Edik sem heilsumeðal eða hreinsilögur?


Hægt er að nota edik í matargerð, sem heilsumeðal, gegn slæmri lykt og fleira og fleira. Vissir þú að gott er að drýgja tómatsósuna með því að skella saman við slettu af ediki? Vissir þú að dauðhreinsa má skurðbretti með því að strjúka yfir þau með óblönduðu ediki? 
 
Edik er afbragð við sólbruna:
Vættu hreinan klút upp úr ediki og leggðu hann yfir sólbrennda svæðið. Þú finnur strax fyrir kælingu eftir að edikið hefur gufað upp.
 
Edik er snilld við gigt:
Settu tvær matskeiðar út í glas af vatni og drekktu nokkrum sinnum yfir daginn. Þessi blanda ætti að slá á verkina. 
 
Edik er gott við hálsbólgu:
Hrærðu einni teskeið af ediki á móti einu glasi af vatni og drekktu. Bólgan ætti að hjaðna og hálsinn róast. 
 
Edik er ómissandi í fótabaðið:
Bættu ediki saman við vatnið. Sé þetta endurtekið daglega í einhverntíma, munu fæturnir verða þér þakklátir. Hart skinn mun að engu verða og fæturnir þínir verða mjúkir og fallegir sem aldrei fyrr.   
 
Edik er ómissandi þurfi þú að ná af gömlum límmiðum af t.d. ísskápnum: 
Nuddaðu vel af ediki á límmiðann sem má missa sín og láttu standa um stund. Nuddaðu aftur. Ef þetta ráð virkar ekki, má prófa olíu. Hvaða olíu sem er.
 
Edik er afbragð í matargerð: 
Settu smá slettu af ediki út í vatnið þegar þú sýður egg. Þetta ráð kemur í veg fyrir að eggið springi.
 
Láttu seigt kjöt liggja í ediki yfir nótt og kjötið verður meyrt og fínt. 
 
Ef þú hrærir einni matskeið af ediki út í bolla af nýmjólk og lætur standa í 5 mínútur, ertu komin með súrmjólk.
 
Ein skeið af ediki út í soðvatnið þegar þú ert að sjóða hrísgrjón, kemur í veg fyrir að grjónin festist saman.
 
Edik er gríðarlega gott fyrir gæludýrin:
Blandir þú einni teskeið út í vatnsdallinn, minnkar það lykt og feldur gæludýranna verður fallegri og meira glansandi. Einnig gott að úða blöndu af vatni og ediki á staði þar sem kettir eiga það til að klóra. Snilldar lausn er að nota edik til að þrífa fiskabúr sem og hlandbletti. 
 
Edik er góður leðurhreinsir: 
Blandaðu saman 1/4 bolla af vodka, 1/4 bolla af ediki og loks 3 dropa af ólífuolíu og settu í ílát með loki. Hristu vel. Þurrkaðu af leðursófasettinu eða bílsætunum með blöndunni. Það þarf ekki að hreinsa af á eftir.
 
Edik og þú upplifir þig saddari:  
Vísindamenn hafa komist að því að neytir þú ediks finnur þú síður fyrir svengd. Mælt er með tveimur til þremur matskeiðum út í drykkarvatnið áður en þú snæðir. Edik kemur jafnframt jafnvægi á blóðsykurinn. 
 
heida@spegill.is