Kryddaðu tilveruna með þínum eigin kryddjurtum!


Mikið lifandis skelfingar ósköp langar okkur að eiga lítinn og sætan kryddgarð; nokkra potta sem við gætum gengið í þegar verið er að dunda sér í eldhúsinu.
 
Hér kemur óskalistinn...hagnýtur fróðleikur fyrir okkur öll.
 
Kryddin sem okkur langar til að eiga, og finnst reyndar nauðsynlegt og ýmislegt leggjandi á sig til þess einmitt; að koma þeim upp í potti.
 
Eru þessi:
 
 
Basil
Í ítalska og asíska rétti er basil algjör nauðsyn. Jurtin elskar sólina og næringarríkan jarðveg.
 
 
 
Graslaukur
Með mildu laukbragði, fyrirtak í bakaða kartöflu og salöt svo eitthvað sé nefnt. Plantan er falleg þegar hún blómstrar litlum fjólubláum kúlum.
 
 
 
 
Mynta
Mér skilst að það sé lítið vesen á myntunni; að hún vaxi auðveldlega og hratt. Hins vegar eru til mörg afbrigði af myntu og þar er kannski úr vöndu að ráða.
 
 
 
 
 
Óreganó
Við erum komin til Grikklands, Mexíkó og Ítalíu...fullkomið krydd í sósur, súpur, pasta, bauna- og kjötrétti. Þetta krydd missir ekki svo mikið af bragðinu þegar það er þurrkað, enda eigum við það flestar í skápunum.
 
 
 
 
 
 
Steinselja
Ekki bara til skrauts, heldur gefur steinseljan smá sítrus kikk í salötin, súpurnar, á kjötið, grænmetið, kartöflurnar eða fiskinn. 
 
 
 
 
Rósmarín
Uss, ég skrepp nú bara á torgið mitt að sækja þetta, þar vex það í bunkum. En kryddið er ekki eingöngu ætlað kjúklingi, heldur svíni, nauti, kartöflum og öðru grænmeti. Í köldu loftslagi er gott að taka plöntuna inn yfir vetrartímann.
 
 
 
Kóríander
Týpískt krydd í mexíakanska rétti. Ég sulla þurrkuðum kóríander út í súpur og salsa, hægri vinstri. Væri svo vel til í að eiga eina jurt eða svo.
 
Ef við ætlum nú að láta slag standa, við sem eigum engan garð. Bara svalir og eldhúsglugga, þá er okkur ráðlagt að veita plöntunum gott rými.
 
Rúmgóðan pott og góða mold, góða birtu...til dæmis glugga í suður. Vökva þegar yfirborðið er nánast þurrt, alls ekki drekkja þeim. Og svo að sjálfsögðu nota greyin, það gerir vextinum gott.