Fyrir og eftir Photoshop


Í öllum tímaritum og víða á netinu má finna umfjallanir um fallega og fræga fólkið. Fullkomin húð, sléttur magi, stinn brjóst og skjannahvítar tennur er það sem oftast blasir við okkur. Þótt það sé almenn vitneskja að þessar myndir séu allar unnar og lagaðar í tölvu, þá hafa viðmiðin okkar um fegurð brenglast. Mismikið kannski en oft meira en okkur grunar.
Margir muna eftir myndbandinu sem Dove sendi frá sér sem sýnir glöggt mátt tölvunnar til að breyta útliti fyrirsætunnar þannig að hún virðist fullkomin. Ég fagna því að fyrirtæki í þessum geira skuli kjósa sér þá markaðssetningu sem Dove hefur valið sér. Það er ofboðslega heilbrigt mótvægi.
 
En staðreyndin er sú að börnin okkar eru kynslóðin sem fæðist inn í þennan feik heim. Átröskunarsjúkdómar greinast í alltof ungum krökkum og fréttir berast af bótoxi sem sprautað er í kornungar stelpur. Tískuheimurinn og fegurðardýrkunin er að skaða börnin okkar, sérstaklega hér í vestrænu menningarsamfélagi. Auðvitað er það á ábyrgð foreldra að stuðla að heilbrigðu sjálfsmati hjá börnum sínum en keppinautarnir eru harðir í horn að taka.
 
Ég tók smá rúnt á youtube með krökkunum mínum ekki fyrir löngu síðan, í þeim tilgangi að sýna þeim hversu öflugur töfrasproti Photoshopið er. Þar er að finna mikið af fyrir og eftir myndum af fræga fólkinu. Krakkarnir höfðu mjög gaman af þessu en voru samt undrandi yfir því af hverju fólkið vildi ekki bara vera það sjálft. Persónulega varð mömmuhjartað mitt rólegra eftir á, því ég komst að því hversu heilbrigt sjálfsmat þeirra er enn sem komið er.
 
Ég vona að sem flestir foreldrar gefi sér tíma til að horfa á sams konar myndbönd með sínum krökkum, bæði dætrum og sonum. Það er harður heimur þarna úti og einstaklingur með heilbrigt sjálfsmat og ögn raunsærri hugmynd um það sem birtist okkur, kemur til með fóta sig mun betur þegar að því kemur að foreldranir þurfa að sleppa tökunum. 
 
 
 
 
 
Pistlahöfundar á Speglinum endurspegla ekki endilega skoðanir ritstjórnar vefsins, þó að ákveðin stefna ríki um birtingu á efni. Skrifin eru á ábyrgð greinahöfunda.