Súkkulaði- og pappapáskaegg -búðu til þitt eigið


Það getur verið gaman að búa til sín eigin páskaegg. Ég er að ljúga, því það ER mjög skemmtilegt. Og alls ekkert erfitt. Viðurkenni þó, að í byrjun, voru eggin mín ævintýralega ljót.
 
En eftir nokkrar frekar vandræðalegar útkomur, hafðist þetta. Eggin mín líta ekki út lengur eins og mölbrotinn ljótur kúkur í fýlu...í miðri skál...
Það sem þarf fyrst og fremst er slatti af þolinmæði. Finndu hana einhvers staðar, á meðan ég leita að minni...
 
Langi þig að gleðja þig og þína með ekta súkkulaði er hér ein klassík:
 
Súkkulaðipáskaegg
 
Áhöld og efni: Páskaeggjamót, þitt uppáhalds hjúpsúkkulaði, sælgæti í fyllingu og skreytingar ef þú kýst. Málsháttur á miða, sem er sérstaklega saminn handa þínu liði. Fínt að finna til skraut við hæfi og einn lítinn og sætan páskaunga.
 
Svona steypum við súkkulaðiegg:
 
Þú þarft að eiga páskaeggjamót en þau fást í búðum. Mótið er þvegið eftir notkun og geymt til næsta árs. Mæli einnig með því að mótið sé þvegið FYRIR notkun, jafnvel þótt það sé nýtt í umbúðunum.
 
Bræddu súkkulaðihjúpinnn þinn í potti og penslaðu með frekar fínum pensli inn í mótið.
 
Láttu súkkulaðið storkna vel og penslaðu síðan aðra umferð yfir þurra yfirborðið.
 
Endurtaktu þetta þangað til páskaeggið er orðið passlega þykkt.
 
Passaðu vel að súkkulaðið fari inn í allar glufur á mótinu svo eggið verði fallegt og heilt. Settu mótið inn í frysti á milli þess sem þú setur ný lög.
  
Þegar eggið hefur náð réttri þykkt skaltu kæla það vel og þá getur þú losað það varlega úr mótinu. Hvert mót býr til hálft páskaegg og nú þarf að líma helmingana saman og setja inn í þá fyllingu og málshátt. Notaðu bráðið súkkulaði til að líma eggið saman og setja fótinn undir.
 
Í stórt egg um 400 gr af súkkulaði.
 
Skreyttu eggið af þinni alkunnu snilld og skelltu loks litla unganum á toppinn. Þú festir hann að sjálfsögðu einnig með bráðnu súkkulaði.
 
Langi þig hinsvegar að gleðja þína með risastóru pappaeggi, þá er aðferðin svipuð og sú fyrri, nema nú vantar blöðrur, dagblaðapappír í ræmum, veggfóðurlóm, plastbikar, liti og efni til skreytinga.
 
Risapappaegg - aðferð:
 
Blástu upp kringlótta blöðru. Hnýttu endann á blöðrunni.
 
Dýfðu ræmum úr gömlum dagblöðum í veggfóðurlím og settu utan á blöðruna. Settu fjögur eða fimm lög af dagblöðum. Láttu þorna alveg.
 
Flott er að gera "fótinn" eða eggjabikarinn úr einhverju notuðu plastíláti eins skyrdollu. Dagblaðaræmur eru vættar í veggfóðurslími, og raðað bæði að utan og innan á ílátið. Minnst þrjú lög. Láttu þorna vel.
 
Þegar eggin og bikarar eru orðið þurrt þá getur þú málað og skreytt af hjartans list.
 
Gleðilegan páskaundirbúning!
heida@spegill.is