Að þrífa einsog fagmaður!


Heimilið og hjartað
 
Heimili mitt er klárlega þar sem hjarta mitt er. Ég hef alltaf lagt mikið upp úr því að skapa þægilegt andrúmsloft, þar sem ég bý. Til að mér (og mínum) líði vel, þá verð ég að hafa hreint og fínt í kringum mig. 
Hér koma nokkur hagkvæm og tímasparandi ráð sem ég hef tileinkað mér. Þið kunnið þetta sjálfsagt allt, allar! En sjaldan er góð saga of oft sögð.

Ég og allir mínir...
 
...hreinsum og skolum matardiskana strax að máltíð lokinni. Góður vani og auðveldur og sparar þvílíkan tíma þegar kemur að uppvaskinu sjálfu. Eða áður en sett er í uppþvottavélina. Hver nennir að hamast á eldgömlum matarleifum? Ekki ég, svo mikið er víst.
 
Speglar og gler
 
Ég nota alltaf edik og gamalt dagblað á alla speglana mína og rúður. Virkar alveg jafn vel og rúðuúði, ef ekki betur. Speglar lausir við kám -og heimilið virkar hreinna.
 
Bakaraofninn
 
Ég úða ofninn að innan með þar til gerðu hreinsiefni, að kvöldi og læt standa yfir nótt. Daginn eftir strýk ég innan úr honum. Undantekningalaust renna óhreinindin af, án mikils erfiðis.
 
Örbylgjuofninn
 
Ég set vatn í skál og sýð á hæsta styrk inn í örbylgjuofninum í nokkrar mínútur. Gufan losar um öll óhreinindi. Eftirleikurinn er auðveldur; einfaldlega að strjúka óhreinindin áreynslulaust í burtu.
 
Ísskápurinn
 
Þegar ég er búin að tæma allt úr ísskápnum og henda ef þess þarf, blanda ég bökunarsóda og vatni saman til helminga í skál. Frábær blanda til hreinsunar, að auki lyktar skápurinn vel á eftir. Ég byrja að sjálfsögðu efst og vinn mig niður.
 
Ég hef vanið mig á að hafa alltaf pappír í neðstu skúffunni þar sem ég geymi grænmetið og ávextina. Það auðveldar mér að halda skápnum hreinum. Þegar skápurinn er orðin hreinn og matvælin eru komin á sinn stað: Helli ég ediki til helminga saman við vatn í skál og læt standa yfir nótt. Ef lykt var einhver, þá hverfur hún með öllu.
 
Baðherbergið
 
Ég er með flísar á baðherberginu og nota sítrónuolíu til að bera á fúguna. Þetta kemur í veg fyrir að fúgan mygli á milli flísanna. Olían er borin á með þurrum klút. Ég nota afgangs kók sem salernishreinsi. Sýran í drykknum leysir upp óhreinindin og drepur bakteríur.