlusta eftir því hvað barnið vill. Hvað barnið getur. Hvaða tilfinningar það hefur. Hvaða persónuleika það hefur. Það sjálft.
 
Ef foreldrar eru það sjálfmiðaðir að þeir geti ekki sett sig í spor annarra, þá hefur barnið lítið val. Það er dæmt til að fylgja annarra kröfum. Veitir það því hamingju þegar fram líða stundir?
 
Hefur það verið alið upp á þann hátt að hlusta á eigið hjarta frekar en að hlýða öðrum í blindni?
 
Öll börn þurfa staðfasta rútínu og aga sem felur í sér ástúð. Þau þurfa líka fyrirmyndir, en ekki á þann hátt að þau séu skikkuð til að feta í fótspor fyrirmyndanna. Að ekkert annað sér gott og rétt.
 
Nú eru allir misjafnir. Öll höfum við fengið misjafnt uppeldi. Sumir brjóta sig frá því sem þeim er kennt og sem þeir sjá. Aðrir ekki. En það er ríkt í okkur að fylgja fyrirmyndum og fyrirmælum þeirra sem við treystum sem börn.
 
Börn sem alast upp við frelsi til að hafa skoðanir, án þess að þau skorti aga, geta betur tekið ákvarðanir á eigin forsendum. Sem er þeim nauðsynlegt í framtíðinni.
Öll börn þurfa að læra að taka ábyrgð. Geta verið sjálfum sér nóg og taka ábyrgð á sjálfum sér þegar þau eldast. En til þess að það geti orðið þurfa foreldrar að sleppa af þeim hendinni. Láta þau sjá um sig sjálf og fylgja eigin draumum og væntingum. Á eigin forsendum.
 
Algerlega sjálf, án stuðnings foreldra.
 
Ef foreldri stjórnar barninu ávalt, sama hvað það eldist, mun að aldrei öðlast sjálfstæði. Ef foreldri sleppir aldrei, lætur barnið ekki synda sjálft og sjá um sig sjálft – þá mun það læra að hlaupa alltaf heim ef eitthvað bjátar á. Það þarf nefnilega ekki að taka ábyrgð – foreldrið er búið að kenna því það. Þá er hætt við því að hjónaband þess og foreldrahlutverk bíði skaða – það má alltaf hlaupa undan ábyrgð.
 
Já, barnið orðið þrítugt, fertugt eða fimmtugt. Ennþá treystir það á foreldra sem alltaf hafa hlaupið undir bagga – tekið alla ábyrgð fyrir það. Það þarf ekki að taka ábyrgð á samböndum, hjónabandi, jafnvel ekki sínum eigin börnum. Mamma og pabbi redda þessu.
 
Þetta er ekki lengur barn. Hefur kannski eytt lífi sínu í að geðjast foreldrunum – tekist eða ekki tekist, en veit að það getur alltaf stólað á aðra. Hefur aldrei þurft að stóla á sjálft sig.
 
Þetta – gott fólk, er ekki góð pólitík.
 
Barnið þitt er sérstakt. Þú getur stutt það til dáða, en aldrei nokkurn tíma taka af því alla ábyrgð. Sama hvað á gengur. Ekki taka frá því sjálfstæðið. Aldrei. Hver og einn einstaklingur þarf nefnilega að finna sjálfan sig og bera ábyrgð á sjálfum sér þegar fram líða stundir.
 
Góðir foreldrar grípa ekki inn í það ferli. Við foreldrar verðum nefnilega ekki alltaf til staðar til að redda öllu og taka ábyrgð á öllu.