Drífið ykkur í bað!


 Já, nei nei – ég er ekki að segja að þið séu óhreinir svitastorknir skítaplebbar – alls ekki. Hinsvegar finnst mér nútímafólk fara alltof sjaldan í bað. BAÐ – ekki sturtu. Við konur (og menn) eigum það öll sameiginlegt að vera með húð sem þarfnast vökva.

 

Húðin okkar er „líffæri“ og vinnur misjafnlega eftir því bæði hvaða erfðaþætti við höfum og hvernig við förum með hana. En við erum ekkert endilega að fara vel með þetta afar mikilvæga líffæri okkar. Við steikjum okkur í sólinni án þess að skýla húðinni fyrir geislum sem geta haft skaðleg áhrif.

 

Við spöslum (já – spöslum) meiki og allskyns dóti á andlit okkar, sem kemur í veg fyrir eðlilega vinnslu húðarinnar. Allt er þetta gott og blessað í hófi. En húðin okkar tekur ekki endalaust við misþyrmingum nútíma útlitskrafna ef henni er ekkert sinnt í staðinn. Við vitum öll hvað kemur fyrir fugla sem lenda í olíubrák. Ef þeir eru ekki hreinsaðir – þá deyja þeir.

 

Þeir voru ekki skapaðir til að svamla um í olíu og drullu sem við mannfólkið slysumst til að missa í þeirra eðlilegu vistarverur. Eins var húðin okkar ekki útbúin fyrir allt það jukk sem við oft setjum á hana. En sem betur fer erum við kröftugri en fuglarnir og lifum þetta af. Flestar bjútídúllurnar passa uppá andlitið með því að hreinsa og smyrja á það kremum eftir að vera búnar að drekkja því í farða allan daginn. Sem er gott.

 

Ég fékk alveg yndislegt comment um daginn frá dóttur minni sem er heilum þrjátíu árum yngri en ég. „Mamma – þú ert með minni appelsínuhúð en ég“ !!!!! Viti menn – það er alveg satt. Afhverju er ég – næstum hálfsaldrargömul kerlingarskrukka ekki með læri eins og lífrænt ræktaðar sveskjur? Ég aldist upp við það að fara í bað. Það var ekki sturta á mínu heimili.

 

Stundum í gegnum tíðina hafa húsnæðismál eingöngu boðið uppá sturtubað, sem mér finnst hræðilegt. Ef ég kemst í bað – þá fer ég í bað og ég hef ekki farið í sturtu í mörg ár. En fer í bað daglega. Í hverri viku bæti ég barnaolíu í baðið. Já, svona er lífið einfalt. Best fyrir barnið – best fyrir þig. Húðin fær nægan raka og aukalega með því að bæta olíu við stöku sinnum.

 

Þetta er ekkert flókið. Raki og hreinlæti. En þeir sem fara alltaf í sturtu eru ekki að gefa húðinni nægilegan raka. Þú stekkur inn í sturtuna – makar þig í sápu (sem er ekki það besta eingöngu) þurkar þig og ert hrein. En húðin fékk engan tíma til að draga í sig þann raka sem hún þarf. Þannig að – drífið ykkur í bað, og njótið þess að næra húðina um leiða og þreytan hverfur og vöðvarnir slakna.

 

Sturta er bara fyrir stressbolta.

 

Fylgstu með okkur á Facebook!